gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fyrsti kvenforsetinn stjórnaði fundi · Heim · Selfoss – Sigur á æskuslóðum »

Sumarsöfnuður

Gunnlaugur A. Jónsson @ 20.02 13/7/08

Ég sótti messu í Hallgrímskirkju í morgun. Þar prédikaði minn ágæti starfsbróðir sr. Kristján Valur Ingólfsson og gerði það vel. Eins og jafnan í Hallgrímskirkju var messan vel sótt en það leynir sér ekki að á sumrin er samsetning safnaðarins nokkuð önnur en yfir vetrartímann.

Útlendingar eru alltaf nokkur hluti kirkjugesta á sumrin og svo var greinilega einnig í dag. Mér finnst alltaf notalegt að koma í Hallgrímskirkju þó að ekki sæki ég messu þar oft, því yfirleitt tek ég sóknarkirkju mína, Seltjarnarneskirkju, fram yfir aðrar kirkjur. Sótti þó messu í Dómkirkju um daginn, kom nokkrum mínútum eftir að messa var hafin og kom það mér á óvart að nær hvert sæti var skipað en því á maður ekki að venjast í Dómkirkjunni nema við jarðarfarir og á stórhátíðum. Kom á daginn að flestir kirkjugesta voru útlendingar, einkum norrænir frímúrarar að því er sr. Hjálmar Jónsson sagði mér að lokinni messu en hann flutti ræðu sína þá jöfnum höndum á íslensku og “skandinavísku.”

Mikill fjöldi ferðamanna var líka utan við Hallgrímskirkju í dag, að skoða kirkjuna eða inni í anddyri hennar án þess að taka þátt í guðsþjónustunni. Eins og allir vita stendur yfir viðgerð á turni kirkjunnar og hefur verið byggður inngangur fyrir framan kirkjuna svo ekki sé hætta á að neinn fái stein í höfuðið sem í kirkjuna kemur.

Góð og uppbyggileg messa í dag. Kristján Valur átti einnig að messa í Þingvallakirkju í dag enda sagði hann texta dagsins, úr niðurlagi fjallræðunnar, vera svo mikinn að ekki veitti af tveimur prédikunum til að gera honum skil. Kristján flytur ræður sínar jafnan mjög vel með skýrum og góðum áherslum þannig að hvert orð kemst vel til skila. Hann var á köflum á húmorískum nótum í dag enda sá ég kirkjugesti, sem nærri mér sátu, oft brosa undir ræðu hans.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-07-13/sumarsofnudur/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli