gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Ofbeldið gegn lögreglunni · Heim · Snjall ræðumaður í Albertsbúð »

Ný ríkisstjórn og biblíulegar vísanir

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.07 3/2/09

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrst kvenna til að gegna forsætisráðherraembætti á Íslandi, talar um að Ísland eigi nú í tímabundnum erfiðleikum og sé í “dimmum dal”. Þar vísar hún í 23. Davíðssálm, hvort sem hún hefur gert sér grein fyrir því eða ekki, svo samgróinn er sálmurinn orðinn íslenskri menningu og tungutaki.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, uppalin í kaþólskri trú, þekkir örugglega sína Biblíu býsna vel. Hún gaf nýja stjórnarsáttmálanum þá einkunn að vera gamalt vín á nýjum belgjum. Það orðalag er sömuleiðis sótt í Biblíuna. Og ekki kom á óvart að iðnarráðherrann vörpulegi og þaulsetni, Össur Skarphéðinsson, skyldi rétt fyrir stjórnarmyndun vera með vísun í Biblíuna, enda afar vel lesinn í henni eftir dvöl í skóla aðventista á unglingsárum. Hef ég oft vitnað til ýmissa biblíulegra vísana Össurar hér á síðunni.

Að þessu sinni líkti Össur Steingrími J., formanni Vinstri grænna,  við freistarann á fjallinu, þar sem Steingrímur  beið þess að upp úr stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði. Svo fór, eins og allir vita, og Össur féll fyrir freistingum Steingríms J. sem nú sér um fjárhirslur ríkisins.

Ekkert sagði Steingrímur þó um að nú væri það hagfræði Gamla testamentisins sem gilti, eins og Geir Haarde sagði forðum daga er hann settist í stól fjármálaráðherra. En með “hagfræði Gamla testamentisins” var Geir að vísa til Jósefssögunnar í 1. Mósebók og draumaráðningunum þar um að í góðæri beri að leggja fyrir til mögru áranna. Og nú blasir sú dapurlega staða við í lok “góðærisins” að íslensk þjóð hefur aldrei verið jafn skuldug, svo mjög að nafn Íslands er á alþjóðvettvangi orðið samheiti við efnahagshrun.

Þetta átti nú ekki að verða pólitískur pistill. Ég er bara þeirri venju minni trúr að halda til haga forvitnilegum tilvísunum í Biblíuna, ekki síst frá stjórnmálamönnum.

Nýrri stjórn óska ég alls hins besta, ekki mun af veita.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-03/ny-rikisstjorn-og-bibliulegar-visanir/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli