gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Heilaþvottarþema á sýningu Deus ex cinema · Heim · Munich á fyrstu Dec-sýningu ársins »

Dagskrá í minningu Haralds Níelssonar á morgun

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15.12 29/11/08

Sit við skriftir, er að undirbúa erindi sem ég hef tekið að mér að flytja á morgun á málþingi sem helgað er minningu Haralds Níelssonar prófessors (1868-1928) í tilefni af því að 140 ár eru liðin frá fæðingu hans og 100 frá því að út kom ný þýðing Biblíunnar sem hann átti stærri hlut í en nokkur annar. Ég mun í erindi mínu fjalla nokkuð um þýðingarstarf hans.

Ég skrifaði ítarlega grein um þýðingu Haralds í Ritröð Guðfræðistofnunar 4, 1990 og hef skrifað eitthvað í öðru samhengi um sama efni og flutt erindi um einstaka þætti í þýðingu hans áður. Hef ég þá oftast rætt um hið guðfræðilega baksvið hinna harðvítugu deilna og kærumála sem urðu vegna þýðingarinnar.

Að þessu sinni munu ég meira beina sjónum að eldri deilum sem Haraldur átti í við Halldór Kr. Friðriksson íslenskukennara og snertu ýmis einkenni þýðingarinnar, á grundvelli kynningarheftis sem gefið var út árið 1899. Í þeirri deilu komu ýmis áhersluatriði Haralds vel fram.

Á málþinginu tala eftirtaldir auk mín: Jónas Haralz fyrrv bankastjóri (sonur Haralds), Pétur Pétursson prófessor, Helga Kress prófessor, Kristín Ingólfsdóttir rektor, Erlendur Haraldsson prófessor og Gunnar Kristjánsson prófessor. Dr. Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur stjórnar pallborðsumræðum að loknum erindum og fundarstjóri er Maria Ellingsen leikkona.

Málþingið hefst kl. 13:15 í Þjóðarbókhlöðunni og kl. 15:30 verður opnuð sýning í minningu Haralds.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2008-11-29/dagskra-i-minningu-haralds-nielssonar-a-morgun/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli