gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Til fundar við aðventu Svía · Heim · Kirkjugarðar heimsóttir í inngangi jólahátíðar »

Próflestur kennarans og forhertir Seltirningar

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.22 19/12/07

Próflestur kennarans er með nokkuð öðrum hætti en nemandans. Sjálfur sit ég, kennarinn, þessa dagana og les af kappi prófúrlausnir nemenda minna. Það er yfirleitt ánægjuleg iðja þó það komi fyrir að slæm rithönd einstaka nemanda valdi pirringi, ég tala nú ekki um ef skrifað er með blýanti að auki.

Í gærmorgun skilaði ég mati á prófúrlausnum 30 nemenda í Guðfræði Gamla testamentisins viku eftir að prófið fór fram og þykir það býsna vel af sér vikið því kennari hefur fjórar vikur til að skila prófúrlausnum sínum. Var ég harla ánægður með frammistöðu nemendanna sem margir stóðu sig með stakri prýði og langflestir vel.

Í morgun voru fyrsta árs nemar mínir í prófi í Sögu, bókmenntum og þjóðfélagi Hebrea. Virtist mér sem þeir væru yfirleitt sáttir við prófið er ég vitjaði þeirra um kl. 9:30. Prófinu lauk kl. 12 og var ég kominn með úrlausnirnar í hendur rúmum klukkutíma síðar. Meining mín er að skila niðurstöðum vel fyrir jól og til þess þarf að halda vel á spöðum. Ég er þegar búinn að kíkja á þrjár fyrstu spurningarnar hjá nokkrum nemendanna og sé ég ekki annað en það lofi allt góðu.

En ýmis verk önnur þarf að vinna á þessu heimili eins og öðru og á það minnir eiginkonan samviskusamlega, eins og vera ber.

Jólagjafir keypti ég allmargar í morgun. Mér finnst skemmtilegt að kaupa bækur en kann lítið á aðrar jólagjafir. En allt tilheyrir þetta aðventunni sem mér finnst ætíð ánægjulegur tími þó svo að veðráttan þessa dagana sé ekki alveg  eins og maður vildi helst sjá.

Og á föstudag verðum við í Rótarýklúbbi Seltjarnarness með okkar jólafund og bjóðum mökum, börnum og barnabörnum. Svo forhertir eru Seltirningar í barnauppeldi sínu að þeir munu láta börnin sitja undir lestri jólaguðspjallsins þrátt fyrir öll viðvörunarorð frá trúarlögreglu samtímans í Vantrú og Siðmennt. Guð gefi að enginn hljóti skaða af.

En ekki heyrði ég betur en hinn glaðbeitti veðurfræðingur Siggi stormur væri að gefa fyrirheit um dálitla snjókomu síðari hluta aðfangadags og einnig á jóladag. Vona ég að satt reynist því hefðbundin Keilisganga mín á jóladag væri ekki séstakt tilhlökkunarefnið ef veðrið yrði eins og það hefur verið undanfarna daga.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2007-12-19/proflestur-kennarans-og-forhertir-seltirningar/

Athugasemdir

Fjöldi 16, nýjasta neðst

Carlos @ 19/12/2007 19.18

Við foreldrar nemenda í Melaskóla máttum sitja undir því að sjöundu bekkingar skólans fluttu leikritð “Gullna hliðið” sem er í senn trúarlegt og boðandi, þar sem miskunn og fyrirgefning er boðuð sem æðsta lögmál himins og jarðar. Gaman var annars að sjá sjöundu bekkingana fara með þá erfiðu texta, sérstaklega drenginn sem lék Jón. Honum hefur ekki þótt leiðinlegt að fá loks að blóta að vild í skólanum. Kannski blótsyrðin og guðsorðið hafi jafnað hvort annað út þannig að sýningin varð boðleg öllum.

Matti @ 19/12/2007 23.01

Mikið finnst ykkur gaman að snúa út úr.

Er það ekki vísbending um að málstaður ykkar sé vondur?

Carlos @ 20/12/2007 15.31

Þú ert svo mikið krútt, Matti, þegar þú kvartar yfir öðrum. Talandi um góðan málstað og vondan … þið dýrðlingarnir á vantrúnni hafið náttúrlega öll ykkar rök og allan ykkar málstað á hreinu sem fyrri daginn.

Matti @ 20/12/2007 15.44

Það eina sem ég bið um er að þið hættið að ljúga. Er til of mikils mælst?

Já, við höfum rökin og málstaðinn á hreinu. Þegar annað kemur í ljós leiðréttum við skrif okkar.

Ekki tala svo niður til mín með því að kalla mig krútt.

Carlos @ 20/12/2007 15.53

Núnú, aum taug. Gott og vel Matti. Ég hef margsinnis reynt þig og fleiri vantrúarpenna af því að leiðrétta ekkert af rangfærslum ykkar án þess að stóra l-orðið sé tekið af hillunni. Ég ætla að gera þér afarkosti. Meðan þú og þínir haldið úti rangfærslum og ómaklegu áróðursbulli á vantrú, örvita og víðar, mun ég tala við þig og þína eins og mér sýnist og eins tilefni er til.

Matti @ 20/12/2007 16.03

Þú getur ekki og hefur ekki bent á rangfærslur af okkar hálfu. Það eina sem þú hefur gert er að sýna viðkvæmni þína vegna þess að prestar eru kallaðir sínum réttu nöfnum og líkt við töfralækna.

Mér er svosem nokk sama hvað þú segir enda kommenta ég ekki á þína síðu. Hér er Gunnlaugur aftur á móti að fylgja skipunum spunameistara Þjóðkirkjunnar og snúa út úr málflutningi þeirra sem andmæla trúboði í skólum. Ef málflutningur kirkjunnar væri góður mynduð þið einfaldlega reyna að verja trúboð í skólum en í staðin er skrumskælt, rangfært og logið.

Sóknin hans lék sama leik um daginn. Heil sóknarnefnd ákvað að fara opinberlega með spunann í fjölmiðla. Eflaust flestir í nefndinni grunlausir og vissu ekki betur, en Gunnlaugur vissi betur.

Sumt fólk myndi skammast sín og ég veit reyndar af prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar sem gera það. Aðrir eru stoltir, tilgangurinn helgar meðalið. Prestlaunin skal vernda með öllum tiltækum ráðum. Þú þekkir það.

Carlos @ 20/12/2007 18.29

Lol Matti. Spunameistari … töfralæknar … ennþá ertu betri í að gefa en þiggja. Þú heldur að með gífuryrðum þínum öskrir þú fram sannleika með því að hræða þá frá sem nenna ekki að standa í stælum við þig. Þú ert hlægilega viðkvæmur fyrir eigin taktík þegar aðrir beita henni á þig, QED. Og ekki get ég sagst sakna þín í athugasemdakerfi annáls míns.

Leyfi mér að upplýsa þig, með sósu og stappað, eina skeið í einu:

1 Guðfræðideildin er umhugað um að vera akademísk deild innan HÍ og hefur í marga áratugi neitað staðfastlega að vera prestaskóli, vísað því til kirkjunnar, að sinna sérnámi fyrir presta.

2 Af því að Guðfræðideildin er akademísk deild í akademískum háskóla, hefur hún aðhald af öðrum deildum, sem bera með henni ábyrgð á því að hún og skólinn allur standi undir nafni.

3 Þótt dr. Gunnlaugur sé sóknarnefndarmaður í Seltjarnarneskirkju, er hann samt sem áður fyrst og fremst prófessor ráðinn af HÍ en ekki kirkjunni. Ábyrgð hans er gagnvart HÍ en ekki kirkjunni. Sama má segja um aðra starfsmenn HÍ.

4 Vissulega ráða menn sjálfir hvað þeir gera í frítímum sínum. Þú heldur hinsvegar fram að prófessor við HÍ sé svo undir hæl stofnunar úti í bæ, sem ekki einu sinni kostar embættið hvað þá meira, að hann láti segja sér hvað hann á að verja og hvað hann á að skrifa. Það er eins gott fyrir þig að hafa haldbærar sannanir fyrir þessu. Ef ég vissi ekki betur myndi ég álykta að þú segðir þetta bara í hita leiksins. En því miður hefurðu þráfaldlega logið á þennan máta upp á fólk.

Varðandi meint trúboð: Kirkjan hefur, gagnstætt því sem þú lýgur hér, tekið á sínu og bæði hlustað á gagnrýni og mætt henni, m.a. með því að setja fram fræðslustefnu, sem er allt annað en aflokað eða leynilegt plagg. Þú finnur það á kirkjan.is undir stefnumál og kirkja og skóli (nota leitarvélina). Orðið trúboð hefurðu auk þess svo skrumskælt með fýlu þinni út í Seljakirkju og gífuryrðum í garð sr. Bolla Péturs, að þér er ekki stætt á að kasta frekar grjóti og væl þitt er hræsni (sjá orvitinn.com, leikskólaprestur).

Gunnlaugur @ 20/12/2007 19.26

Örstutt yfirlýsing: Ég er trúmaður en ekki svo trúaður að ég trúi því, eins og t.d. Pétur Björgvin frændi Matthíasar, að hægt sé að eiga samtal við Matthías sem einhverju skili. Ég þekki manninn aðeins af því sem hann skrifar og á grundvelli þeirra skrifa er þetta eindregin afstaða mín. Einu sinni svaraði ég Matthíasi í athugasemdadálki hér á síðunni og hugðist vanda mig, sýna fyllstu kurteisi og nefndi hann “fulltrúa Vantrúar” tengdi hann m.ö.o. við þann félagsskap sem hann er svo stoltur af. Fyrir það fékk ég miklar ákúrur frá Matthíasi. Viðkvæmni þessa ötula talsmanns Vantrúar er ótrúlega mikil, ekki síst í ljósi þess orðbragðs sem hann notar um annað fólk. Mér er það alveg að meinalausu að Matthías saki mig um lygar. Þar hafna ég í stórum hópi ágætra manna. Samviska mín skiptir mig meira máli en það sem Matthías hefur um mig að segja. Mér hefur ekki sýnst skrif Matthíasar rekin á grundvelli sannleiksástar. Ég mun m.ö.o. ekki beina fleiri orðum til Matthíasar en vil að lokum nota tækifærið og óska þér Matthías gleðilegra jóla og farsæls nýs árs – enda hefur fram komið að þú haldir upp á jólin.

Gunnlaugur @ 20/12/2007 19.44

Mér láðist að þakka Carlosi hans skrif fyrr og síðar. Óska þér sömuleiðis gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, Carlos, og þakka þér gömul og góð kynni. Nú sný ég mér aftur að jólakortunum því að þó skömm sé frá að segja er ég fyrst núna að skrifa þau. Sóf!

Matti @ 20/12/2007 22.47

Carlos, þú ert lítill maður.

Gunnlaugur. Í færslu þinni beitir þú sömu taktík og ótal aðrir kollegar þínir og skrumskælir málstað þeirra sem mótmælt hafa trúboði í skólum. Þetta hefur verið aðferð Þjóðkirkjunnar undanfarnar vikur, allur hennar málflutningur hefur einkennst af svona óheiðarleika.

Enginn hefur sett sig upp á móti því að foreldrar og aðstandendur, líkt og þú, geti farið með börn á jólaskemmtun og helgihald.

Með því að stilla dæminu enn og aftur svona upp gerir þú þig sekan um óheiðarlegan málflutning. Kristilega siðgæðið umdeilda er undarlegur grautur.

Carlos @ 20/12/2007 23.12

Það er rétt Matti, 176 cm teljast ekki mikið. Reyndar sýnist mér þú ekki gera annað en að spóla í eigin áróðursvolæði. Þegar þú ert rökþrota koma ad hominem og fingrabendingar siðgæðispostulans, eitthvað sem þú annars staðar kallar rökvillu. Veistu hvað, þú gerir trúleysinu skömm til. Það er ekki hægt annað en að vorkenna þér. Allur þinn málflutningur hefur einkennst af óheilindum, persónuárásum, starfsníð. Og svo vælirðu þegar þér er settur stóllinn fyrir dyrnar.

Carlos @ 21/12/2007 00.03

Ég sé að Matti hefur fundið nýtt orð yfir presta – atvinnulygara, auk spunameistara, menn sem velta milljónum í gegnum spunasmiðju lyginnar til að verja trúboð í skólum. Allt á orvitinn.com. “Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig, ættirðu að líta í eigin barm”, var eitt sinn sagt við mig. Kannski Matti ætti að taka þau orð til athugunar. Eða ekki. Maðurinn er náttúrlega bara fyndinn í þessum ham og gersamlega ómarktækur nema fyrir harðsvírustu jásystkin. Fattar hann ekki hvaða ógagn hann gerir vantrúuðum?

Gunnar Einar Steingrímsson @ 21/12/2007 00.34

Prestar og starfsfólk kirkjunnar eru kölluð: Spunameistari, töfralæknar, atvinnulygarar o.fl. En það má ekki kalla Matta krútt??? Má hann kalla aðra öllum nöfnum sem honum dettur í hug, en það er bannað að kalla hann krútt? Er hann hafinn yfir aðra? Ja, svei. Matti, þú færð ekkert í skóinn í nótt!

Matti @ 21/12/2007 00.45

Lesið yfir þessa umræðu frá byrjun. Þetta er í raun stórfyndið.

Carlos, þegar um þig hafa verið skrifaðar dylgjugreinar í fjölmiðli kom einn hópur þér til varnar. Voru það kollegar þínir prestarnir? Nei, þeir þögðu allir. Það voru trúleysingjarnir og illmennin á Vantrú.

Ég var ekki að upp á orðinu atvinnulygari. Skammaðu frekar Illuga Jökulsson fyrir grein sína í nýjasta Ísafold.

Staðreynd málsins er þessi. Starfsmenn kirkjunnar hafa ítrekað sagt ósatt síðustu vikur. Þeir hafa viljandi snúið út úr málstað þeirra sem berjast gegn trúboði í skólum. Þetta er ekkert persónuleg skoðun mín eða tilfinning. Þetta er sannanleg staðreynd.

Gunnar Einar, það er ekkert bannað að kalla mig krútt. Það var bara ekkert tilefni til þess þarna og Carlos var einungis að nota þetta orð til að reyna að stuða mig.

Carlos @ 21/12/2007 06.18

Ég hef engu við þetta að bæta, endilega lesið vantru.is, orvitinn.com frá byrjun.

Matti @ 21/12/2007 15.39

Fyrir þá sem vilja lesa frá byrjun, þá hefst örvitabloggið hér og hér er upphaf skrifa á Vantrú.

Skemmtið ykkur vel við lesturinn og sendið mér endilega línu eða gerið athugasemd (ekki er hægt að gera athugasemdir við elstu færslur) ef þið viljið skýringu á einhverju.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli