gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Tími ritgerðanna · Heim · EM-fótboltinn ruglaði svefninn »

Mikilvægi “dellunnar” og Sálmur 23

Gunnlaugur A. Jónsson @ 05.00 28/4/08

Björn Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla og einn af stofnendum Rótarýklúbbs Seltjarnarness, flutti snjalla hugvekju við guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju í gær. Rótarýfélagar lásu ritningargreinar, tóku þátt í guðsþjónustunni og buðu kirkjugestum upp á kaffiveitinga að messu lokinni.

Sjálfur mætti ég til messunar þrátt fyrir slæmsku í hálsi og hita. Ekki sá ég eftir því þar sem hugvekja Björns sem hann nefndi “Hugarró” var afar snjöll og urðu enda margir til að hrósa henni og kváðust vilja sjá hana á prenti. Var ég meðal þeirra.

Björn var persónulegur í ræðu sinni og rakti hvernig hann hefði snemma á kennaraferli sínum við Hagaskóla fundið til þess að hann væri ófullnægður. Hann komst að því að hann vantaði einhverja dellu, áhugamál eða tómstundaiðju. En “della” var hugtakið sem Björn notaði gegnumgangandi enda snjall ræðumaður og kann að nota orðalag sem eftir er tekið.

“Daufur er dellulaus maður” sagði hann, hafi mér ekki misheyrst. Það er skemmst frá því að segja að Björn fann sínar dellur sem hafa skipt hann miklu og komið að góðu gagni, ekki síst á erfiðleikatímum. Annars vegar tók hann að fást við þýðingar, hins vegar við skógrækt. Hefur hann reynst mjög afkastamikill á báðum sviðum.

Hann hefur kynnt nýjar aðferðir í skógrækt og sjálfur sýnt með áþreifanlegum hætti fram á notagildi þeirra á jörð sinni Sólheimum í Landbroti.

Námskeið hans um skógrækt hafa verið rómuð og afar vel sótt.

Björn sneiddi ekkert hjá trúarlegum efnum í ræðu sinni. Hann sagðist gera gera greinarmun á trú og trúarbrögðum og kvaðst trúaður maður. Hans trúarjátning væri Sálmur 23 og hafði Björn sálminn yfir í lokin og reyndist að sjálfsögðu kunna hann utanbókar. Var þar komið enn eitt dæmið um miklar vinsældir og mikil áhrif þessa merkilega sálms “Drottinn er minn hirðir…”

Þetta er annað árið í röð sem Rótarýmenn á Seltjarnarnesi standa fyrir Rótarýmessu.  Gaf klúbburinn nokkra peningaupphæð í hjálparsjóð kirkjunnar en í fyrra var gefinn fallegur söfnunarbaukur ásamt peningaupphæð í áðurnefndan sjóð.

Guðsþjónustan var vel sótt en þetta er annars sá árstími þar sem messusókn fer yfirleitt mjög minnkandi eftir vetrarstarfið og fermingarnar. Margir kirkjugesta notuðu tækifærið til að skoða hina athyglisverðu myndlistarsýningu Gerðar Guðmundsdóttur en sýningin er hluti af listahátíð kirkjunnar sem í ár var haldin undir yfirskriftinni “Táknmál kristinnar trúar.”

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-04-28/mikilvaegi-dellunnar-og-salmur-23/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Andrés @ 7/7/2008 18.39

Gaman að þessu. Björn var á sínu síðasta ári sem skólastjóri árið sem ég byrjaði í skólanum. Komst hugvekjan nokkurn tíma á prent?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 7/7/2008 19.18

Þakka þér innlitið, Andrés. Ég hef hvatt til að hugvekja Björns verði birt en því miður skilst mér að það hafi enn ekki orðið. Sjálfur var ég nemandi í Hagaskóla þegar Björn tók þar við sem skólastjóri.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli