gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Aðventa · Heim · Til fundar við aðventu Svía »

Seltjarnarneskirkja ályktar um samleið kristni og þjóðar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 01.46 7/12/07

Það er, held ég, fremur óalgengt að sóknarnefnd sendi frá sér fréttatilkynningu eða ályktun. Sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju hefur hins vegar gert það og er tilefnið umræðan um trú- og skólamál að undanförnu. Ályktunin birtist í tveimur dagblaðanna í dag, undirrituð af Guðmundi Einarssyni, formanni sóknarnefndarinnar.

Í ályktuninni er hörmuð aðförin að kirkju og kristni og  sagt að dapurlegt hafi verið að fylgjast með henni í aðdraganda aðventunnar. Síðan segir:

“Við leyfum okkur að minna á að kristni og þjóð hafa átt samleið í  rúmlega þúsund ár hér á landi. Sá er illa læs á íslenska sögu sem ekki er læs á kristið mál. Menningaráhrif kristindómsins eru mikil og margvísleg hér  á landi.

Krossinn í þjóðfána okkar, innihald þjóðsöngsins, mikil og sterk áhrif Biblíunnar á íslenskt tungutak og mannlega breytni í þjóðlífi okkar eru dæmi um þetta. Skólar urðu til hér á landi í skjóli kirkjunnar. Hið sama er að segja um líknarstofnanir. Íslensk tunga varðveittist fyrst og fremst vegna þess hve Guðs orð var snemma þýtt á móðurmálið. Hinn kristni siður er beinlínis skráður inn í dagatal okkar.

Kærleiksboðsskapurinn er grundvallaratriði kristins siðar. Nú er það boðað af háværum minnihlutahópum að hann megi aðeins umgangast á forsendum trúleysis í skólum og umfram allt ekki halda kristinni trú að börnum.

Það er mikilvægt að minnihlutahópar njóti réttar og virðingar. En sú virðing þarf að vera gagnkvæm. Það er sérkennilegt lýðræði og mannréttindi ef lítill minnihluti á að fá því framgengt að þau gildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir verði nú gerð útlæg úr skólum landsins og að þeirra sjái lítt stað í  löggjöf hins kristna samfélags.

Íslenska þjóðkirkjan hefur verið hófstillt og öfgalaus kirkja og ber svo að vera. En nú er þess að vænta að hinn stóri meirihluti þjóðarinnar muni ekki sitja þegjandi undir ákaflega áhrifaríkri aðför fámenns minnihlutahóps gegn kirkjunni.

Sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju lýsir fyllsta stuðningi við herra Karl Sigurbjörnsson biskup í baráttu hans gegn þeirri aðför sem á sér stað að kirkju og kristnum sið nú um stundir.”

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-12-07/seltjarnarneskirkja-um-samleid-kristni-og-thjodar/

Athugasemdir

Fjöldi 5, nýjasta neðst

Matti @ 7/12/2007 15.41

Út á hvað gengur þessi “aðför” sem þið talið þarna um?

Það er sérkennilegt lýðræði og mannréttindi ef lítill minnihluti á að fá því framgengt að þau gildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir verði nú gerð útlæg úr skólum landsins og að þeirra sjái lítt stað í löggjöf hins kristna samfélags.

Hvaða gildi eru það sem á að gera útlæg og hvaða minnihluti er það sem er að fá því framgengt.

Er ekki grafalvarlegt mál að sóknarnefnd kirkju taki opinberlega undir dylgjur og ósannindi?

Þetta er ykkur til háðungar og skammar.

Spurning hvort megi kalla sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju hatramman hóp fyrir að standa að svona málflutningi?

Glúmur Gylfason @ 10/12/2007 19.39

Í víðlesnasta dagblaði evrópu, La Gazzetta dello Sport, í Milano segir frá því í dag – sjá slóðina: http://www.gazzetta.it/Calcio/SerieA/Squadre/Inter/Primo_Piano/2007/12_Dicembre/10/turchi.shtml,
að tyrkneskur lögfræðingur, Baris Kaska, hafi kært það til Knattspyrnusambands evrópu, UEFA, að í Meistaradeildarleik Inter gegn Fenerbahce hafi Inter leikið í hvítri peysu með rauðum krossi. Krafan er að 3 – 0 sigur Inter verði af þeim tekinn og sigurinn dæmdur Tyrkjum. Krosstáknið hafi gert þeim ómögulegt að einbeita sér að íþróttinni.
Um er að ræða sérstaka 100 ára afmælispeysu Inter. Hún er alhvít með stórum rauðum krossi yfir alla framhliðina og er hugmyndin sótt í skjaldarmerki Milano. Krossinn í skjaldarmerki Milano er aftur rakinn til verndardýrlings borgarinnar, Ambrosiusar biskups þar, f. 340.
Fyrri leikurinn fór fram í Tyrklandi. Þá lék Inter í sínum heimabúningi, svart- bláröndóttum peysum gagngert til þess að forðast vandræði.
Í upphafi tímabils hafði UEFA fengið þessa peysu – eins og allar aðrar – til umsagnar og ekkert fundið athugavert. Næst liggur því fyrir að kæra UEFA til einhvers evrópudómstóls. E.t.v. má finna lögfræðing á Íslandi. Tyrkir ku vera á leið í Evrópusambandið.

Gunnlaugur @ 11/12/2007 09.53

Þú ert fundvís á áhugavert efni Glúmur og, eins og ég hef áður bent á, þá tekur fótboltinn stundum á sig trúarlegar víddir. Mjög athyglisvert dæmi sem þú finnur þarna og ekki vissi ég að þú læsir ítölsk blöð reglulega. En líklega er það eðlilegt þegar tónlistaramaður á í hlut. Fótboltinn og sönglistin eru listgreinar sem Ítalir hafa í hávegum. Krosstáknið veldur þarna hugarangri, eins og víðar raunar, þó ekki sé ég nú trúaður á að Tyrkirnir hafi ekki getað einbeitt sér að leiknum vegna krosstáknsins á treyjum andstæðinganna. Það hefði frekar átt að fylla þá eldmóði.

Glúmur Gylfason @ 14/12/2007 09.12

Á bls. 40 í Fréttabl. í dag kvartar trúleysingi og segir skoðanabræður sína svíða undan þeim orðum Karls biskups, að lífsviðhorf þeirra séu sálardeyðandi.
Gengur þetta upp?

Gunnlaugur @ 14/12/2007 11.25

Blessaður Glúmur, minn gamli lærimeistari.
Ekki hafði ég séð þessi ummæli og ætla ekkert um þau að segja og hef ekki hugsað mér að blanda mér frekar í þessa umræðu. Vil þó af virðingu við þig svara þér. Víst tek ég eftir að trúleysingjar kveinka sér mjög samviskusamlega og ítrekað undan því ef þeim er ekki svarað af fyllstu kurteisi, gott ef ekki af lotningu. En gæta þess jafnan að segja hátt og snjallt hversu ’stoltir’ þeir séu af sínum eigin málflutningi. Gott er að geta brosað annað slagið í öllum þessum hanaslag og víst er það broslegt þegar menn kveða upp slíka dóma um sjálfan sig. Maður skyldi þá kannski búast við að orðræða þeirra hefði einkennst af kurteisi. Því fer yfirleitt víðs fjarri. Úr því að þú nefnir Fréttablaðið í dag tók ég eftir því að einn trúleysinginn (s. 44) kallar Halldór Reynisson “sjóndapran spunameistara” og starfsgrein annars, sem ekki er þóknanlegur, er tilgreind “meistari nokkur í trésmíði” alveg augljóslega í þeim tilgangi að gefa í skyn að hann hafi takmarkað vit á því sem hann er a segja. Sálfræðingurinn sem þarna ritar telur sig sýnilega, í krafti menntunar sinnar, hæfari til umræðunnar en sá sem er “meistari nokkur í trésmíði”. Þetta er það þó nánast kurteisishjal miðað við ýmislegt sem heyrst hefur úr herbúðum Vantrúar. En auðvitað skapar “trésmíði” jákvæð hugrenningatengsl hjá okkur sem játum kristna trú, en sá var augljóslega ekki tilgangur sálfræðingsins sem greinina ritar. Sitthvað af þessu hef ég lesið og finnst þó fyrst og fremst óksöp leiðinlegt, eins og gömul slitin plata, síbylja, klifað er á sömu hlutunum aftur og aftur, dag og nótt. En víst geri ég mér grein fyrir að ekki má setja alla undir sama hatt þarna, ýmsir Siðmenntarmenn eru yfirleitt kurteisir, virðist mér, þó að óneitanlega séu þeir ágengir í málfutningi sínum. Þeir eiga það sameiginlegt með Vantrúarmönnum að málefni trúarinnar er þeim greinilega mikilvægasta mál í heimi. Það hljómar vissulega mótsagnakennt en birtist engu að síður þannig. En um þetta ætla ég ekki hafa fleiri orð og ekki heldur þó svo kynni að fara að einhverjir banki hér upp á. Ég er að lesa próf og sinna ýmsum brýnum verkefnum öðrum svo og að njóta aðventunnar. Liðsmönnum Vantrúar og Siðmenntar óska ég alls hins besta, hvort sem einhverjir þeirra lesa þetta eða ekki, þ.m.t. gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli