gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Tveir heimar” hjá Deus ex cinema í gærkvöldi · Heim · Heilaþvottarþema á sýningu Deus ex cinema »

Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós …

Gunnlaugur A. Jónsson @ 11.10 21/11/08

Jesajaritið, sem er stærst spámannarita Gamla testamentisins, hefur stundum verið kallað 5. guðspjallið. Áhrif þess eru enda mjög mikil í kristninni og þar er m.a. að finna nokkra af fallegustu jólatextum okkar. Á kvöldgöngu minni um Seltjarnarnesið seint í gærkvöldi kom í mér í hug hinn fallegi texti í upphafi 9. kafla Jesaja: “Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.”

Umræddur texti er einn af þekktustu textum Gamla testamentisins sem í gamalgróinni kristinni boðun hafa verið túlkaðir sem Messíasarspádómar. Textinn stendur í niðurlagi þess hluta ritsins (Jes 6:1-9:7) sem gjarnan er talað um sem minningar Jesaja. Þar er að finna annan ekki síður kunnan texta sem tengdur er jólum: “Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel” (Jes 7:14).

Jólahátíðin kemur jafnan til okkar eins og kærkomið ljós á myrkasta tíma ársins. Nú bætist við að óvenjulega dimmt er yfir íslensku þjóðfélagi vegna kreppunnar sem herjað hefur á landið að undanförnu. Fólk hefur verið að missa atvinnu sína í stórum stíl og fyrirtæki orðið gjaldþrota.

Það vakti athygli mína að jóla- eða aðventuljós voru komin út í óvenjulega marga glugga á Seltjarnarnesi í gærkvöldi því enn er aðventan ekki gengin í garð. Það er eins og fólk geti ekki beðið með að sækja jólaljósin til að lífga upp á tilveruna þar sem flestar fréttir hafa verið ósköp neikvæðar upp á síðkastið.

Ég er að vinna að dálítilli grein fyrir Bjarma um myndmál úr Gamla testamentinu sem tengist jólahaldi kristninnar og þar gegnir Jesajaritið stærstu hlutverki.

Faðir minn var ætíð áskrifandi á tímaritinu Bjarma og hef ég því þekkt það frá æskuárum. Það lifir enn góðu lífi undir traustri ritstjórn sr. Ragnars Gunnarssonar fyrrverandi kristniboða.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-11-21/su-thjod-sem-i-myrkri-gengur-ser-mikid-ljos/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Sigrún @ 26/11/2008 16.20

Sæll, mér finnst skemmtilegt að ég notaði einmitt þessi tvö vers í erindi sem ég flutti á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í dag. Þegar ég var að semja erindi um spennu og eftirvæntingu jólanna sönglaði ég með hátíðartóni sr. Bjarna: ,,Súú þjóð sem í myyrkrii genguur séér miikiið ljós”! Þessi orð eru sígild en tala með nýjum hætti til okkar þetta árið. k.kv. Sigrún


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli