gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós … · Heim · Dagskrá í minningu Haralds Níelssonar á morgun »

Heilaþvottarþema á sýningu Deus ex cinema

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.02 27/11/08

Hefðbundin þriðjudagssýning Deus ex cinema í fyrrakvöld var í höndum Oddnýjar Sen kvikmyndafræðings og var val hennar að hafa sýninguna á léttum nótum enda nóg af neikvæðum kreppufréttum nú um stundir. Valdi Oddný að sýna kvikmyndina “Holy Smoke” frá árinu 1999. Gott val og var mikið hlegið undir sýningunni.

Hér er um trúarlega kvikmynd að ræða þar sem heilaþvottarþemað kemur mjög við sögu. Aðalpersóna myndarinnar, áströlsk stúlka að nafni Rut, verður fyrir trúarlegri uppljómun þegar mætir vinsælskum indverskum gúru augliti til auglitis í Indlandi.  Ákveður hún að verða eftir í landinu og ganga í söfnuð hans.

Fjölskyldu Rutar bregður illa við tíðindin og ræður þekktan bandarískan afforitara til að koma vitinu fyrir stúlkuna eftir að hún hefur með blekkingum verið talin á að snúa heim um hríð þar sem faðir hennar liggi fyrir dauðanum. Hann reynist hins vegar við ágæta heilsu en í staðinn er það afforritarinn bandaríski sem bíður hennar. Gengur myndin síðan að verulegu leyti út á samskipti þeirra og getur ekki beinlínis talist trúverðug en bráðskemmtileg er hún.

Ekki spillir fyrir að leikkonan góðkunna Kate Winslet er í hlutverki Rutar. Einna áhugaverðast fannst mér þegar Sálmi 23 er ruglað saman við faðir-vorið af móður Rutar undir lok myndarinnar. Er það dæmi um hinar miklu vinsældir sálms 23 og áhrifamátt, en um fjölbreytilega notkun sálmsins í kvikmyndum hef ég fjallað bæði í ræðu og riti (m.a. í fyrirlestri í Ísrael í upphafi þessa árs).

Ekki ætla ég að rekja efni myndarinnar frekar en vek í staðinn athygli á því að Bjarni Randver Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði, hefur fjallað um myndina í grein er hann nefndi “Heilaþvottur, hugstjórnun eða sjálfstæð ákvörðun: Umdeildar stjórnmálahreyfingar og trúarhreyfingar í kvikmyndum”. Birtist greinin sem kafli í bókinni Guð á hvíta tjaldinu (2001, ritstj. Bjarni Randver Sigurvinsson, Gunnlaugur A. Jónsson og Þorkell Ágúst Óttarsson, s. 165-216. Sjá einkum s. 207 o. áfr.)

Bjarni var illa fjarri góðu gamni er myndin var sýnd á heimili Oddnýjar. Fámennt var  en góðmennt. Mættir Dec-félagar voru auk Oddnýjar, Egill B. Hreinsson prófessor, Gunnar J. Gunnarsson lektor og undirritaður.

Vel heppnuð sýning, ágætar umræður og létt yfir fólki í vistlegu boði Oddnýjar á heimili hennar í Hafnarfirði.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-11-27/heilathvottarthema-a-syningu-deus-ex-cinema/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli