gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Gestaboð Babettu páskamynd mín í ár · Heim · Trúarlegt táknmál í Seltjarnarneskirkju »

Alan Dershowitz á Íslandi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.51 3/4/08

Það var ánægjulegt að hitta Harvard-lögfræðiprófessorinn kunna Alan Dershowitz í kvöldverðarboði sem honum var haldið til heiðurs s.l. þriðjudagskvöld.

Ég les pistla Dershowitz reglulega, einkum þá sem hann birtir í Jerusalem Post. Hann er einhver öflugasti baráttamaður samtímans gegn gyðingahatri í öllum birtingarmyndum þess. Yfirburðagreindur maður og varð prófessor við Harvard aðeins 28 ára.

Íslandsheimsókn Dershowitz hefur ekki farið hátt en hann heldur námskeið fyrir lögfræðinga í Skálholti og í dag kl. 15 verður hann með opinberan fyrirlestur á Hotel Nordica.

Sem áhugamaður um kvikmyndir vissi ég af því að kvikmyndin Reversal of Fortune (1990) í leikstjórn Barbert Schroeder fjallaði um eitt frægasta mál Dershowitz, árangursríka vörn hans í máli Claus von Burlow. Þar fór Jeremy Irons með aðalhlutverk og fékk Óskarinn fyrir.  Ég spurði Dershowitz hvort hann hefði verið sáttur við þá mynd og kvað hann svo vera, mjög sáttur.

Hann kom mér fyrir sjónir sem afar viðfelldinn maður og þótti mér það ekki lakara því ég hef hrifist mjög af mörgu því sem hann hefur skrifað.

Meðal bóka Dershowitz sem ég á í fórum mínum er ritið The Case for Israel,  mjög vandað rit þar sem hann hrekur margvíslegar rangfærslur um málefni Ísraels í samtímanum. Eins og nærri má geta er ritið umdeilt og fjandmenn Ísraels gagnrýnt það en hafa reynst eiga lítið erindi í rökræður við Dershowitz um málefnið.

Dershowitz tekur mjög oft upp hanskann yfir Ísraelsmenn þegar á þá er deilt en er líka oft gagnrýninn á ísraelsk stjórnvöld. Ekki er ég sammála öllu því sem ég hef lesið eftir hann en finnst hann einkar rökfastur og málefnalegur.

Þess má geta að Dershowitz segist ekki trúaður og þegar hann sæki helgihald í sýnagógum gyðinga trúi hann fæstu sem þar er sagt. Samt segist hann styðjast mikið við gyðingleg trúarrit í röksemdafærslum sínum.

Dershowitz hefur í nýlegri bók orðað það svo að hann sé gyðingur með sama hætti og blökkumaður er blökkumaður.

Elie Wiesel hefur sagt að þó ekki hefðu verið nema fáeinir menn  eins og Alan Dershowitz uppi á fjórða og fimmta áratugi síðustu aldar þá hefði sagan trúlega geta orðið önnur. Þar er Wiesel að sjálfsögðu að vísa til hinnar ötulu baráttu Dershowitz  gegn gyðingahatri. Einn meginboðskapur hans er sá að maður eigi aldrei að láta gyðingahatri ómótmælt, hvar sem það verður á vegi manns.

Það minnir á boðskap Wiesels um að afskiptaleysið sé verra en hatrið.

Eins og lesa má á bloggi Egils Helgasonar þá verður Dershowitz í Silfri Egils á sunnudaginn kemur.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-04-03/alan-dershowitz-a-islandi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli