gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fjölgar um eina nafngreinda konu í Gamla testamentinu: Lilít · Heim · Alan Dershowitz á Íslandi »

Gestaboð Babettu páskamynd mín í ár

Gunnlaugur A. Jónsson @ 16.29 23/3/08

Slæm flensa hefur sett mark sitt á dymbilvikuna hjá mér svo og páskana. Hef varla farið út úr húsi þessa daga. Í gær var ég dúðaður undir sæng í sófanum og horfði á eina af mínum uppáhaldskvikmyndum, hina dönsku Babettes gæstebud (1987).

Um þessa mynd skrifaði ég kafla í bókina Guð á hvíta tjaldinu (2001, s. 71-83). Þetta er einstaklega falleg mynd og þá er ekki síst áhugavert að skoða hana í trúarlegu ljósi, einkum sem vísun í síðustu kvöldmáltíð Jesú Krists og finnst mér fullkomlega eðlilegt að tala um Babette sem kristsgerving í myndinni.

Að þessu sinni var ég einkum að skoða myndina af sjónarhóli 85. Davíðssálms en brot af honum  er flutt í myndinni, í ræðu sænska hershöfðingjans undir borðum í máltíðinni sem er meginefni myndarinnar. Það er gefandi að skoða myndina á þennan hátt og ákveðnar hliðstæður eru sláandi milli sálms og myndar.

Í báðum tilfellum er það hinn strangi eða reiði Guð sem setur mark sitt á fyrri hlutann en síðan er boðað nýtt og fagnaðarríkt líf eða við fáum að kynnast því á áþreifanlegan hátt (lögmál-fagnaðarerindi).

Ekki ætla ég að fara að skrifa neina langloku um þessa frábæru kvikmynd hér en hér er sannarlega um að ræða mynd sem þolir að horft sé á hana oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og batnar við það.

Myndin kemur raunar við sögu í nýju rannsóknarverkefni mínu sem fjallar um notkun og áhrif Davíðssálma í kvikmyndum. Stefnt er að því að afrakstur rannsóknarinnar verði bók á ensku um efnið enda hefur engin bók um þetta efni verið skrifuð, hvorki hér á landi né erlendis.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-03-23/gestabod-babettu-paskamynd-min-i-ar/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 23/3/2008 23.17

Gestaboð Babettu er mögnuð mynd og það er alveg nauðsynlegt að horfa reglulega á hana. Þú skrifaðir nú líka ágæta umfjöllun um hana á Deus ex cinema vefinn :)


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli