gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Ný ríkisstjórn og biblíulegar vísanir · Heim · Kreppuklám v biblíulegt orðfæri »

Snjall ræðumaður í Albertsbúð

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.06 7/2/09

Ég tók lítið eftir Guðmundi G. Þórarinssyni sem pólitíkus. En ég hef í tvígang heyrt hann flytja erindi í Rótarý og í bæði skiptin hefur hann gert það frábærlega vel. Í gær talaði hann um “Dettifoss í íslenskum ljóðum” á þorrablóti Rótarýklúbbs Seltjarnarness í Albertsbúð í Gróttu.

Guðmundi mæltist afar vel, talaði blaðalaust eins og áður og fipaðist hvergi. Gerður var góður rómur að máli hans en ekki var hægt að spyrja spurninga þar sem farið var að flæða að og fólk varð að drífa sig. Það var heldur kalt úti og dálítið hvasst en jeppaeigendur í klúbbnum fluttu fólk í land.

Við í Rótarýklúbbi Seltjarnarness erum vön að hafa þorrablót okkar í Albertsbúð, gömlu sjóbúð Alberts vitavarðar. Sjóbúðina hafa Rótarýfélagar gert upp og stækkað talsvert og er hún nú orðin hinn vistlegasti samkomustaður með eldhúsaðstöðu og sætum fyrir um 50 manns. Ég bauð tveimur samkennurum mínum úr guðfræðideildinni með mér á blótið í hádeginu í gær, þeim dr. Sólveigu Önnu Bóasdóttur dósent og dr. Pétri Péturssyni prófessor. Þau voru ánægð með blótið eins og ég og ekki síst ræðumanninn sem lyfti þessari hádegisstund í hæðir.

Áður hef ég heyrt verkfræðinginn Guðmund G. Þórarinsson tala í Rótary um krossfestingu Jesú Krists. Það gerði hann einnig með miklum glæsibrag. Við færðum það í tal við hann í gær að koma til okkar á málstofu uppi í guðfræðideild á næstunni og ræða þar um krossfestinguna. Guðmundur tók því  vel.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-07/snjall-raedumadur-i-albertsbud/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli