gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Vinveittur Gyðingur í Kraká · Heim · Einstakt vinarbragð Færeyinga »

Barnaskór í Auschwitz

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.01 27/10/08

Á laugardaginn var lá leið mín til staðar sem ber nafn sem tengt er meiri óhugnaði en flest önnur nöfn: Auschwitz. Ekki var því nein tilhlökkun tengd ferðinni sem farin var með hópi íslenskra ferðamanna sem fylltu eina rútu. Fólk er hljóðlátt á stað eins og þessum og ekki sér maður bros á andliti nokkurs þeirra fjölmörgu ferðamanna sem heimsækja staðinn.

Raunar var furðu fátt sem kom mér beinlínis á óvart þarna, jafn ótrúlegt og það kann að hljóma. Svo mikið hef ég gegnum árin lesið um þennan stað, horft á fjölmargar heimildamyndir um hann og auk þess heimsótt fjölmörg söfn um helförina víðs vegar um heiminn (s.s. í Jerúsalem, Washington, New York, Berlín, París, Búdapest, Amsterdam og Prag) og einnig aðrar þrælkunar- og dauðabúðir (Dachau, Terezín). En á hinn bóginn má vissulega segja að allt komi á óvart því að vissulega undrast maður enn hvernig slíkur atburður gat gerst.

Saga gyðingdóms eru hluti af fræðasviði mínu og það vill til að saga Gyðinga er á löngum köflum píslarsaga.  Þar eru viðburðir tengdir helförinni fyrirferðamestir. Það fer fjarri því að ég hafi einhverja ánægju af því að kynna mér slíkan óhugnað en gyðingdómur verður hvorki skilinn né rannsakaður ef óhugnaðurinn er ekki kannaður. Í því skyni hef ég líka horft á tugi leikinna kvikmynda um helförina og skrifað nokkuð um það efni.

Og hvað skyldi vera minnistæðast eftir heimsókn í nokkrar klukkustundir í þessar illræmdu útrýmingarbúðir í Póllandi? Kannski kom það mér einna mest á óvart að skynja stærð svæðisins, víðáttuna sem Auschwitz og Birkenaum ná yfir. Allt það mikla svæði færir manni heim sanninn um hið ótrúlega umfang þeirra “aðgerða” sem þarna áttu sér stað.

Ég vissi fyrirfram að ákveðnir hlutir eru þarna sem reyna meira á tilfinningar ferðamanna en aðrir þó það sé vitaskuld einstaklingsbundið. Kannski er erfiðust sú tilfinning að vera einfaldlega á staðnum þar sem fólki, ungum sem öldnum,  var slátrað í hundruð þúsunda tali (a.m.k. ein og hálf milljón manna í þessum útrýmingarbúðum) á vélrænan og skipulagðan hátt. Það var “hér” sem þetta gerðist.

Ég hef heyrt fólk tala um að hrúga af barnaskóm hafi haft mikil áhrif á það. Ég átti frekar von á því að eins yrði það með mig. Hafði því því hugsað mér að staldra þar stutt við og ganga helst hratt framhjá en þarna var margt fólk og gengið skipulega í röð og því ekkert auðvelt að hraða sér. Og óhugnaðurinn var raunar við hvert fótmál. Til dæmis hrúga af mannshárum sem skyldu nýtt í þágu þess ríkis sem fyrir helförinni stóð.

Ég komst ekki hjá því að sjá að margir skórnir í hrúgunni bak við glergluggann voru af mjög líkri stærð og skór dótturdætra minna sem oft eru hér niðri í forstofu. Sú tilfinning var sterk og óhugnanleg.  Vissulega mjög snjáðir skór og báru þess merki að hafa legið þarna í meira en sextíu ár en eru þarna enn eins og veikar raddir þeirra litlu barna sem leidd voru saklaus til grimmilegrar slátrunar í gasklefunum.

Mér fannst ég þurfa að heimsækja þennan stað en mikið var gott að komast á brott þaðan og beinlínis tilhlökkun að koma heim í kreppuna.

Um kvöldið var borðað á einföldum veitingastað í Kraká en matarlystin var með minnsta móti.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-10-27/barnaskor-i-auschwitz/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli