gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Þau eru að eyðileggja vinnuna hans pabba!” · Heim · “Tveir heimar” hjá Deus ex cinema í gærkvöldi »

Atgeirinn, afsögn Guðna og sköpun heimsins

Gunnlaugur A. Jónsson @ 11.54 18/11/08

Guðni Ágústsson þykir ekki hafa nægilega skýrt hvers vegna hann sagði óvænt af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum í gær. Í tilfelli flokksbróður hans og samherja Bjarna Harðarsonar á dögunum var það öllum ljóst og uppskar Bjarni yfirleitt hrós fyrir afsögnina þó aðgerð sú er afsögninni olli gæfi ekki tilefni til hróss. Í tilfelli Guðna fer minna fyrir hrósinu og skýringin þykir ekki fullnægjandi. Guðni er sagður farinn til Kanarí og mun ekki tala við fjölmiðla í bráð þó að mjög hafi verið eftir því leitað.

Ég gluggaði í morgun sem snöggvast í ræðu þá sem Guðni flutti í upphafi miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins s.l. laugardag (15. nóv.)  Mér finnst sú ræða góð um margt og lýsa vel hinum þjóðlegu áherslum Guðna og félagshyggju í stíl klassískrar framsóknarmennsku.  Guðni kallaði eftir bræðralagi og vináttu en uppskar mjög  harða gagnrýni ungliða flokksins og mun hafa reiðst þeirri gagnrýni svo illa að flestir viðstaddra voru alveg gáttaðir. (Sú ræða er mér vitanlega hvergi til á prenti). Enginn mun hafa orðið til að taka upp hanskann fyrir Guðna, svo heitið gæti.

Um þetta ætla ég ekki að fjölyrða en langaði hins vegar  -venju minni og vana trúr – að halda til haga að á einum stað í ræðu sinni vitnar Guðni í Gamla testamentið, nánar tiltekið í sköpunarsöguna í 1. Mósebók. Þar gerði hann er hann sagði ýmsir hefðu  haldið því fram að unnt væri að taka upp evru einhliða og þyrfti ekki að taka nema viku “eins og þegar Guð almáttugur skapaði heiminn.”

Annars gerir Guðni meira af því að vitna í fornsögurnar og einkum Njálu heldur en í Biblíuna. í síðustu ræðu sinni á þingi gagnrýndi Guðni mjög linkind ríkisstjórnarinnar í deilunni við Breta og Hollendinga og sagði framgöngu stjórnarinnar ólíka þeirri hörku sem Íslendingar sýndu í þorskastríðunum. Þessa þingræðu sína endaði Guðni á orðunum: “Hvar er nú atgeirinn, Geir?”

Það er sannarlega eftirsjá að Guðna þegar hann lætur svo óvænt af þingstörfum. En líklega var fullreynt og endanlega ljóst að Framsóknarflokkurinn næði ekki vopnum sínum undir hans stjórn. Líklega hafði Guðni ekki fundið atgeir sinn frekar en Geir forsætisráðherra.

Guðni er á góðum degi einhver skemmtilegasti tækifærisræðumaður okkar Íslendinga. Vafalaust og vonandi á fólk oft eftir að fá að heyra í honum á þeim vettvangi þó svo að hann segi nú skilið við stjórnmálin, skyndilega og óvænt. Kannski er sú afsögn til marks um að stjórnmálamenn þjóðarinnar upplifa nú mikið álag og taki til sín reiðina í þjóðfélaginu.

Kallað hefur verið eftir afsögn ýmissa ráðamanna vegna hruns bankakerfisins en til þessa hafa afsagnirnar komið úr heldur óvæntri átt. Báðir eru þeir Guðni og Bjarni búsettir á Selfossi.

Á Selfossi  liggja líka rætur Seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, sem tjáði sig í morgun og krafðist þess að rannsókn erlendra sérfræðinga færi fram á Seðlabankanum í tengslum við bankahrunið. Sagðist Davíð ekki kvíða þeirri rannsókn en kæmi í ljós að stjórn Seðlabankans hefðu orðið á mistök þá þyrfti ekki að reka hann heldur myndi hann víkja sjálfur og án nokkurra eftirmála.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-11-18/atgeirinn-afsogn-gudna-og-skopun-heimsins/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Glúmur Gylfason @ 21/11/2008 00.03

…og bloggarinn “gleymir” a.m.k. einum góðum í viðbót sem á rætur á Selfossi!
Í athugasemdum á bloggi Bjarna heimtaði allur lýðurinn hann krossfestan kvöldið sem fréttin barst. Um leið og afsögnin fréttist morguninn eftir sneru menn alveg við blaðinu og vildu fá hann aftur upprisinn. Ætli sálarfræðin eigi til skilgreiningu eða heiti á svona fyrirbæri – og ætli það sé sér íslenskt?


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli