gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Bambi Bixon heiðruð af guðfræðideild · Heim · Brynhildur og Brák – frábær upplyfting í kreppunni »

Þrúgur reiðinnar og kreppa nútímans

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.15 23/9/08

Á síðustu sýningu Deus ex cinema sem haldin var á heimili mínu í s.l. viku var sýnd stórmyndin Þrúgur reiðinnar, The Grapes of Wrath (John Ford, 1940) eftir vinsælustu sögu J. Steinbecks (1939). Mér þótti við hæfi að sýna myndina í öllu krepputalinu enda er kreppan mikla  í Bandaríkjunum á fjórða áratugi síðustu aldar baksvið myndar og sögu.

Heiðursgestur kvöldsins var Jónas Haralz fyrrv. bankastjóri og efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Var mjög ánægjulegt að hafa Jónas, 89 ára að aldri,  með og í umræðum að sýningu lokinni svaraði hann því á ítarlegan hátt hvort sú kreppa sem menn væru að tala um núna gæti þróast upp í að verða eins og kreppan mikla kringum 1930. Jónas, sem nýlega vakti mikla athygli fyrir að koma í Silfur Egils og tala þannig um efnahagsmál að ýmsum fannst sem spámaður væri risinn upp, talaði á jafn skýran og afdráttarlausan hátt við okkur liðsmenn Deus ex cinema og fullyrti að hér væri ólíku saman að jafnan. Rökstuðningur hans verður ekki rakinn hér en svar hans var skýrt og skorinort. Hann taldi ekki hættu á að núverandi “kreppa” yrði eitthvað í líkingu við kreppuna miklu. Það væri af og frá, aðstæður allar gjörólíkar.

Sjálfur lagði ég fram minnispunkta yfir ýmsar biblíulegar skírskotanir í myndinni, en exodus-stefið (= brottförin Hebrea úr ánauðinni í Egyptalandi, 2 Mós) er þar mest áberandi svo og fyrirheitna landið. Ekki verða þær hliðstæður raktar frekar hér.

Á sýninguna mættu eftirtaldir liðsmenn Deus ex cinema auk heiðursgestins  Jónasar, sem raunar hefur mætt hjá okkur einu sinni áður: Oddný Sen kvikmyndafræðingur, Elína Hrund cand. theol., dr. Pétur Pétursson prófessor, listahjónin góðkunnu Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir og Egill B. Hreinsson verkfræðiprófessor.

Var fólk ánægt með myndina, sem ég held að allir hafi raunar séð áður, og fannst spennandi að sýna hana núna og einkum að fá hinn glögga hagfræðing Jónas Haralz til að fjalla um hana í samhengi kreppunnar og í samanburði við krepputal samtímans.

Þess má geta að skv. Bandarísku kvikmyndastofnuninni er kvikmyndin Þrúgur reiðinnar 7. áhrifamesta mynd allra tíma.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-09-23/thrugur-reidinnar-og-kreppa-nutimans/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23/9/2008 15.31

Geri þá athugasemd við eigin færslu að Gunnar J. Gunnarsson lektor var sannarlega með á sýningunni einnig.


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli