gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Þökkum Færeyingum · Heim · Þjóðarstoltið lifir í íþróttunum – Besti árangur íslensks fótboltaliðs »

Handboltalandsliðið stendur fyrir sínu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 00.07 30/10/08

Handboltalandsliðið okkar stóð fyrir sínu í kvöld þrátt fyrir að þrjá af bestu leikmönnunum úr silfurliðinu frá Peking vantaði. Tölurnar 40-21 tala sínu máli um yfirburði íslenska liðsins en fyrirfram var heldur ekki búist við mikilli mótspyrnu Belga sem teljast ekki til stórliða í þessari íþróttagrein.

Á laugardaginn kemur reynir fyrir alvöru á íslenska liðið er það mætir sterku liði Norðmanna á útivelli (í Drammen) í undankeppninni um sæti á EM. Erfitt að dæma um styrkleika íslenska liðsins eftir leik kvöldsins en gaman var að horfa á leikinn og góð stemmning í Höllinni. Nánast hvert sæti skipað enda frítt inn. Það mun hafa verið í þakklætisskyni fyrir móttökurnar sem liðið fékk eftir silfurverðlaunin á Ól í Peking.

Guðjón Valur í hörkuformi og markhæstur með tólf mörk og liðið virtist ekki sakna Óla Stefáns, Snorra Steins og Alexanders.  Tveir þeir síðastnefndu meiddir en Óli virðist hafa meiri áhuga á heimspekipælingum en handbolta nú um stundir, sbr. viðtal Evu Maríu við hann í sjónvarpinu s.l. sunnudagskvöld.

Nýir menn sem komu inn í liðið stóðu fyrir sínu, ekki síst Þórir Ólafsson í hægra horninu með fimm mörk. Einn nýliði Aron Pálmason, mikið efni þar á ferð og skoraði með sínu fyrsta skoti.

Framtíð handboltans á Íslandi björt, ekkert volæði þar! Tvö lið fara áfram úr riðlinum og mun baráttan um þau sæti standa á milli Noregs, Makedóníu og okkar manna (”strákanna okkar”).

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-10-30/handboltalandslidid-stendur-fyrir-sinu/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli