gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Dvórak í Seltjarnarneskirkju í gærkvöldi · Heim · Af biblíulestri, Síraksbók og gagnrýni »

Verkfræðingur útskýrir krossfestingu Krists

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.52 18/4/08

Guðmundur G. Þórarinsson flutti magnað erindi á fundi Rótarýklúbbs Seltjarnarness sem haldinn var í Albertsbúð í Gróttu í hádeginu í dag.

Guðmundur, sem er verkfræðingur að mennt og fyrrverandi alþingismaður, tók sér fyrir hendur að skýra hvers vegna óhjákvæmilegt hefði verið að starf Jesú Krists og boðun hafi leitt til krossfestingar hans.

Það var með forvitni sem ég mætti til fundarins. Ég hef á liðnum árum fylgst með Guðmundi í gegnum fjölmiðla, eins og alþjóð. Ég vissi um mikinn áhuga hans á skákmálum og miklu og góðu starfi hans á þeim vettvangi. Stjórnmálaferil hans þekki ég einnig. En um áhuga hans á ævi og boðun Jesú Krists vissi ég ekki.

Guðmundur talaði blaðalaust og fipaðist hvergi, vitnaði af mikilli þekkingu í Biblíuna og löggjöf Gyðinga á tímum Gamla testamentisins. Hann sagði að áhugi sinn á efninu hefði vaknað eftir að hann horfði á kvikmynd Mel Gibsons The Passion of the Christ.

Það leyndi sér ekki að vandlega var hlustað á erindi Guðmundar og hefði mátt heyra saumnál detta. Hann sagðist í raun hafa skoðað málið af sjónarhóli verkfræðings. Hér ætla ég ekki að gera tilraun til að endursegja erindi Guðmundar en augljóst var að það hristi upp í viðstöddum. Ekki vegna þess að í því væru flutt einhver stórkostlega ný sannindi heldur frekar það hver það var sem talaði og einkum þó hvernig var talað.

Guðmundur talaði af miklum sannfæringakrafti og flutti erindi sitt afar vel. Þetta hefur verið að spyrjast út að undanförnu og hver félagssamtökin á fætur öðrum hafa kallað Guðmund á sinn fund til að tala um þetta efni. Ég er ekkert hissa á því. Áhugi þjóðarinnar á kristinni trú er sannarlega til staðar ennþá. Mörgum finnst sem kristnin hafi með Guðmundi eignast óvenjulega öflugan talsmann.

Raunar talaði Guðmundur ekkert um friðþæingarkenningu kristninnar eða hina guðfræðilegu túlkun á krossdauða Krists heldur leitaðist hann við að skýra krossfestinguna í ljósi samtíðarsögu Nýja testamentisins og er óhætt að segja að það hafi honum í aðalatriðum tekist vel.

Ekki gafst mikill tími til fyrirspurna að loknu erindinu sem var í lengri kantinum miðað við lengd hefðbundinna  Rótarýfunda. Spurningu minni um hvort hann væri trúaður svaraði Guðmundur eitthvað á þá leið að hann tryði ekki á skeggjaðan karl á himnum en eins og margir  fremstu vísindamenn heimsins sagðist hann trúa því að það væri hugsun að baki undrum heimsins og himinhvolfsins. Óhugsandi væri að öll sú flókna veröld væri orðin til fyrir tilviljun.

Raunar bar öll ræða Guðmundar um Jesú Krists því vitni að þarna talaði trúaður maður á kristna vísu en framsetning hans var talsvert á annan veg en sú sem maður er vanur að heyra af prédikunarstóli prestanna. Hann ræddi um Jesú Krists sem áhrifamesta ræðumann allra tíma og engin ræða hefði fyrr eða síðar  haft slík áhrif sem fjallræða Jesú.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-04-18/verkfraedingur-utskyrir-krossfestingu-krists/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli