gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Gengið í minningu Prestaskólans · Heim · Menningaráhrif Biblíunnar – Prédikun »

Frábærir Klezmertónleikar Fílharmóníu og Ragnheiðar Gröndal

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.30 7/10/07

Sannarlega sá ég ekki eftir að hafa drifið mig á Klezmer-tónleikana í Seltjarnarneskirkju í gær sem söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Margnúsar Ragnarssonar, söngkonan góðkunna Ragnheiður Gröndal og þjóðlagasveit Hauks Gröndal stóðu fyrir. Hreint magnaðir tónleikar og hin gyðinglega Klezmertónlist hljómaði einstaklega vel í sóknarkirkjunni minni.

Ragnheiður Gröndal hefur áður sýnt það og sannað  hversu frábærlega fjölhæf söngkona hún er. Í fyrra dáðist ég að henni syngja Kaldalónslög í brúðkaupi dóttur minnar en mér er nær að halda að Klezmer-tónlistin eigi sérstaklega vel við hana. Ekki finnst mér ónýtt að vita af því að ein okkar fremsta söngkona hafi heillast að þessari tegund tónlistar sem hefur um nokkurt árabil verið mitt uppáhald á sviði tónlistar.

Fyrst heyrði ég Ragnheiði spreyta sig á þeirri tónlist á útgáfutónleikum þjóðlagasveitarinnar Schpilkas í Iðnó 10. júní 2005 en það var að uppistöðu til dönsk hljómsveit sem Haukur Gröndal, bróðir Ragnheiðar, hélt úti. En músíkin beinlínis geislar af þeim manni.

Það held ég að hafi verið frumraun Ragnheiðar í glímunni við jiddíska tónlist og tók hún þá nokkur lög með hljómsveit bróður síns og lyfti þeim tónleikum með því framtaki sínum. Fáeinum dögum síðar heyrði ég þau aftur á umdæmisþingi Rótarýhreyfingarinnar í Garðabæ.

Leyndi sér þá ekki að þetta var tónlist sem höfðaði til hennar þó hún væri aðeins að stíga sín fyrstu skref.

Nú hefur Ragnheiður þjálfast í þessari tegund tónlistar og var hrein unun að heyra hana syngja hið gullfallega lag “Hinne ma tov” (hebreska) við 133. Davíðssálm: (”Hversu yndislegt er það…”).

Lagið skrái ég hér með á lista minn yfir áhrifasögu Davíðssálma í menningunni.

Og ekki var síðri söngur hennar á laginu ”Jiddishe mame” sem er óður til móður eða mæðra.

Í heild voru tónleikarnir frábær skemmtun, Söngsveitin Fílharmónía stóð sig með stakri prýði undir öruggri stjórn Magnúsar Ragnarssonar, léttri og skemmtilegri.  Skemmtilegt var t.d. atriðið þegar sveitin framkallaði rigningu með búkhljóðum.

Brúðkaupslögin ”Chosn kale mazel tov” og ”Nigun atik” (sem er bæn fyrir brúðhjónum) þóttu mér bæði mjög falleg en óþarfi er að telja upp fleiri lög. Þetta voru pottþéttir tónleikar – allt í gegn, frá upphafi til enda. Enda voru undirtektir áheyrenda eftir því.

Hvert sæti var skipað í kirkjunni í gær og í hléi gafst áheyrendur kostur á að kaupa sér ljúffenga gyðingaköku. Tónleikarnir voru teknir upp og verða gefnir út á diski og gat fólk skráð sig áskrifendur að þeim. Þá voru einnig til sölu tveir diskar  með Schpilkas-sveit Hauks Gröndal (Sey mir gesunt og So long Sonja) en jiddíska tónlist er fyrirferðamikil í þeim báðum. Að sjálfsögðu keypti ég diskana báða (fyrir aðeins 2500 kr.)

Þannig að jiddísk tónlist hljómaði hér á heimilinu langt fram eftir kvöldi en við vorum með góða gesti í kvöldverðarboði sem einnig höfðu verið á tónleikunum og voru sammála okkur hjónum um ágæti þeirra, eins og raunar allir sem ég ræddi við bæði í hléi og að tónleikum loknum.

Óska ég öllum sem að tónleikunum stóðu til hamingju með glæsilegt framtak og Ragnheiði Gröndal alveg sérstaklega.

Tónleikarnir verða endurteknir kl. 17 í dag á sama stað, þ.e. í Seltjarnarneskirkju.  Hvet ég lesendur þessa pistils til að drífa sig á tónleikana.

Einstök skemmtun. Verð aðgöngumiða 2500 kr. Mjög vandað prógram fylgir aðgöngumiðanum og þar hefur Þuríður Baxter, einn söngfélaga, skrifað ágætan pistil um Klezmer-tónlist, jiddísku og ladíno (Gyðingaspænsku).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-10-07/glaesilegir-klemzertonleikar-filharmoniu-og-ragnheidar-grondal/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli