gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Af biblíulestri, Síraksbók og gagnrýni · Heim · Mikilvægi “dellunnar” og Sálmur 23 »

Tími ritgerðanna

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.15 24/4/08

Nú er tími ritgerðanna. Kennslu lokið en mikill og stór stafli af vandlega unnum ritgerðum bíður lesturs.

Ekki ólst ég upp við það að gefin væri sumargjöf, hvorki bók né annað. Ég tek hins vegar undir með fólkinu í sjónvarpsþættinum Kiljunni í gærkvöldi um að bókargjöf á sumardaginn fyrsta er fallegur siður. Það þarf að halda bókum að börnum nú sem fyrr, það skilar sér margfaldlega á allan mögulegan hátt.

Mín sumargjöf eru ritgerðir nemendanna. Áhugaverð lesning og hlutskipti mitt í dag, hinn fyrsta sumardag, er að sitja yfir nokkrum ritgerðanna. Einnig að hitta nemanda vegna BA-ritgerðar.  Svo er próf í Ritskýringu Mósebóka 29. apríl. Á enn eftir að setja spurningar á blað en nokkrar þeirra eru þegar tilbúnar í höfði mér.

Áherslur mínar í námskeiðinu hafa að nokkru leyti verið dálítið aðrar en oft áður. Þar veldur mestu kynni mín af prófessor James L. Kugel við Bar Ilan-háskólann í Ísrael sem ég heimsótti í janúar síðastliðnum.

Kugel hefur í afar læsilegum bókum sínum verið að vekja til lífsins túlkanir hinna elstu biblíuritskýrenda frá því fyrir Kristsburð. Það hefur reynst mér heillandi heimur. Í nýjustu bók sinni How To Read the Bible. A Guide to Scripture Then and Now  (Free Press 2007, 819 bls.) teflir Kugel fram hinum fornu túlkunum gegn nútíma ritskýringu. Úr verður einhver læsilegasta bók í G.t.-fræðunum sem ég hef kynnst. Mikill doðrantur sem spannar allt Gamla testamentið.

Kugel var áður prófessor við Harvard-háskólann virta  í Bandaríkjunum og naut námskeið hans í biblíufræðum fáheyrðra vinsælda.  Það skil ég vel þegar ég les bók hans How to read the Bible sem þegar hefur verið verðlaunuð í Bandaríkjunum. Sjálfur er Kugel einstaklega viðkunnanlegur maður en ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að njóta fylgdar hans í Jerúsalem heilan  dag, 9. janúar síðastliðinn. Var þá mikið flaggað í borginni. Tók ég það til mín (!)  en ástæðan var raunar sú að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, var þá í opinberri heimsókn í Jerúsalem.

Það sem gerir túlkanir hinna fornu ritskýrenda jafn heillandi og raun ber vitni er það af hve mikilli innlifun þeir nálgast textana. Vísindalegt hlutleysi er þeim víðsfjarri og í mörgum tilfellum reynast þeir óhæddir við að auka við textana (sbr. hin svokallaða midrash-iðkun Gyðinga). En sannarlega voru þeir engir asnar og allt sem virðist viðbót við textana á sér skýringu í öðrum textum Gamla testamentisins.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-04-24/timi-ritgerdanna/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli