gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Logi skapar úr engu – enn af trúarlegu orðalagi í handbolta · Heim · Bambi Bixon heiðruð af guðfræðideild »

Seltirningar flagga fyrir silfrinu en lítið flaggað í höfuðborginni

Gunnlaugur A. Jónsson @ 18.04 24/8/08

Á ferð minni um Reykjavíkursvæðið áðan tók ég eftir því að það voru Seltirningar sem flögguðu áberandi mest fyrir silfurverðlaunum okkar manna á Olympíuleikunum í Peking. Þar í bæ var fáni á nánst hverri flaggstöng. Hins vegar sá ég mjög fáa fána í höfuðborginni sjálfri og ég renndi raunar í gegnum handboltabæinn gamla Hafnarfjörð og sá í fljótu bragði ekki annan fána þar en við Hafnarfjarðarkirkju.

Þetta er vissulega engin vísindaleg úttekt en það leynir sér ekki að leikurinn gegn Frökkum í morgun olli vonbrigðum, ekki að hann skyldi tapast heldur að hann skyldi verða eins ójafn og raun bar vitni. Leikurinn var í raun tapaður upp úr fyrri hálfleik en lokatölurnar 23-28 eru þó ekkert til að skammst sín fyrir. Og minna má á að Spánverjar lögðu Króata með sex marka mun í leik um bronsið og okkar menn höfðu í undanúrslitum unnið Spánverja með sex mörkum (36-30) þannig að sannarlega eru “strákarnir okkar” vel að silfurverðlaununum komnir.

Mér fannst þreyta í okkar mönnum enda þeir með mun erfiðara prógram að baki en Frakkarnir. Munurinn lá þó líklega fyrst og fremst í markvörslunni. Hinn frábæri markvörður Frakka beinlínis lokaði marki Frakka á löngum köflum meðan markvarslan í íslenska markinu var með slakara móti.

Hvað um það mér finnst ástæða fyrir að flagga fyrir frábærum árangri handboltalandsliðsins. Ég hef raunar enga flaggstöng við mitt hús en fáeinir fjölskyldumeðlimir eru að koma í kvöldmat hingað á eftir og ég flagga með þremur litlum fánum innanhúss.

Frábær árangur handboltalandsliðsins og frábær skemmtun sem liðið hefur veitt okkur þó svo að lokaleikurinn, stóri leikurinn um gullið hafi reynst slakasti leikur liðsins í keppninni. En Frakkarnir eru með gríðarlega öflugt lið og eru vel að sigrinum komnir.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-08-24/seltirningar-flagga-fyrir-silfrinu-en-litid-flaggad-i-hofudborginni/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli