gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Snjall ræðumaður í Albertsbúð · Heim · Seltjarnarneskirkja 20 ára í dag »

Kreppuklám v biblíulegt orðfæri

Gunnlaugur A. Jónsson @ 00.50 17/2/09

Þvílík sem umskiptin hafa verið í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnum mánuðum er ekki að undra að ýmis nýyrði verði til. En Biblían hefur þó reynst notadrjúg einnig. Þannig hefur verið um fátt meira talað en dansinn í kringum gullkálfinn (2Mós 32) þegar lýst hefur verið því sem áður var af mörgum einfaldlega kallað “góðæri” en reyndist tálsýn og leiddi til hruns íslenska bankakerfisins.

Margt hefur verið tjáð með nýju orðfæri, svo sem “landráð af gáleysi”, siðrof hjá fyrirtækjum o.s.frv. yfir það sem gerðist.

Í kvöld notaði hagfræðingurinn  Tryggvi Þór Herbertsson fyrrv. efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar hugtakið “kreppuklám” í sjónvarpinu yfir þær himinháu tölur sem menn hafa nefnt yfir skuldir þjóðarbúsins, þar sem hver virðist yfirbjóða annan. Talan 2000 milljarðar hefur verið að festa sig í sess hjá örvæntingarfullum almenningi sem er óðum að lesa sér til í hagfræði í leit að sannleika í allri ringulreiðinni. Á mótmælafundi á Austurvelli hefur einn af kunnustu rithöfundum þjóðarinnar víst talað um 6000 milljarða.

Nú er það beinlínis léttir að heyra Tryggva Þór nefna töluna 465 milljarða sem einhvern tíma hefði nú þótt býsna óhugnanleg tala yfir skuldir þjóðarbúsins.  Einhver skynsamur maður sagði líka ekki alls fyrir löngu í tengslum við umræðuna um skuldir þjóðarbúsins að svo virtist sem margir virtust beinlínis vilja vera  ”rændari en þeir væru” ef ég tók rétt eftir. Úr fjármálaráðuneytinu komu raunar á dögunum mjög svipaðar tölur og þær sem Tryggvi Þór er nú að kynna til leiks. Fjarri sé mér að telja mig þess umkominn að meta þessar tölur, en Tryggvi Þór talaði “mannamál” og virkaði trúverðugur. (Nefndi að fyrra bragði að hann hefði raunar ekki séð bankakreppuna fyrir! Margir þeirra sem nú segjast hafa séð þetta allt fyrir höfðu grunsamlega hljótt um þær vitranir sínar og eru ekki allir trúverðugir í þeim yfirlýsingum sínum.)

Svo ósammála sem hagfræðingar eru um þessar tölur þá sýnist mér þeir þó sammála um að tala Tryggva þýði að Ísland eigi möguleika á að greiða skuldirnar en fjórföld sú upphæð muni reynast þjóðinni gjörsamlega ofviða.

En almenningur hefur orðið tilhneigingu til að trúa því að verri fréttirnar séu sannari – reynsla udangenginna mánaða hefur kennt það – og fjölmiðlar hafa sömuleiðis tilhneigingu til að vera með yfirboð í vondu fréttunum. Og ekkert vantar á að Tryggvi Þór, vel menntaður og mætur maður,  hafi uppskorið ónot í bloggheimum í kvöld fyrir mat sitt á stöðunni.

Hvað um það þá hefur Biblían sem endranær sitthvað skynsamlegt að segja sem stenst tímans tönn, eins og: “Eignir, sem í upphafi voru skjótfengnar blessast ekki að lokum” (Orðskv 20:21). Virðist góð lýsing á gróða íslensku bankanna undanfarin ár og afdrifum hans, án þess að flokkast undir “kreppuklám.”

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-17/kreppuklam-v-bibliulegt-ordfaeri/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli