gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Menningaráhrif Biblíunnar – Prédikun · Heim · Áhugaverð orð úr biblíuþýðingu fyrir fæðingu Krists »

Um notkun Sálms 23 í kvikmyndum

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.16 5/11/07

Fyrir fáeinum árum birti ég opinberlega grein um notkun og túlkun Sálms 23 í kvikmyndum. Öruggt má teljast að enginn texti úr Gamla testamentinu er jafnmikið notaður í kvikmyndum og Sálmur 23 og mér er til efs að nokkur texti úr Nýja testamentinu hafi eins mikla áhrifasögu á þessu sviði menningarinnar og hinn vinsæli sálmur Drottinn er minn hirðir (The Lord is my Sheperd). Hér á eftir fer hrá gerð umfjöllunar minnar um sálminn.
Enginn sálmur Saltarans hefur notið slíkra vinsælda sem 23. sálmurinn „Drottinn er minn hirðir.“ Á þetta jafnt við hér á landi og víðast hvar í hinum gyðing-kristna heimi. Svo furðulegt sem það má virðast hafa þessi áhrif sáralítið verið rannsökuð og enginn, hvorki hér á landi né erlendis, hefur tekið sér fyrir hendur að kanna sérstaklega mjög svo athyglisverða notkun þessa vinsæla sálms í kvikmyndum. Þar koma þessi miklu áhrif vel fram. (hér er aðeins vitnað í hluta þeirra kvikmynda sem ég hef gegnum árin skráð hjá mér þar sem Sl 23 kemur við sögu).
Áður en lengra er haldið er rétt að birta sálminn í heild sinni:

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér alla æfidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa æfi.
Öll könnumst við hina miklu notkun sálmsins og vinsældir. Íslenskt lag við hann er mikið notað við útfarir, fermingarbörn velja sér þennan texta í ríkari mæli en nokkurn annan hér á landi, enginn biblíutexti er eins oft birtur með minningargreinum og þannig mætti lengi halda áfram að telja.

Það virðist hafið yfir allan vafa að þessi sálmur hefur algjöra sérstöðu meðal sálma Biblíunnar hvað snertir vinsældir og áhrif. Börn hafa lært hann utanað við móðurkné og öldungar hafa dáið með orð hans á vörunum. Orðalag sálmsins er með þeim hætti að það virðist alveg óháð tíma og rúmi og höfða jafnt til kristinna manna og gyðinga og jafnvel annarra trúarhópa. Í íslensku samhengi er kannski mest sláandi hversu mikið hefur verið ort út af sálminum.
Hér eru það hins vegar áhrif sálmsins, notkun hans og túlkun í kvikmyndum sem eru til skoðunar. Á liðnum árum hef ég skráð hjá mér dæmi sem ég hef rekist á um notkun sálmsins í kvikmyndum eða nemendur eða aðrir félagar mínir hafa bent mér á. Er þetta dæmasafn þegar orðið allmikið að vöxtum, dæmin skipta mörgum tugum og er þó ljóst að ég hef aðeins skráð brot af þeim dæmum sem er að finna í kvikmyndum.
Hver kannast ekki við kvikmynd sem byrjar á útfararsenu þar sem verið er að lesa upp úr Sálmi 23? Í slíkum myndum kemur sálmurinn oftast ekkert meira við sögu, en til eru þær myndir þar sem sálmurinn gegnir mjög veigamiklu hlutverki. Þar hef ég einkum í huga fjórar myndir og mun ég fjalla lítillega um þær allar í þessari grein. Þetta er tékkneska óskarsverðlaunamyndin Kolja (1996), norska myndin Söndagsengler (1996), The Elephant Man (1980), sem fékk á sínum tíma einar áttu tilnefningar til Óskarsverðlauna, og loks bandaríska myndin Liberty Heights (1999) sem fjallar um samskipti hvítra manna, blökku¬manna og gyðinga í Baltimore árið 1954.
Notkun og túlkun Sálms 23 í kvikmyndum má skoða á ýmsa vegu en það sem ég ætla að gera hér er að bera saman helstu túlkanir gamlatestamentisfræðinga á sálminum við hvernig sálmurinn er notaður í kvikmyndum. Er það svo að allt annar skilningur á sálminum birtist í kvikmyndum heldur en meðal biblíufræðinga? Eða er það e.t.v. þvert á móti þannig að ákveðin hliðstæða sé milli skilnings biblíufræðinga á sálminum og hinnar listrænu notkunar eða túlkunar hans á hvíta tjaldinu?

Tengsl við dauða og útfarir
Langalgengasta notkun sálmsins í kvikmyndum tengist dauðanum. Hér nægir að nefna kvikmyndir eins og Kolja, The Apostle (1997), Paradise Road (1997), The Legend of 1900 (1998) en úrvalið er nánast óendanlegt. Oft er sálmurinn lesinn við útför án þess að gegna nokkru frekara hlutverki í viðkomandi kvikmynd. En þessi tengsl við dauðann koma líka fyrir í kvikmyndum þar sem sálmurinn gegnir mjög stóru hlutverki eins og t.d. í tékknesku kvikmyndinni Kolja. Tengsl sálmsins við dauðann byggja vafa¬lítið fyrst og fremst á þeirri áhrifamiklu en að öllum líkindum röngu þýðingu „dauðans skuggadal“ sem hefur orðið sérstaklega áhrifarík í gegnum King James biblíuna „the valley of the shadow of death“. Að áliti flestra biblíufræðinga er hin rétta þýðing einfaldlega „dimmur dalur“.

En vissulega eru til þeir gamlatestamentisfræðingar sem líta sálminn öðrum augum. Þannig hélt hinn kunni ritskýrandi Mitchell J. Dahood (1922-1982) því fram að enginn sálmur Saltarans hafi jafn augljóslega að geyma trú á líf eftir þetta. Þannig sér hann „grænu grundirnar“ sem eins konar paradísar engi (e. Elysian fields) og lokaversið telur hann horfa fram til eilífrar sælu í himneskum vistarverum Guðs. Hvað sem skoðun Dahoods líður þá er ljóst að það sem er ríkjandi skilningur á sálminum í kvikmyndum er algjör minnihlutaskoðun innan gamlatestamentis¬fræðanna. Þess má geta að Dahood er þekktur fyrir óvenjulegar og frumlegar túlkanir sínar á sálmunum þar sem mjög er byggt á úgarítísku efni, þ.e. textum sem fundust í einhverjum merkasta fornleifafundi 20. aldar á sviði biblíufræða og sögu hinna fornu Miðausturlanda, þ.e. fornleifa¬fundinum í Ras Shamra í Sýrlandi árið 1929 þar sem fundust leifar hins forna borgríkis Úgarít sem talið er að hafi átt sitt blómaskeið um 1400 f.Kr.
Ríkjandi skoðun innan gamlatestamentisfræðananna er hins vegar sú að upprisuhugmyndir komi ekki fyrir nema á örfáum stöðum í Gamla testamentinu svo öryggt sé, jafnvel ekki nema tveimur (Jesaja 26:19 og Daníelsbók 12:2), og umræddir ritningastaðir séu meðal þeirra allra yngstu í hinni hebresku ritningu.
Það er m.ö.o. ljóst að hin sterku tengsl sálmsins sem fram koma í kvikmyndum fá aðeins óverulegan stuðning í niðurstöðum biblíufræðinga um upprunalegri merkingu eða notkun sálmsins. Hins vegar verða þessi síðari tíma tengsl sálmsins við dauðann skiljanleg í ljósi þess hversu mikil áhrif King James biblían hefur haft. Þýðing hennar á orðunum ge tsalmaweth (‘dauðans skugga dal’) og fjölmargra annarra biblíuþýðinga (svo sem Viðeyjarbiblíu 1841 og Reykjavíkurbiblían 1859 hér á landi: ‘Þó eg ætti að gánga um dauðans skuggadal, skyldi eg samt enga ólukku hræðast. . .’) gefa tengslum sálmsins við dauðann byr undir báða vængi.

Dauðinn sem hvíld
Hið ljóðræna orðalag í íslensku þýðingu Sálmi 23 „vötn þar sem ég má næðis njóta“ er frjálsleg þýðing á hebreskunni „mej menuhot“ sem að orð-rétt þýðir „vötn hvíldar“ eða „vötn hvíldarstaðar“. Hebreska orðalagið er margrætt þar sem hebr. „menuha“ getur stundum vísað til fyrirheitna lands-ins og í öðrum tilfellum til musterisins. Þetta orðalag hefur orðið tilefni til mikilla vangaveltna, en hin hefðbundna þýðing skilur textann þannig að um sé að ræða kyrrlát vötn eða þá vötn þar sem gott er að njóta hvíldar við.

Norska kvikmyndin Söndagssengler, sem notar Sálmi 23 á mjög fjölbreytilegan og áhrifaríkan hátt, hefur að geyma mjög athyglisverða og jafnframt óvenjulega notkun sálmsins þar sem „vötn þar sem ég má næðis njóta“ eru sýnd sem hvíld eða athvarf frá lífinu þegar organistinn Tunheim sviptir sig lífi á stað sem prestsdóttirin María, aðal¬persóna myndarinnar, hafði sérstaklega tengt við Sálm 23 „þar sem áin rennur framhjá kirkjunni.“ Áður hafði Tunheim kennt Maríu að vatnið fæli í sér frið og hvatt hana til að synda í ánni og eins og hún hafði sjálf gert og að skilnaði hafði hún sagt Maríu að dauðinn væri ekki svo slæmur. „Þegar maður er dáinn er maður frjáls,“ segir hún. Í þessari notkun norsku kvikmyndarinnar sjáum við þá miklu áherslu á dauðann sem sálmurinn hefur fengið á síðari tímum þó svo að áherslan hér sé óneitanlega ekki sú hefðbundna.
Það er skemmst frá því að segja að innan gamlatestamentis¬fræðanna er ekki til staðar nein túlkun sálmsins sem líkja megi við þessa óvenjulegu notkun hans í norsku kvikmyndinni. Vissulega er það svo í ýmsum öðrum sálmum Saltarans að dauðinn er tengdur vatni neðanjarðar en það er ekki gert á jákvæðan hátt. Verið er að lýsa vistinni í dauðraríkinu sem illri og fjarlægri Guði.

Exodus-stefið
Á síðari árum hafa fræðimenn í auknum mæli tekið undir skoðun sem vel hefur verið rökstudd um að exodus-stefið sé fyrirferðarmikið í Sálmi 23. Með exodus-stefinu eða –minninu er átt við þann atburð sem 2. Mósebók fjallar einkum um, þ.e. frelsun hinna hebresku þræla úr ánauðinni í Egyptalandi undir leiðsögn og forystu Móse. Bent hefur verið á margvíslegar hliðstæður milli sálmsins og exodus-atburðanna.
Fyrst má þar nefna að Móse hafði fengið guðlega köllun til að leiða þjóð sína út úr Egyptlandi og jafnframt fyrirheitið: ‘Ég mun vera með þér’. Það fyrirheit kallast á við v. 4 hér í sálminum: ‘því að þú ert með mér.’ Raunar koma exodus-tengslin strax fyrir í hirðishugtakinu. Myndin af hirðinum sem leiðir hjörð (þjóð) sína kemur oft fyrir í Gamla testamentinu, t.d. í Sálmi 80:2: ‘þú sem leiddir Jósef eins og hjörð’ og í Sálmi 95:7: ‘Vér erum gæslulýður hans og hjörð sú er hann leiðir.’ Til að undirstrika tengslin við exodus-hefðina hefur einnig verið bent á 5. Mósebók 2:7 þar sem segir: ‘Því að Drottinn hefir blessað þig í öllu sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn verið með þér; ekkert hefir þig skort.’ Þarna er sama sögn notuð og í Sálmi 23. ‘Vötn hvíldar’ (orðrétt þýðing í stað ‘vötn þar sem ég má næðis njóta’) minna á hvíldarstaðinn í óbyggðagöngunni (4. Mósebók 10:33) og raunar kemur orðið menuha (hvíld, hvíldarstaður) fyrir í merkingunni fyrirheitna landið í 5. Mósebók 12:9. Orðalagið ‘fyrir sakir nafns síns’ kemur einnig fyrir í Sálmi 106:8 í samhengi exodus-hefðarinnar.

Þessi hugrenningatengsl hafa trúlega gefið trú sálmaskáldsins áhandleiðslu og vernd Drottins enn traustari grunn. Hebreska orðið ‘tsalmuth’ (eða: ‘tsalmaweth’), hvort sem það merkir ‘skuggi dauðans’ eða ‘dimma, myrkur’ eins og nú er yfirleitt talið, á sér einnig hliðstæðu innan exodus-hefðarinnar, þ.e. í Jeremía 2:6 þar sem segir: ‘Hvar er Drottinn sem flutti oss burt af Egyptalandi, sem leiddi oss um eyðimörkina, um heiða- og gjótulandið, um þurra og niðdimma landið, um landið sem enginn fer um og enginn býr í?’ Meira að segja ‘borðið’ í Sálmi 23:5 kemur fyrir í exodus-samhengi í Sálmi 78:19: ‘Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?’

Loks skal á það bent að á bak við orðið ‘náð’ í v. 6 er hebreska orðið ‘hesed’, sem er einkum notað í tengslum við sáttmálann, annars vegar um þær tilfinningar sem ríkja innan sáttmálssambandsins og hins vegar um þau verk sem upp af þeim tilfinningum spretta. Það má því segja að það exodus-orðalag sem greina má undir yfirborði alls sálmsins nái hámarki í þessu mikilvæga hugtaki sem leiðir hugann óneitanlega að sáttmálanum á Sínaífjalli.
En hvað er þá að segja um kvikmyndirnar? Er eitthvað sem líkist exodus-stefinu að finna í kvikmyndum þar sem Sálmur 23 gegnir stóru hlutverki? Eða eru þess yfirleitt einhver dæmi að Sálmur 23 tengist exodus-stefinu í kvikmyndum? Þessu er unnt að svara játandi þó að vissulega hafi ég ekki mörg dæmi á hraðbergi. Skýrasta dæmið er tékkneska kvikmyndin Kolya sem áður var nefnd. Þar er að finna einhverja skemmtilegustu notkun Sálms 23 sem ég hef rekist á til þessa.

Hér leyfi ég mér að vitna í upphafsorð Jóhönnu Þráinsdóttur heitinnar í ágætri grein hennar um þessa frábæru tékknesku mynd í bókinni Guð á hvíta tjaldinu: ‘Í tékknesku kvikmyndinni Kolja er 23. sálmur notaður til að ramma inn tvenns konar þema: Ytri og innri ánauð. Hin ytri er ánauð hernuminnar þjóðar (exodus-minnið), hin innri sjálfsköpuð ánauð nútímamannsins innan hjarðar þar sem hver og einn er sinn eigin hirðir og helsta hjálpræðið fólgið í því að gera sitt besta til að firra sig óþægindum.’

Ekki er rúm til að rekja söguþráð þessarar athyglisverðu kvikmyndar hér en bent skal á að sellóleikarinn Louka, önnur aðalpersóna myndarinanr, reynist eins konar hirðir fyrir hinn unga Kolja, annast um hann og leiðir þar sem margur hættur leynast, t.d. í umferðinni, og skilar honum að lokum til fyrirheitna landsins, Rússlands, heim til móður hans. Ekkert fer á milli mála að þarna er ákveðinn skyldleiki við frásagnir 2. Mósebókar.
Annað dæmi skal og nefnt til sögunnar, kvikmyndin China Cry (1990). Myndin segir sögu ungrar kínverskrar konu Sung Neng Sji og þess mótlætis og þeirra þjáninga sem hún má þola af hendi hinna kommúnísku yfirvalda í Kína. Athyglisverð er notkun Sálms 23 í myndinni því þar tengist hann kraftaverki sem verður í lífi söguhetju myndarinnar en jafnframt kemur exodus-stefið þar við sögu.
Myndin gerist einkum á árunum upp úr seinni heimsstyrjöldinni. Sung Neng Sji sem var af auðugum foreldrum komin, bæði greind og gáfuð, lenti í ónáð hjá kommúnistum. Kristið uppeldi hennar er ástæðan. Þegar Sung Neng Sji er við yfirheyrslu neydd til að svara annaðhvort játandi eða neitandi spurningunni um hvort hún sé kristin svarar hún játandi. Það verður síðan til þess að hún er leidd fyrir aftökusveit.

Sung Neng Sji fer þá með hinar þekktu ljóðlínur úr Sálmi 23: „Þótt ég fari um dauðans skugga dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér.“ Skiptir þá engum togum að það skellur á mikið stormviðri og jafnframt kemur eins og elding af himni. Aftökusveitin miss¬ir marks og Sung Neng Sji heldur lífi. Sjálf túlkar hún atburðinn sem kraftaverk og átti frásögnin af þessu kraftaverki eftir að lifa meðal kristinna manna í Kína. Hér er á ferðinni mjög athyglisverður vitnisburður um þá tiltrú sem fólk bindur við Sl 23, sem sé dæmi um að sálmurinn sé jafnvel þess megnugur að koma kraftaverki til leiðar. Kvikmyndin Pale Rider hefur raunar að geyma skylt dæmi, eins og vikið verður að síðar í þessari grein.
Exodusstefið er einnig til staðar í þessari mynd. Sung Neng Sji átti sér þann draum æðstan að komast frá Kína, frá þeirri kúgun og þrælkun sem hún hafði kynnst þar. Hún fær því framgengt að manni hennar er veitt leyfi til að heimsækja deyjandi föður sinn í Hong Kong og biður hún hann að snúa ekki heim að heimsókninni lokinni. Fyrir það fær hún að gjalda með vinnu í þrælkunarbúðum við grjótnám, sem óneitanlega skapar hugrenn¬ingatengsl við frásögn 2. Mósebókar af þrælkun Hebrea í Egypta¬landi. Og eins og Móse trúir Sung Neng Sji á að hún muni sleppa úr þrælahúsinu og verður trautseigja hennar til þess að hún kemst um síðir yfir til Hong Kong þar sem fjölskyldan sameinast á nýjan leik. Hér höfum við m.ö.o. tengsl milli Sálms 23 og exodus-minnisins í tveimur athyglisverðum kvikmyndum. Þessi tengsl eru þó vissulega fyrirferðameiri í túlkun fræðimanna á sálminum en í notkun kvikmyndagerðarmanna á honum.

Í hernaði
Sálmur 23 kemur mikið við sögu í stríðsmyndum og ætti það ekki að koma á óvart. Í hernaði eru menn stöðugt í návist dauðans og hin hefðbundna tenging sálmsins við dauðann býður upp á slíka tengingu. Sálmurinn er líka til þess fallinn að slá á óttann, óhjákvæmilegan fylgifisk stríðsins, sbr. ‘óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér.’ Óvinir koma og við sögu í Sálmi 23.

Ekki skiptir máli hvaða afstaða til stríðs kemur fram í myndunum, hvort gengið er út frá því að stríð og trú eigi samleið, lögð áhersla á hörmungar stríðsins eða kennt að stríð sé andstæða trúar. Alltaf má vænta þess að Sálmur 23 komi við sögu. Notkun Sálms 23 í stríðsmyndum er mjög fjölbreytileg og mætti í raun taka dæmi úr ýmsum stríðsmyndum fyrir aðra flokka í þessari grein.

Í kvikmynd ítalska leikstjórans Mario Bava Gli invasori (1961) er t.d. farið með sálminn fyrir orrustu. Í myndinni Casulties of War (1989) sjáum við dæmi um tilhneiginguna til að snúa út úr sálminum og um leið að hafna Drottni og leiðsögn hans. Í Paradise Road (1997) er mjög hefðbundin notkun. Kona í fangabúðum Japana sem finnur dauðann nálgast fer með sálminn allan og segir síðan: ‘Það var þetta sem ég þurfti.’ Að svo mæltu gefur hún upp andann.

Í kvikmyndinni Revolution (1985) þar sem Al Pacino leikur aðalhlutverkið er farið með sálminn í miðri orrustu og í þeirri mynd gegnir sálmurinn raunar allstóru hlutverki. Þannig mætti lengi telja. Hér skal látið nægja að nefna nokkrar stríðsmyndir til viðbótar þar sem Sálmur 23 kemur við sögu: Catch 22 (1970), Soldier Blue (1970), Fyrir regnið (Pred dozhdot, 1995), Miracle at Midnight (1998).
Í ljósi gamlatestamentisfræðanna væri þess að vænta að aðrir sálmar Saltarans væru fremur notaðir í stríðsmyndum en Sálmur 23, sálmar þar sem Drottni er lýst sem stríðsmanni, eins og t.d. Sálmur 144 sem raunar kemur mjög við sögu í einhverri áhrifamestu stríðsmynd allra tíma, þ.e. í Saving Private Ryan (1998). Þar kemur Sálmur 23 einnig við sögu. Í bók sem fjallar um myndina af Drottni sem stríðsmanni í Saltaranum er Sálmur 23 ekki meðal þeirra tíu sálma (Sálmar 7, 44, 46, 68, 74, 76, 78, 105, 110, 144) sem teknir eru til umfjöllunar.
Niðurstaða kalfans er sú að hér sé verulegur munur á notkun sálmsins í kvikmyndum og hvaða augum biblíufræðingar líta hann.

Ekkert í Gamla testamentinu bendir til þess að Sálmur 23 hafi verið tengdur hernaði enda minnist ég þess ekki að neinn gamlatestamentisfræðingur hafi fjallað um sálminn í samhengi stríðs eða hernaðar.

Ástir og tilhugalíf
Það er til marks um vinsældir Sálms 23 og mjög svo fjölbreytilega notkun að þó að langalgengast sé að hann sé notaður í tengslum við dauða og útfarir þá er ekki óþekkt að hann sé notaður á mun rómantískari hátt, svo sem við giftingar eða í tilhugalífi.

Slík dæmi koma vissulega fyrir í kvikmyndum, þar á meðal í tveimur ef ekki þremur þeirra kvikmynda þar sem Sálmur 23 gegnir hvað stærstu hlutverki. Þetta eru bandaríska myndin Liberty Heights, norska myndin Söndagsengler og að nokkru leyti tékkneska myndin Kolja.
Myndin Liberty Heights gerist í Baltimore 1954 og greinir frá samskiptum, átökum og árekstrum milli hvítra manna, blökkumanna og gyðinga. Táningurinn Ben Kurtzman heyrir til síðastnefnda hópnum. Hann verður ástfanginn af bekkjarsystur sinni, blökkustúlkunni Sylviu, þegar hann sér hvað hún fer með Sálm 23 af miklum innileik í bænastund í kennslustofunni. Verður það upphafið að tilhugalífi þeirra.
Söndagsengler tengist sálminum á svipaðan hátt en það er skemmtileg tilviljun að sú mynd skuli hafa keppt við hina tékknesku Kolja um Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu myndina árið 1996. Aðalpersóna Söndagsengler er María, prestsdóttir á táningsaldri, og á hún í miklu uppgjöri við föður sinn, strangan prest að nafni Jóhannes. Gegn hinni ströngu lögmálstúlkun föður síns teflir hún fram annarri guðsmynd sem hún finnur t.d. í Ljóðaljóðunum og Sálmi 23 og tengir við ástir og fegurð sköpunarverksins: ‘Ég á mér stað út af fyrir mig inni í skóginum’ segir María og þann stað tengir hún við Sálm 23. Þá spyr hún hvort Salómon konungur hafi verið guðleysingi þar sem hann tali í Ljóðaljóðunum um konur, kossa og vín.
Loks má hér enn á ný nefna Kolja sem hefur að geyma mjög fjölbreytilega notkun á Sálmi 23. Návist dauðans er fyrirferðarmikil í myndinni sem verður þó aldrei drungaleg. Sérstaklega eftirminnileg og skemmtileg er sena í byrjun myndarinnar þar sem sellóleikarinn Louka, sem hafði þann starfa helst með höndum að spila við útfarir, fer á fjörurnar við söngkonu þar sem hún er að syngja við útför hið gullfallega lag tékkneska tónskáldsins Dvoraks við Sálm 23.
Eftir stendur þá spurningin hvort eitthvað þessu líkt megi sjá í túlkun gamlatestamentisfræðinga á Sálmi 23 og er skemmst frá því að segja að afskaplega lítið fer fyrir því. Þó hef ég rekist á eitt athyglisvert dæmi þar sem enskur rabbí að nafni Jonathan Magonet vísar í athyglisverðri bók sinni um rabbínska sálmatúlkun á eldri rabbína að nafni David Kimchi sem jafnan var kallaður Radak. Hann tengir Sálm 23 Ljóðaljóðunum eins og gert var í Söndagsengler. Radak vísar á Ljóðaljóðin 1:7-8, en því má skjóta hér inn að það er gamalt undrunar og íhugunarefni hvers vegna Ljóðaljóðin eru yfirleitt í Ritningunni þar sem þau virðast, a.m.k. við fyrstu sýn, vera hrein ástaljóð og Guð er ekki einu sinni nefndur á nafn þar. Í versunum sem Radak vísar til ávarpar unnustan unnusta sinn með orðunum: ‘Seg mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú hjörð þinni til haga, hvar bælir þú um hádegið?’ Svar unnustan er: ‘Ef þú veist það eigi, þú hin fegursta meðal kvenna, þá far þú og rek för hjarðarinnar og hald kiðum þínum.’
Niðurstaðan er sú að notkun kvikmyndanna á Sálmi 23 í tengslum við tilhugalíf á sér litlar hliðstæður í túlkun fræðimanna á sálminum en þó finnst ákveðinn skyldleiki í rabbínskri túlkun, harla einangraðri að vísu.

Snúið út úr sálminum eða honum breytt
Sýnt hefur verið fram á að notkun sálmsins í Bandaríkjunum er langt út fyrir venjulegt kirkjulegt eða trúarlegt samhengi. Afhelgun sálmsins, ef nota má það orð, birtist meðal annars í því hversu algengt er að snúið sé út úr sálminum. Eitt slíkt dæmi væri hið vinsæla lag rapparans Coolio Gangsters Paradise sem margir munu kannast vel við enda var það eitt vinsælasta lagið hér á landi og víða um heim fyrir fáeinum árum.

Á veraldarvefnum er hægt að finna ótal dæmi þar sem sálminum er, oft í gagnrýnisskyni, snúið upp á ýmislegt í samtímanum svo sem Clinton forseta og fleira í þeim dúr. Oft er aðeins um það að ræða að aukið er við sálminn í trúarlegum tilgangi. Sem dæmi um að Sálmi 23 sé breytt nefni ég kvikmyndirnar Casulties of War (1989), Sister Act (1992), The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert (1994) og Pale Rider (1985).

Hér mun ég þó aðeins gera síðastnefndu kvikmyndina að umtalsefni. Í Pale Rider fer unglingsstúlka að nafni Megan með sálminn snemma í myndinni eftir að þorp gullleitarmanna, sem hún býr í, hefur orðið fyrir árás og hundurinn hennar drepinn. Þegar hún jarðar hundinn fer hún með Sálm 23, eins og svo algengt er við jarðarfarir, en bætir ýmsu inn í, eins og til dæmis: ‘mig brestur samt . . . hann drap hundinn minn . . . en ég er óttaslegin . . . ég þarf á kraftaverki að halda . . . ef þú (Drottinn) ert til.’ Og á eftir niðurlagi sálmsins ‘og í húsi Drottins bý ég langa æfi’ bætir hún við: ‘en ég vildi hljóta meira af þessu lífi fyrst. Ef þú hjálpar okkur ekki munum við öll deyja. Ég bið bara um eitt kraftaverk.’ Að lokinni þessari bæn stúlkunnar birtist síðan kraftaverkið í formi verndara eða frelsara á hesti. Er bjargvætturinn sá leikinn af sjálfum Clint Eastwood.
Hvað skyldu þá biblíufræðingarnir hafa um þetta að segja? Hafa þeir verið að krukka eitthvað í sálminn eða breyta honum? Já, víst hafa þeir gert það eins og svo víða annars staðar í Ritningunni þar sem fræðimenn grunar að texti sem þeir eru að rannsaka hafi ekki varðveist óbrenglaður. Þá taka þeir sér gjarnan fyrir hendur að lappa upp á textann. Í sálmunum hafa sumir ritskýrendur verið býsna iðnir við að gera lagfæringar ef hrynjandi í sálminum er ekki með þeim hætti sem þeim finnst að ætti að vera eða ekki er samræmi milli fjölda áhersluatkvæða í einstökum ljóðlínum.
Langalgengasta dæmið í Sálmi 23 af þessu taki er að finna í niðurlagi sálmsins. Þar er bein þýðing hebreska textans (we-sjavtí) ‘ég mun snúna aftur’ en forsetning sem þarna kemur við sögu gerir textann torkennilegan og því hafa fjölmargir ritskýrendur gert ráð fyrir að einn samhljóða vanti í hebresku sögnina, þ.e. samhljóðann jod (we-jasjavtí) og það breytir merkingunni þannig að þýðingin verður: ‘og ég mun búa . . .’ Raunar er þetta hin ríkjandi þýðing á þessu versi og á sér stuðning í mjög fornum biblíuþýðingum.
Niðurstaðan er sú að hvað varðar breytingar á sálminum er óhætt að segja að ákveðin hliðstæða sé milli meðhöndlunar biblíufræðinga og kvikmyndagerðarmanna á þessum mest notaða texta Gamla testamentisins.

Tengsl við faðir-vorið
Ekki er óvenjulegt að fræðimenn hefji umfjöllun sína um Sálm 23 með því að benda á hinar miklu vinsældir hans, t.d. með þeim orðum að sálmurinn hafi sungið sig inn í fleiri hjörtu en nokkur annar texti Ritningarinnar að faðir-vorinu eina undanskildu. Þessi algenga og óumdeilda staðhæfing er forvitnileg í ljósi þess að þess eru dæmi í kvikmyndum, a.m.k. tvö sem ég veit um, þar sem sálminum er beinlínis ruglað saman við faðir-vorið. Hér erum við þó tæpast að tala um túlkun á sálminum að öðru leyti en því að augljóslega er litið á hann sem bæn, nánast jafn áhrifaríka og bænina sem Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum.

Ekki er ástæða til að fjölyrða um þetta en forvitnilegt er engu að síður að kvikmyndagerðarmenn ekki síður en biblíufræðingar skuli hafa séð ákveðin tengsl milli Sálms 23 og þekktustu bænar kristinna manna, þ.e. faðir-vorsins. Myndirnar tvær sem ég er með í huga eru annars vegar ítalska hryllingsmyndin City of the Living Dead (1980) og hins vegar ástralska myndin Holy Smoke (1999). Sú staðreynd að hér er annars vegar um að ræða ástralska mynd og hins vegar ítalska minnir okkur á að notkun Sálms 23 í kvikmyndum er fjarri því að vera bundin við hinn bandaríska kvikmyndaiðnað þrátt fyrir að sálminum hafi verið líkt við veraldlegt helgitákn í bandarísku samfélagi.

Til varnar Guði
Í kvikmyndinni Apocalypse IV: Judgement (2001) má segja að Sálmur 23 þjóni beinlínis trúarvarnar¬legum tilgangi. Myndin segir frá réttarhöldum sem haldin eru yfir Guði kristinna manna.

Í framtíðarmynd þessari er býr leiðtogi jarðarbúa að nafni Macalousso (and-kristur) yfir guðlegu eðli og er dáður og dýrkaður sem slíkur þó svo að harðstjórn hans sé mikil. Hann sér kristna konu eina, Helenu Hönnu, sem ógnvald og er hún dregin fyrir rétt, sökuð um glæpi gegn mannkyni. Hin raunverulega sök hennar er að trúa ekki á Macalousso og kraftaverk hans. Í þess stað trúir hún á „fornar sögur um upprisu Krists.“ Hinir kristnu verða að fara huldu höfði neðanjarðar á stöðum sem skapa hugrenningatengsl við hinn dimma dal í Sálmi 23.

Þáttaskil verða í myndinni þegar verjandi konurnnar, sem er í raun á bandi yfirvalda, heyrir upptöku úr fangaklefa Helenar Hönnu þar sem hún fer með ljóðlínurnar kunnu úr Sálmi 23: „Þótt ég fari um dauðans skugga dal óttast ég ekkert illt“ o.s.frv. til enda sálmsins. Þetta veldur þáttaskilum hjá verjandanum og í lokaræðu sinni boðar hann að það sé til betri heimur, eilíf paradís, eins og kristnir menn boða. Myndin endar á því að sýna forsíðu dagblaðs þar sem greint er frá því í stríðsfréttaletri að „Málið gegn Guði“ hafi verið látið niður falla og Helen Hannah hafi sloppið á flótta.
Þá vaknar sú spurning hvort finna megi meðal fræðimanna einhverja skylda túlkun, þ.e. að í sálminum sé beinlínis að finna trúvörn. Já, víst er það svo. Upphafsorð sálmsins í hebresku eru bara tvö orð „jahve roi“ Drottinn minn hirðir. Þetta er svokölluð nominal-setning sem hefur ekki neina sögn (síðara orðið er raunar lýsingarháttur með 1. persónu viðskeyti en gegnir hlutverki nafnorðs) og ekki er fyllilega ljóst hvernig best sé að þýða setninguna. Þannig er meira að segja deilt um hvort Jahve eða hirðirinn sé frumlagið.

Svissneski biblíufræðingurinn L. Köhler (1880-1956) vildi þýða þannig: „Þar sem Drott¬inn er hirðir minn“ og er þá undanskilið: „en ekki einhver annar Guð“ — „þá mun mig ekkert bresta.“ Samkvæmt þessum skilningi hvílir áherslan á því að hvað það felur í sér að hafa Jahve sem Guð en ekki einhvern annan. Sá sem það gerir þarf ekkert að óttast og mun ekki líða neinn skort. Þetta er vissulega ekki hin ríkjandi skoðun í fræðunum en margir fræðimenn hafa engu að síður orðið til að taka undir þessa skoðun eða halda svipuðu fram, þ.e. að áherslan hvíli á því að það sé Drottinn sem sé hirðirinn en ekki einhver annar guð.
Þannig að hér eru biblíufræðin og kvikmyndirnar samstíga. Í undantekningatilfellum kemur Sálmur 23 við sögu í samhengi trúvarnar.

Eins og þjóðsöngurinn
Á einum stað í hinni áhrifamiklu kvikmynd Liberty Heights er Sálmi 23 líkt við þjóðsöng. Það gerist þegar hið ástfangna par, gyðingurinn Ben Kurtzman og blökkustúlkan Sylvia eiga samræður um sálminn í strætisvagni. Þar spyr Sylvia þennan aðdáanda sinn hvaða augum hann líti sálminn, hvaða þýðingu sálmurinn hafi fyrir hann sem gyðing. Hann svarar því að fyrir sér sé Sálmur 23 nánast eins og þjóðsöngurinn eða eitthvað sem er flutt fyrir kappleik.

Svo áhrifamikill hefur Sálmur 23 verið í Bandaríkjunum að virtur biblíufræðingur þar í landi hefur í lærðri ritgerð haldið því fram að sálm¬ur-inn hafi hreinilega öðlast sess sem nokkurs konar þjóðartákn Banda-ríkjamanna. Fjölmörg dæmi eru um skóla þar sem dagleg morgunbæn byggist á því að hafa yfir Sl 23 og ótal hliðstæð dæmi mætti nefna um hina ótrúlega sterku stöðu sálmsins þar í landi. Er mikil notkun sálmsins í Hollywood-kvikmyndum vitaskuld ein af sterkustu vísbendingunum um hversu djúpum rótum sálmurinn stendur í alþýðumenningu þjóðarinnar. Undantekningalítið þegar sálmurinn er hafður um hönd er stuðst við hina íhaldssömu þýðingu King James biblíunnar.
En hvað þá um biblíufræðin? Höfum við eitthvað þessu líkt í túlkun biblíufræðinga á sálminum? Óhætt er að segja að engin bein hliðstæða er til staðar ef undan er skilin áðurnefnd grein bandaríska biblíufræðingsins William L. Holladay þar sem hann fjallar um síðari tíma notkun sálmsins í Bandaríkjunum. Hins vegar má benda á óbeina hliðstæðu í umfjöllun fræðimanna um sálminn þegar þeir benda réttilega á að hirðishugtakið var gjarnan notað um konunga og aðra leiðtoga. Gamla testamentið sýnir að allan konungatímann voru til hópar sem litu svo á að konungdæmið væri í anstöðu við Jahve, hann væri hinn eini sanni konungur þjóðarinnar.

Því hefur og verið haldið fram að í Sálmi 23 sé Jahve hylltur sem konungur. Slík hylling er ekki með öllu ólík þjóðsöngi, a.m.k. ekki þjóðsöngi okkar Íslendinga sem einmitt er ortur út af einum sálmum Saltarans, þ.e. Sálmi 90.

Styrkur og hjálp í nauðum
Flestir biblíufræðingar myndu líklega taka undir þá skoðun að meginboðskapur Sálms 23 sé sá að vernd og hjálp Guðs megi treysta hvað sem á bjátar, hann muni sjá fyrir öllum þörfum okkar, vernda okkur og leiða eins og góður hirðir gætir hjarðar sinnar og sér fyrir þörfum hennar.

Sagt hefur verið að Sálmur 23 hafi að geyma einhverja bestu lýsingu sem til sé á hebreska trúarhugtakinu (hebr. he-emín) án þess að hugtakið sjálft sé þar til staðar. Þessi meginboðskapur sálmsins er nokkuð augljós og þarf því ekki að koma á óvart að hér eiga biblíufræðingar og kvikmyndagerðarmenn mesta samleið í notkun sinni á sálminu. Ófaár eru þær kvikmyndir þar sem farið er með sálminn sem bæn á hættustund og hin mikla notkun sálmsins andspænis ógn dauðans skýrist auðvitað af þeirri trú að Guð muni sjá vel fyrir þörfum mannsins hverjar sem aðstæður hans eru.

Hér mætti nefna til sögunnar ótal myndir en í þess stað ætla ég að beina sjónum okkar að einni kvikmynd sem hefur að geyma athyglisverða túlkun þessa skilnings á sálminum, The Elephant Man (1980). Hún fjallar um fílamanninn John Merrick sem er 21 árs þegar sagan hefst. Líkami Mericks er þakinn æxlum og bólguþrimlum sem þekja um 90% líkama hans og gera hann að óskapnaði. Hann er hafður í búri almenningi til sýnis og á þar skelfilega vist og er hafður að háði og spotti. Það er áhrifamikið atriði í þeirri mynd þegar fílamaðurinn fer með sálm 23. Sú staðreynd að hann kunni sálminn þýddi að hann var meiri vitsmunavera en almennt var talið. Hann var ekki andlega þroskaheftur heldur ágætlega greind og góðhjörtuð mannvera. Segja má að sálmurinn verði til að veita þessari hrjáðu og fyrirlitnu manneskju virðingu. Það minnir á að sálfræðin kennir að þörfin fyrir virðingu sé ein af frumþörfum mannsins.
Jafnframt sjáum við hér hvernig Sálmur 23 veitir huggun. Hann hafði veitt Merrick huggun og styrk í einsemd hans og einangrun. Lykilsetning Sálms 23 er að margra áliti ‘því að þú ert með mér’. Fullvissan um það veitir styrk í alls kyns þrengingum. Sú staðreynd að Merrick kunni sálminn utanbókar minnir einnig á þá staðhæfingu fjölmargra gamlatestamentisfræðinga að sálmarnir hafi lifað í munnlegri geymd áður en þeir voru færðir í letur.

Niðurlag
Ekki er um það að ræða að kvikmyndir hafi beinlínis verið gerðar út frá Sálmi 23 á þann veg að kvikmyndahandritið sé samið upp úr sálminum. En eins og hér hefur verið rakið gegnir hann engu að síður oft á tíðum mjög athyglisverðu hlutverki í kvikmyndum og hefur við það undirgengist ákveðna aðlögun. Orðið hefur holgast á nýjan og ferskan hátt í áhrifamesta miðli og listformi 20. aldar.
Það er því forvitnilegt að bera saman notkun kvikmyndagerðarmanna á Sálmi 23 og túlkun gamlatestamentisfræðinga á honum. Umfjöllun mín hér er hugsuð sem samanburðargreining á svo ólíkum miðlum sem kvikmyndum og skýringaritum biblíufræðinga. Fljótt á litið virðast þessir miðlar hafa fátt sameiginlegt. Í báðum tilfellum er þó yfirleitt um að ræða túlkun á texta. Oft hafa biblíufræðingar líka sært hina trúuðu biblíulesendur með því að sýna fram á allt aðra merkingu en þá viðteknu og hefðbundnu á svipaðan hátt og gjarnan verið verið kvartað undan ‘tryggðarrofi’ er skáldsögur hafa verið kvikmyndaðar.
Raunar kemur á daginn að flestar túlkanir biblíuskýrendanna eiga sér einhverjar hliðstæður innan kvikmyndanna en áherslurnar eru óneitanlega aðrar og í sumum tilfellum eru hliðstæður einfaldlega ekki fyrir hendi. Það sem er ríkjandi innan kvikmyndanna, þ.e. tengsl sálmsins við dauðann, er nokkuð sem flestir gamlatestamentisfræðingar telja að ekki eigi sér rætur í hinum upphaflega skilningi á sálminum. Sama er að segja um notkun sálmsins í stríðsmyndum. Það sem á hinn bóginn er talsvert ríkjandi túlkun í biblíufræðunum, eins og tengsl sálmsins við exodus-minnið, musterið og konunginn, reynist ekki fyrirferðarmikið í kvikmyndum.

Hins vegar eru flestir sammála um að aðal merking sálmsins sé sú að vernd og handleiðslu Guðs megi treysta við allar aðstæður og því er ekki óeðlilegt að dauðinn sé tengdur þeirri trú, ekki síst þegar sálmurinn er lesinn í ljósi orða Jesú um góða hirðinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina (Jóhannesarguðspjall 10. kafli).

Hvað sem öllu þessu líður er a.m.k. ljóst að Sálmur 23 er óvenjulega skemmtilegt dæmi um fjölbreytilega notkun biblíutexta í kvikmyndum. Sú fjölbreytni getur vel orðið til þess að veita biblíufræðingum nýja sýn á sálminn og opna augu þeirra fyrir því að ‘framhaldslíf’ biblíutextanna, viðtökur þeirra eða áhrifasaga, ekki aðeins í bókmenntum heldur öðrum miðlum eins og t.d. kvikmyndum, er ekki síður girnileg til fróðleiks en hin einhliða og hefðbundna fornfræðilega áhersla við nálgun þeirra.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-11-05/um-notkun-salms-23-i-kvikmyndum/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 6/11/2007 00.13

Takk fyrir þetta fína yfirlit.

Þorkell @ 6/11/2007 18.43

Þetta stefnir í hina áhugaverðustu bók Gunnlaugur. Skemmtileg flokkun og yfirferð.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli