gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Laxness, Wellhausen og heimsfrægðin · Heim · Til Portúgals »

Fíngerðir fuglar Höskuldar í Hveragerði

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.41 29/7/08

Það var ánægjulegt að vera viðstaddur opnun sýningar á myndum Höskuldar Björnssonar (1907-1963) í Hveragerði s.l. sunnudag. Ég mæli með sýningunni. Upplagður bíltúr austur fyrir fjall, t.d. fyrir þá sem eru með gesti úr útlöndum.

Þannig háttaði líka til um mig. Þorbjörg systir mín, sem búsett hefur verið í Kanada í rúma fjóra áratugi, er stödd hér á landi í sumar, áhugasöm um listir og menningu og á meira að segja tvær myndir eftir Höskuld. Hún tók strax fagnandi hugmyndinni um bíltúr í Hveragerði.

Sjálfur á ég einnig tvær myndir eftir Höskuld. Ástæða þess er sú að foreldrar mínir, Jón Gunnlaugsson læknir (1914-1997) og Selma Kaldalóns tónskáld (1919-1984) voru góðir vinir Höskuldar og Hallfríðar konu hans og keyptu margar myndir af Höskuldi. Minnist ég margra heimsókna með þeim á heimili og vinnustofu Höskuldar í listamannanýlenduna, sem var á þeim árum í Hveragerði.

Ég er alinn upp við þá skoðun að Höskuldar hafi verið fuglamálari á alþjóðamælikvarða og styrktist við þá skoðun á sýningunni á sunnudag og við lestur ágætrar greinar um hann í Lesbók Mbl. á sunnudaginn var. Það var fjölmenni við opnun sýningarinnar og þar hitti ég marga kunningja, m.a. hjónin Evu Ragnarsdóttur og Önund Ásgeirsson en Ragnar Ásgeirsson faðir Evu (og bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta) var eins konar umboðsmaður Höskuldar, þó ekki væri það nafn notað í þá daga, og eiga þau hjón nokkrar myndanna sem sýndar eru í listaskálanum í Hveragerði.

Höskuldur naut sín best í vatnslitamyndum og hann hefur haft einstaklega næmt auga fyrir ýmsum fyrirbærum náttúrunnar en einkum þó fuglum. En hann málaði einnig olíumálverk og landslagsmyndir, margar þeirra frá Hornafirði þar sem hann ólst upp. Ég ætla að fara aftur á þessa sýningu og skoða hana í betra tómi og líka til að verða mér úti um bækling sem gefinn var út um Höskuld í tilefni sýningarinnar, en var ekki kominn út nema í örfáum eintökum þegar sýningin var opnuð. Var því lofað að bæklingurinn yrði kominn í nægu upplagi síðar í vikunni.

Niðurstaða: Flott sýning í Hveragerði þar sem fíngerðir fuglar Höskuldar draga að sér mesta athygli. Höskuldur Björnsson hefur ekki fyllilega notið þeirrar athygli sem hann á skilið en þessi sýning kann að breyta því.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-07-29/fingerdir-fuglar-hoskuldar-i-hveragerdi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli