gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Brown og Darling gegn Íslandi og Al Kaida · Heim · “Við látum ekki kúga okkur” – Afdráttarlaus yfirlýsing Geirs »

Hitlersæskan hjá DEC í gærkvöldi

Gunnlaugur A. Jónsson @ 21.19 22/10/08

Hefðbundin þriðjudagssýning Deus ex cinema var í höndum Gunnars E. Steingrímssonar æskulýðsfulltrúa í gærkvöldi. Hann sýndi myndina Führerns Elit í leikstjórn Dennis Gansel. Sýningin var í Grafarvogskirkju og voru undirtektir félagsmanna góðar. Gott var að gleyma um stund kreppunni í góðra vina hópi.

Myndin fjallar um miskunnarleysið í einum af skólum Hitlersæskunnar. Aðalpersóna myndarinnar er unglingspiltur, Friedrich að nafni, sem reynist mjög efnilegur í hnefaleikum og sér skólann sem tækifæri til að brjótast úr fátækt og undan áhrifum föður síns sem hafði mátt líða andstöðu sína gegn nasismanum.

Hann eignast vináttu Albrechts, fíngerðs drengs, sem er sonur háttsetts nasista. Drengurinn yrkir ljóð og hefur innbyggða andúð á nasismanum og er mjög fjarri staðalímyndum nasismans um hinn hrausta og sterka aría . Þar kemur að Friedrich kemst á sömu skoðun og lætur það í ljósi með afdrifaríkum hætti.

Í myndinni er teflt fram sem andstæðum hinum höðrum gildum nasismans annars vegar og mannúð og umhyggju hins vegar. Fram kemur hve gyðingahatur gegndi stóru hlutverki í uppeldi Hitlersæskunnar.

Að sýningu lokinni var bent á hliðstæðu við hina kunnu mmynd Dead Poets Society en sjálfum kom mér fyrst í hug hin margverðlaunaða mynd Hitlerjunge Salomon (Agnieszka Holland, 1991. Margir þekkja myndina betur undir hinu enska heiti hennar Europa, Europa) sem ég hef fjallað um í riti mínu Von í þjáningu. Trúarstef í nokkrum helfararmyndum (Guðfræðistofnun Háskóla Íslands, 2003). Ánægjuleg kvöldstund í fínu boði Gunnars E. Steingrímssonar.

Eftirtaldir félagar voru mættir auk sýningarstjóra og mín: Elína Hrund Kristjánsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og hjónin Leifur Breiðfjörð og Sigríður Jóhannsdóttir. Voru þau nýkomin frá Þýskalandi þar sem þau höfðu dvalið um skeið. Sögðu þau nasistana í myndinni eiga lítið sameiginlegt með því góða fólki sem þau hittu í Þýskalandi og fjarri fór því að þau hefðu sem Íslendingar orðið fyrir nokkrum óþægdinum vegna fjármálakreppunnar, eins og svo fjölmargir Íslendingar á ferðum erlendis kvarta undan.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-10-22/hitlersaeskan-hja-dec-i-gaerkvoldi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli