gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Jónas Hallgrímsson og Saltarinn · Heim · Aðventa »

Kvöldstund í hlutverki Gyðings

Gunnlaugur A. Jónsson @ 00.15 22/11/07

Ég var í hlutverki Gyðings í kvöld. Gyðingdómur hefur lengi heillað mig og alloft hef ég tekið málstað Gyðinga þegar á þá hefur verið hallað ómaklega sem gerist oft, en að ég hafi beinlínis farið í hlutverk Gyðings hefur nú ekki gerst fyrr en í kvöld.

Tilefnið var það að í námskeiði sem Adda Steina Björnsdóttir cand. theol. stendur fyrir í Grensáskirkju um mismunandi trúarbrögð fær hún einhverja fulltrúa  viðkomandi trúarbragða til að koma og kynna þau. Í kvöld var röðin komin að Gyðingum og Mormónum.

Mormónar voru allfjölmennir á staðnum og kynntu sína trú með ágætum. Ekki tókst Öddu Steinu að hafa upp á neinum úr fámennum hópi Gyðinga hér á landi sem hafði tök á að koma. Hins vegar hafði leiðtogi þeirra fallist á að ég kæmi fram fyrir þeirra hönd og meira að segja lýst ánægju sinni með það, eftir því sem Adda Steina sagði.

Það var mér heiður og ánægja að vera þannig í hlutverki Gyðings í kvöld. Ég tel mig þekkja trú Gyðinga allvel þó vissulega sé hún fjölbreytilega og margslungin en grunnþættina í henni tel ég mig þekkja bærilega og margt er þar sem heillar mig.

Ég hafði klukkutíma til umráða og kunni bara býsna vel við mig í hlutverkinu. Ekki var ég þó að villa á mér heimildir heldur var gerð grein fyrir hvernig stæði á aðkomu minni þarna í námskeiðinu.

Síðan sat ég annan klukkutíma og hlustaði á mormónana kynna sína trú. Það gerðu þeir af fagmennsku og öryggi og sýndu mér bæði vinsemd og kurteisi.  Þeir munu vera um 200 talsins hér á landi.

Adda Steina kynnti mig sem ”honorary Jew” en þann titil gaf Beatrice Bixon, Gyðingur frá New Haven í Bandaríkjunum og helsti hollvinur guðfræðideildar H.Í., mér einhverju sinni. Þykir mér einkar vænt um þá nafnbót þó ég efist um að ég eigi hana skilið.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-11-22/kvoldstund-i-hlutverki-gydings/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Bjarni Randver Sigurvinsson @ 22/11/2007 10.14

Notaðir þú ekki tækifærið til að hampa mormónskum stríðsmyndum á mormónakynningunni?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22/11/2007 11.04

Mér vannst ekki tími til þess vegna mikilla fyrirspurna frá öðrum aðilum en vissulega var mormóna-stríðsmyndin sem við dec-félagar horfðu á kvöldið áður mér ofarlega í huga. En margar hendur voru á lofti, margir vildu fræðast. Ég minntist h.v. vegar aðeins á klæðaburð trúboða mormónanna, fín jakkaföt og bindi. Áður en svar fékkst við því benti einhver á að nú væri svo komið að farið væri að rugla starfsmönnum Kaupþings saman við trúboða mormóna vegna þess að klæðnaðurinn væri nokkurn veginn sá sami. Er á leið í kennslu og hef þetta ekki lengra að sinni en vissulega var fróðlegt að kynnast þessum ‘uppáhalds’ trúarhópi þinum Bjarni! Óhollusta kaffi- og tredrykkju var meðal þess sem þarna bar á góma og þar áttu þú samleið með þessu ágæta fólki.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli