gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Dagskrá í minningu Haralds Níelssonar á morgun · Heim · Bölmóður fjölmiðlanna »

Munich á fyrstu Dec-sýningu ársins

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.28 9/1/09

Fyrsta sýning Deus ex cinema var í mínum höndum s.l. þriðjudagskvöld, þe. að kvöldi þrettándans. Ég hafði fyrir allnokkru ákveðið að sýna Munich, mynd Steven Spielbergs frá árinu 2005, enda vantar enn nokkuð á að allar myndir þessa frábæra leikstjóra hafi verið sýndar innan klúbbsins. Fékk myndin almennt góðar viðtökur viðstaddra þó vissulega væri haft á orði að hún væri á köflum nokkuð langdregin og fækka hefði mátt morðunum eitthvað.

Eins og kunnugt er fjallar myndin um eftirmála morða palestínskra hryðjuverkamanna á ísraelskum íþróttamönnum á Olympíuleikunum í Munchen 1972.  Golda Meir forsætisráðherra Ísraels ákveður að sett verði saman sérsveit til að elta uppi þá sem ábyrgð bera á morðunum og þeir skuli teknir af lífi einn af öðrum. Aðalpersóna myndarinnar er Avner sem fær það verk að leiða sérsveitina og er myndin að verulegu leyti af sjónarhóli hans og fær áhorfandinn ágæta innsýn í hugarheim hans.

Myndin er vel gerð og lýsir vel vandamáli hryðjuverka, haturs og hefnda. Þó að Spielberg sé gyðingur þá fer því fjarri að myndin sé einhliða framsetning á afstöðu Ísraelsmanna. Þvert á móti hafa ýmsir hópar gyðinga gagnrýnt myndina fyrir að afstaða Palestínumanna komi mun betur fram í myndinni en afstaða Ísraelsmanna. Sjálfur hefur Spielberg sagt að hann sé ekki með myndinni að svara spurningum heldur fyrst og fremst að lýsa vandamáli.

Margir hafa lesið þann boðskap út úr myndinni að hefndin skili engum árangri enda sýnir það sig í myndinni að þegar fram í sækir hafa sérsveitamennirnir tekið að efast um að hefndarmorðin sem þeir fremja skili árangri. Í stað eins hryðjuverkamanns sem drepinn sé rísi upp sex nýir og trúlega hálfu öfgafyllri. Sjálfum finnst mér augljóst að þetta sé boðskapur myndarinnar, a.m.k. eru það áhrifin sem sitja eftir hjá áhorfendum: Hatur og hefndir fæðir aðeins af sér meira hatur og enn meiri hefndir.

Ekkert er jólalegt við þessa mynd en hins vegar má segja að hún hafi talað ágætlega inn í aðstæður í samtímanum nú þegar augu umheimsins beinast að Gasa vegna innrásar Ísraelshers inn á þetta mjög svo þéttbýla og einangraða svæði þar sem Hamas-liðar fara með völdin sem kunnir eru af margvíslegum hryðjuverkum og hreyfingin almennt með þann stimpil á vesturlöndum.

Hið skelfilega ástand á Gasa nú um stundir minnir rækilega á það sem myndin boðar að víxverkun hryðjuverka og hefnda hefur engu skilað og engin lausn virðist í sjónmáli á deilum Ísraels og Palestínu. Þess má og geta að Ehud Barkak, núverandi varnarmálaráðherra Ísraels, kemur við sögu í myndinni, hann er í hópi sérsveitarmanna úr Ísraelsher sem taka þátt í morðum í Beirút, í röð þeirra morða sem eru verkefni sérsveitarmannanna í “Munich”.

Biblíulegt efni er ekki mikið í myndinni en segja má að öll sé hún undir formerkjum boðsins “auga fyrir auga og tönn fyrir tönn…” Nokkrar umræður verða meðal sérsveitarmanna um 2. Mósebók 15 (undrið við hafið, þegar stríðsmönnum faraós var drekkt í Rauða hafinu) eftir að þeir hafa framið fyrsta morðið, tekið af lífi palestínskan mann sem starfaði sem kennari á Ítalíu og var meðal nafnanna ellefu á listanum sem þeir áttu að leita uppi og ráða af dögum. Sé biblíulegt efni ekki mjög fyrirferðarmikið í myndinni þá eru hinar siðfræðilegu myndir þeim mun meira áberandi.

Í lok myndarinnar sjást tvíburarturnarir í New York í baksýn og er ljóst að það er ekki tilviljun heldur áminning um að víxlverkun haturs og hefnda heldur bara áfram með þeim afleiðingum að saklaust fólk lætur stöðugt lífið. Áhorfandinn veit að turnarnir eru ekki lengur til þegar myndin er gerð.

Myndin Munich er sannarlega ekki upplífgandi en boðskapur hennar mikilvægur: Hefndin skilar engu nema meira hatri og fleiri morðum. Atburðirnir í Gasa minna okkur svo enn og aftur á það, jafn skelfilegir og þeir eru. Og nú er munurinn sá að árið 1972 var samúð umheimsins að verulegu leyti með Ísrael, nú eru Ísraelsmenn fordæmdir um allan heim fyrir hernaðaraðgerðir sínar á Gasa. Þar skiptir engu þó upptökin hafi verið hjá Hamas.

Eftirtaldir Dec-félagar voru á sýningunni á þriðjudagskvöld: sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Dr. Gunnar J. Gunnarsson lektor, Jóhanna Magnúsdóttir aðstoðarskólastjóri Menntaskólans Hraðbraut,  listahjónin Leifur Breiðfjörðin og Sigríður Jóhannsdóttir, dr. Pétur Pétursson prófessors auk þess sem þetta ritar sem var sýningarstjóri kvöldsins.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-01-09/munich-a-fyrstu-dec-syningu-arsins/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli