gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Trúarlegt táknmál í Seltjarnarneskirkju · Heim · Verkfræðingur útskýrir krossfestingu Krists »

Dvórak í Seltjarnarneskirkju í gærkvöldi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.20 7/4/08

Selkórinn flutti messu í d-dúr eftir tékkneska tónskáldið Antonin Dvorák (1841-1904) á listahátíð í Seltjarnarneskirkju í gærkvöldi og gerði það með miklum ágætum. Ekki var síðri einsöngur Guðrúnar Helgu Stefándsdóttur á fimm biblíuljóðum Dvoráks. Undirleikari í báðum tilfellum var Fiðrik Vignir Stefánsson, hinn fjölhæfi organisti Seltjarnarneskirkju.

Það er að verða hefð fyrir því að tónlist Dvoráks sé flutt í Seltjarnarneskirkju. Þannig var tónlist eftir hann flutt  á listahátíðum kirkjunnar árin 2004 og 2006. Og hið gullfallega lag Dvoráks við Sl 23 “Drottinn er minn hirðir” hefur margsinnis verið flutt í kirkjunni. Margir kannast við lagið úr tékknesku óskarverðlaunamyndinni Kolya (Jan Sverák 1996)  en þar er það gegnumgangandi stef.

Dálæti ýmissa Seltirninga á Dvorák má að miklu leyti rekja til tékkneska organistans Vieru Manasék sem starfaði við kirkjuna um langt árabil en er nú flutt til Tékklands ásamt Pavel eiginmanni sínum sem einnig starfaði um hríð við Seltjarnarneskirkju.

Selkórinn hefur nokkrum sinnum áður flutt d-dúr messu Dvoráks (sem var samin árið 1887) , m.a. í hljómleikaför í Portúgal vorið 2005, og er væntanlegur geisladiskur með tónlistarflutningi kórsins síðar á þessu ári og þar mun umrædd messa skipa stóran þátt. Er það tilhlökkunarefni að eiga í vændum að geta hlýtt á d-dúr messu kórsins heima í stofu í afar áheyrilegum flutningi Selkórsins.

Þá má geta þess að sr. Kristján Valur Ingólfsson lektor hefur þýtt biblíuljóð Dvoráks á íslensku og er vonandi að sú þýðing verði gefin út á prenti fyrr en síðar. Biblíuljóð Dvoráks eru samin við nokkra af sálmum Gamla testamentisins (Davíðssálma) og munu fyrst hafa verið flutt árið 1895. Guðrún Helga söng fimm ljóðanna á tékknesku í gærkvöldi  en hún hefur ásamt Friðriki Vigni verið að æfa flutning allra ljóðanna og er tilhlökkunarefni að fá að heyra hana syngja þau á íslensku.

Á listahátíð í Seltjarnarneskirkju 20. apríl 2006 flutti Margrét Bóasdóttir, eiginkona sr. Kristjáns Vals, biblíuljóð Dvoráks í þýðingu manns síns og gerði það með glæsibrag eins og lesa má um á annál mínum frá þeim tíma.

Jón Karl Einarsson, sem verið hefur stjórnandi kórsins síðan 1991 , hefur unnið mjög gott starf með Selkórnum sem fagnar 40 ára afmæli sínu í ár. Var upphaflega stofnaður sem kvennakór, árið 1968.

Óhætt að segja að Selkórinn sé einhver traustasti hlekkurinn í menningarstarfi á Seltjarnarnesi og er fagnaðarefni að tengsl kórsins við Seltjarnarneskirkju hafa aukist upp á síðkastið.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-04-07/dvorak-i-seltjarnarneskirkju-i-gaerkvoldi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli