gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Mínir menn” í Spurs skora mest · Heim · Mínir menn í Spurs ekki af baki dottnir, 4 mörk gegn Chelsea »

Sophie Scholl á páskasýningu Deus ex cinema í gærkvöldi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.06 19/3/08

Ekki sátu allir Þjóðverjar með hendur í skauti andspænis grimmdarverkum nasista í heimsstyrjöldinni síðari. Til vitnis um það er kvikmyndin Sophie Scholl. Die letzten Tage (2005) sem var sýnd sem páskamynd Deus ex cinema í heimili mínu í gærkvöldi. Fer ágætlega á því að stutt frásögn af myndinni og sýningunni verði til að rjúfa rúmlega þriggja og hálfsmánaða langt hlé á færslum mínum hér á annálnum.

Myndin um Sophie Scholl, sem er sannsöguleg, minnir að því leyti á hinu víðfrægu og rómuðu mynd danska kvikmyndaleikstjórans Carl Th. Dreyers um Jóhönnu af Örk (1928) að  litlu púðri er eytt í sögulegan aðdraganda þeirra réttarhalda sem eru meginefni myndanna beggja.

Sophie Scholl var, ásamt Hans bróður sínum, félagi í lítilli andspyrnuhreyfingu þýskra stúdenta í Munchen er nefndi sig Hvítu rósina. Þau systkinin voru handtekin (í febr. 1943)  fyrir að koma fyrir dreifiritum  innan háskólans í Muchen sem höfðu að geyma andóf gegn stefnu og styrjaldarrekstri þýskra nasista.

Merginhluti myndarinnar fjallar um yfirheyrslurnar og réttarhöldin yfir Sophie Scholl. Er þar byggt á gögnum sem urðu aðgengileg eftir fall Berlínarmúrsins og opnun skjalasafna í austur Þýskalandi.

Julia Jentsch er mjög góð í hlutverki hinnmar 21 árs Sophie Scholl. Í fyrstu neitar Sophie allri sök og virðist á tímabili hafa náð að sannfæra Robert Mohr þann er yfirheyrir hana. Er Mohr mjög vel leikinn af Alexander Held. En þar kemur að Sophie getur ekki lengur neitað og eftir það reynist hún sterk í að sýna fram á réttmæti gerða sinna. Byggir hún þar mjög á kristinni trú sinni. Í myndinni kemur líka við sögu vitnisburður félaga hennar um morð nasista á gyðingum í austri.

Trúarlegt orðalag kemur einkum fyrir í niðurlagi myndarinnar og má þar greina vísanir til Krists t.d. þegar sagt er að Sophie leggi líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Fangelssispresturinn flytur henni bæn í nafni hins þríeina Guðs og í framhaldi af því hittir Sophie bróður sinn og vin hans sem einnig eiga dauðann í vændum og þau þrjú fallast í faðma. Skapar það óneitanlega hugrenningatengsl við þá þrenningu sem nefnd hafði verið rétt áður.

Þegar Sophie er orðið ljóst að dauði hennar er á næsta leiti biður hún til Guðs með orðalagi sem sækir greinilega til angurljóða Saltarans. Tvívegis er í myndinni vitnað til orða sköpunarsögunnar (1 Mós 1:26-28) um sköpun mannsins (karls og konu) í mynd Guðs. Þó að vafalaust sé þar of mikið lesið inn í myndinni gat ég ekki að því gert að sex síðustu dagarnir sex í lífi Sophie Scholl minntu mig á sex daga sköpunarsögunnar þegar Guð sjálfur skapaði kosmos úr kaos, eða heim úr óreiðu.

Kaos sá sem nasisminn flutti með sér var sannarlega þess virði að berjast gegn og láta lífið fyrir.  Sú var a.m.k. afstaða Sophie Scholl og félaga hennar í Hvítu rósinni. Sophie Scholl er minnst við hlið guðfræðingsins Dietrich Bonhoeffer og annarra Þjóðverja sem fórnuðu lífi sínu í baráttu gegn fáheyrðri mannvonsku nasismans.

Einna áhrifaríkasta atriði myndarinnar er þegar foreldrar Sophie koma í fangelsið og fá að kveðja dóttur sína. Faðir hennar segir hana og Hans bróður hennar hafa gert rétt og hann sé stoltur af þeim.

Myndin spannar aðeins síðustu sex dagana í lífi Sophie Scholl og sýnir hve hart og fljótt var brugðist við í einræðisríki nasista gagnvart “glæp” sem fólst í því einu að dreifa blöðum með boðskap sem var gegn  þeim stóru glæpumsem framdir voru í nafni þýsku þjóðarinnar.

Dómarinn Roland Freisler kann að virðast dálítið yfirgengilegur í myndinni en Bjarni Randver Sigurvinsson benti á að svo væri alls ekki. Hinn raunverulegi “blóðdómari” Freisler hefði í raun og veru verið enn ruddalegri í dómarasætinu en í myndinni. Er til upptökur af sumum réttarhalda Freisler þar sem hægt er að sannfærast um það. Það var sannarlega ekki svo að sakborningum væru gefin einhver færi á að bera hönd fyrir höfuð sér, heldur öskraði dómarinn á þá ókvæðisorðum.

Það má kallast viðeigandi að taka mynd sem þessa til sýningar í dymbilvikunni því ekki fer hjá því að fórn Sophie kallist á við fórn Krists.

Ég hafði raunar boðið upp á val milli tveggja mynda í gærkvöldi, Sophie Scholl og einnar elstu helfararmyndar sem gerð hefur verið, The Search (1948).

Svo fór að Sophie Scholl var valin með 5 atkvæðum gegn 3. Ég skal gera þá játningu að ég var hlynntari The Search en þar sem atkvæði mitt greitt þeirri mynd hefði þýtt 4-4 jafntefli of þá hefði komið til hlutkestis.

Þar sem ég á ekki “úrím” og “túmmím” eina hlutkestið sem Gamla testamentið viðurkennir ákvað ég að styðja þann meirihluta sem þegar var kominn og sannarlega er Sophie Scholl mynd sem er þess virði að horfa á.

Á sýningunni voru auk mín: Elína Hrund Kristjánsdóttir guðfræðingur, Oddný Sen kvikmyndafræðingur,  Bjarni Randver doktorsnemi í guðfræði, Gunnar E. Steingrímsson æskulýðsfulltrúi, Gunnar J. Gunnarsson lektor (nýkominn heim frá Stokkhómi í páskafrí), Pétur Pétursson prófessor og síðast en ekki síst Hjörtur Pálsson, guðfræðingur, bókmenntafræðingur og skáld. Las hann fyrir sýninguna ljóð Hannesar Péturssonar Hvíta rósin úr samnefndri bók Inge Scholl sem Einar Heimsson heitinn (1968-1998) þýddi á sínum tíma.

Velheppnað kvöld í hópi góðra Dec-félaga.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-03-19/sophie-scholl-a-paskasyningu-deus-ex-cinema-i-gaerkvoldi/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 19/3/2008 19.02

Myndin hljómar spennandi og það hefði verið gaman að vera með ykkur í gærkvöldi.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 19/3/2008 23.02

Þakka kveðjuna, Árni Svanur. Þín var saknað á sýningunni í gærkvöldi en við þekktum lögmæta ástæðu fyrir fjarveru þinni. Annars var galgopi í gestum og þóttist fólk verða vart við mikla reimleika á sýningunni. Þannig sást Yul Brynner afturgenginn fyrir utan hús mitt og fékk óðara íslenskst drauganafn og er nú nefndur “Júlíus vatnsberi” og bætist í hópa nokkurra drauga sem gert hafa vart við sig á sýningum Deus ex cinema í vetur.

Gunnar Einar Steingrìmsson @ 20/3/2008 02.01

já, ég þakka fyrir góða sýningu á magnaðri mynd.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli