gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Þrúgur reiðinnar og kreppa nútímans · Heim · Leitin að syndaselum: Íslendingar í hlutverki Gyðinga? »

Brynhildur og Brák – frábær upplyfting í kreppunni

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.18 4/10/08

Það var sannarlega mikil upplyfting í öllu krepputalinu og fjármálakrísunni að bregða sér í Landnámssetrið í Borgarnesi í gærkvöldi. Hvílík tilþrif.  Brynhildur Guðjónsdóttir, höfundur leikritsins um írsku ambáttina Brák, fór gjörsamlega á kostum. Þessi smávaxna kona heillaði viðstadda upp úr skónum með spuna sínum, söng og sviðsframkomu. 

Sjálfur kom ég frekar þreyttur til leiks. Hafði verið að horfa á aðra kjarnorkukonu, Söru Palin, nokkuð fram á nótt og las eitthvað eftir það. Mér fannst Palin standa sig vel, fljúgandi mælsk er hún, fipaðist hvergi eins og mér finnst hún ekki njóta sannmælis.

En vissulega er Brynhildur Guðjónsdóttir mikið tilkomumeiri í Brák. Og sannarlega er engin hætta á að neinn sofni undir sýningunni á Brák. Þar er Brynhildur ein á sviðinu allan tímann en hefur lag á að draga áhorfendur nokkuð inn í sýninguna. Það er vandmeðfarið og mikill línudans, því að varla stendur til að gera lítið úr fólki sem búið er að borga sig inn á sýninguna eða fá því til að líða illa. Mér fannst Brynhildi takast sá línudans vel eins og allt annað sem hún gerði í sýningunni.

Hin stuttorða lýsing á Brák í Egilssögu, aðeins ellefu línur, virðist ekki bjóða upp á heila sýningu um þessa írsku ambátt. En Brynhildi hefur tekist það, lagst í mikla rannsóknavinnu, á fornum heimildum. Byggir í senn á Egilssögu, Laxdælu og Landnámu en ekki síður írskum heimildum. Þannig að leikkonan snjalla reynist hinn ágætasti fræðimaður einnig.

Kveðskapur er listilega fléttaður inn í textann og söngur á ýmsum tungumálum, m.a. óvæntur Luciu-söngur sænskur,  og alls staðar virðist Brynhildur á heimavelli. Hinn sænski framburður hennar t.d. mjög góður. Keltneskur söngur hennar afar fallegur og hjómar enn í eyrum morguninn eftir sýninguna.

Um Þorgerði brák segir m.a. í Egilssögu að hún hafi verið mikil fyrir sér, sterk sem karlar og fjölkunnug mjög. Sú lýsing kemur illa heim og saman við Brynhildi sem er afar smávaxin og grönn. Það virðist þó í engu há henni og tilþrif hennar hreint út sagt frábær.

Í senn alvarleg og gamansöm sýning þar sem gamansemin er í fyrirrúmi og tengingar Brynhildar við samtíðina með hárfínum spuna sínum lýsa einstakri hugmyndaauðgi, greind og næmni á samtíma sinn.

Ég fer ekki oft í leikhús, satt að segja, en þessi leiksýning kveikti sannarlega í mér. Ég var í góðum hópi Seltirninga, með Sóroptimistaklúbbi Seltjarnarness og mökum þar. Ekki heyrði ég annað en fólk væri á einu máli um að sýningin hefði verið afar vel heppnuð og fékk fólk til að gleyma, a.m.k. þessa kvöldstund, öllu krepputalinu og bölsýninni. Þökk sé Brynhildi Guðjónsdóttur og frábærri túlkun hennar á Þorgerði Brák og því snilldarverki sem hún hefur búið til úr litlum efnivið eða eins og hún segir sjálf: “Ég lagði af stað í langferð. Átti skó en lítið nesti, lúkufylli frá Snorra Sturlusyni … varð mér úti um meira á leiðinni.”

Já, sannarlega hefur Brynhildi tekist vel í þessari langferð sinni og húsfyllir var þarna og flestir höfðu áður snætt kvöldverð í Landnámssetrinu, sem er hreint frábær hugmynd í ferðamannaiðnaði og menningarlífi sem hefur gengið fullkomlega upp til þessa.

Ég óska öllum sem að sýningunni standa til hamingju en fyrst og síðast Brynhildi sjálfri sem ber jú uppi sýninguna með glæstum tilþrifum. Hvílíkt úthald og hvílíkur kraftur og útgeislun hjá þessari smávöxnu konu. Mikill leiklistarsigur. Bravó!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-10-04/brynhildur-og-brak-frabaer-upplyfting-i-kreppunni/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli