gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Fyrirsagnir blaðanna: “Fjárkúgun” – “Reynt að kúga Ísland…” · Heim · Hvernig hið illa sigrar – 70 ár frá Kristalnóttunni »

Friðarsúla og upplýst Nesstofa – falleg ljós á kvöldgöngu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.06 9/11/08

Það vakti athygli mína er ég fór í kvöldgöngu seint í gærkvöldi hér á Seltjarnarnesi að býsna margir voru úti að ganga, hlýtt í veðri og rigningarúði. Fólk sem ég mætti bauð undantekningalaust “gott kvöld”, ýmist að fyrra bragði eða tók undir kveðju mína þar um. Kannski ekkert fréttnæmt við það en þessar hlýlegu kveðjur fannst mér lýsa samhug sem mér finnst maður finna fyrir víða núna, þó að reiði og uppreisnarhugur sé líka áberandi.

Og vafalaust hefur allt þetta fólk, sem var úti að ganga í gærkvöldi, verið með hugann við kreppuna, atvinnuleysið sem farið er að gera vart við sig svo um munar, gjaldþrot fyrirtækja og heimila og reiði fólks sem upplifir að það hafi orðið fórnarlömb aðstæðna sem það átti ekki sök á eða fékk engu um ráðið.

Út þá sálma ætla ég nú ekki frekar. En ég vildi halda því til haga hér hve friðarsúla Yoko Ono (Imagine Peace Tower) úti í Viðey – vígð 9. okt. í fyrra – var falleg að sjá af Nesinu, ljós sem vísar til himins en tengir jafnframt himin og jörð, og lyfti a.m.k. huga mínum í hæðir.

Annað ljós talaði ekki síður til mín á kvöldgöngunni hressandi, það var upplýst Nesstofa vestast á Seltjarnarnesinu, sem nú hefur verið vandlega gerð upp, alveg í upprunalegri mynd eftir ítarlegar rannsóknir. Þetta fallega steinhús var reist á árunum 1761-1763 og var aðsetur Bjarna Pálssonar, fyrsta landlæknisins á Íslandi.

Mér finnst það gefandi á erfiðleikatímum, eins og þeim er nú ganga yfir íslenska þjóð,  að hugsa til liðinnar sögu þjóðarinnar. Bjarni Pálsson var merkur og mikilhæfur maður sem vann mikið brautryðjendastarf. Móðuharðindin höfðu þá ekki enn gengið yfir íslenska þjóð, einhver harðasta raun sem hún hefur upplifað. Þau voru nefnd á dögunum til samanburðar við þá kreppu sem nú gengur yfir íslenska þjóð og lýsti sá samanburður miklum bölmóði og e.t.v. lítillli söguþekkingu, enda hafa margir réttilega mótmælt honum.

Nóg um það. En þessi tvö ljós, frá friðarsúlunni í Viðey og frá upplýstri Nesstofu, léttu mér lund á kvöldgöngunni í gærkvöldi og svo var Gróttuvitinn á sínum stað, og hann hefur jú einnig gegnt mikilvægu hlutverki í sögunni, leiðbeint sæfarendum. Heimir Þorleifsson, sagnfræðingur, fyrrum kennari minn úr MR og nú Rótarýfélagi á Seltjarnarnesi, komst vel að orði er hann sagði að á Nesinu fyndi maður vel til fortíðar. Á erfiðleikatímum er gott að hugsa til fortíðar ekki síður en til framtíðar, af fortíðinni má jafnan sitthvað læra.

Og svo eru ætíð ljós sem lýsa í myrkrinu, og ekki síst það sem kristnin boðar, og núna á eftir ætla ég í Seltjarnarneskirkju þar sem gamallnemandi minn Ragnar Gunnarsson, fyrrverandi kristniboði, mun prédika á kristboðsdeginum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-11-09/fridarsula-og-upplyst-nesstofa-falleg-ljos-a-kvoldgongu/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli