gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “… nema hjá stöku trúfífli” · Heim · Skortur á mannúð hjá Útlendingastofnun? »

Dvorák í Dómkirkjunni í gær

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.36 4/7/08

Ánægjulegt var að hlýða á Dvorák-tónleika Guðrúnar Helgu Stefánsdóttur og Friðriks Vignis Stefánssonar í Dómkirkjunni í hádeginu í gær. Fluttu þau tíu biblíusöngva Dvoráks með ágætum og við góða aðsókn. Voru tónleikarnir liður í alþjóðlegu orgelsumri sem Félag íslenskra organleikara stendur fyrir.

Þau Guðrúnu Helgu söngkonu og Friðrik Vigni organista þekki ég vel af starfi þeirra í Seltjarnarneskirkju og hafa þau flutt verk Dvoráks þar enda Dvorák lengi verið í miklum metum í þeirri kirkju. En ánægjulegt var að hlýða á þau í nýju umhverfi, þ.e. í  Dómkirkjunni og það var sömuleiðis ánægjulegt að verða vitni að því hve margir gáfu sér tíma í hádeginu til að koma á tónleikanum, allmargir útlendir ferðamenn þar á meðal.

Þúsund krónur kostaði inn og ekki virtist fólk setja það fyrir sig. Prógram fylgdi með skrá yfir biblíusöngvana, bæði á íslensku og ensku. Kemur þar fram að allir eru textarnir sóttir í Davíðssálma. Hinn þekktasti er 23. sálmurinn “Drottinn er minn hirðir” en hið gullfallega lag Dvoráks við þann sálm gegnir stóru hlutverki í hinnu margrómuðu tékknesku kvikmynd Kolya sem fékk Óskarsverðlaunin sem besta útlenda kvikmyndin árið 1996.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-07-04/dvorak-i-domkirkjunni-i-gaer/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli