gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Brynhildur og Brák – frábær upplyfting í kreppunni · Heim · Karl biskup: “Tími umhyggju og samstöðu” »

Leitin að syndaselum: Íslendingar í hlutverki Gyðinga?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.01 10/10/08

Kreppan hér á landi er vissulega áhyggjuefni. Skrif erlendra fjölmiðla um Ísland valda mér þó enn meiri áhyggjum. Ég hef undanfarna daga og einkum í gær lesið mikið af útlendum netmiðlum og “gúgglað” heilmikið í leit að upplýsingum. Sá lestur og sú leit fyllir mann bölsýni.

Heimurinn er í leit að syndaselum. Hér heima er bent á 20 manna hóp eða svo en í útlendum fjölmiðlum er talað þannig um Ísland víða – einkum í Bretlandi en mikið í Skandinavíu einnig – að það er stundum eins og Ísland eigi sök á heimskreppunni. Ásakanir Browns forsætisráðherra Breta á hendur Íslendingum eru í öllum blöðum en nánast hvergi sé ég minnst á andsvör íslendinga um að þeir hafi verið órétti beittir í Bretlandi og hryðjuverkalög notuð gegn þeim.

Ég hef kynnt mér gyðingahatur talsvert, og oft og iðulega hefur það gerst á liðnum öldum að Gyðingar hafa verið gerðir að syndaselum og blórabögglum þegar eitthvað hefur bjátað á í ýmsum þjóðfélögum.

Ég hef stundum leikið mér að því að benda á ýmsar hliðstæður Gyðinga og Íslendinga. Nú bætist það í hliðstæðusafnið að íslendingar eru í hlutverki syndasela og sökudólga í bankakreppu heimsins. íslensk fyrirtæki í Bretlandi og Skandinavíu eru í nánast vonlausri stöðu.

(Þennan samanburð minn má auðvitað ekki skilja á þann veg að ég haldi því fram að aðstaða Íslendinga sé eitthvað í líkingu við það sem Gyðingar hafa mátt þola – það er að sjálfsögðu fráleitt í ljósi gyðingaofsókna gegnum aldirnar).

Ég þóttist vita að ekki yrði hægt að bjarga Kauþingi, hversu góð sem staða fyrirtækisins kann að hafa verið. Þetta var íslenskur banki og það gerði stöðu hans vonlausa. Brown og félagar voru heldur ekki lengi að ganga að honum dauðum. Fengu enda til þess hjálp héðan að heiman.

Og hér heima sýnir þjóðin allt annað en samstöðu, virðist mér af umræðu í fjölmiðlum.  Hinir seku skulu fundnir og raunar er búið að taka ýmsa þeirra af lífi þegar í fjölmiðlum. Ég er ekki að halda því fram að ekki eigi að láta menn sæta ábyrgð en við skyldum ekki fórna leikreglum réttarríkisins í óðagoðinu og þeirri múgsefjun sem ýmsir svokallaðir “ofurbloggarar” ala á og sýna nú bloggið í sinni neikvæðustu mynd – margir hverjir.

Viðbót 11.10. Mig langar að vekja athygli á fróðlegri umfjöllun Vilhjálms Arnar Vilhjámssonar fornleifafræðings um skylt efni frá því í dag. Sjá: http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/670187/

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-10-10/leitin-ad-syndaselum-islendingar-i-hlutverki-gydinga/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Baldur Kristjánsson @ 10/10/2008 10.43

Sammála í öllum greinum.Kv. Baldur


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli