gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Dætur vonarinnar · Heim · Háskólanemar illa að sér í Biblíunni »

Mikilvægasta biblíuþýðingin

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.09 21/2/09

“Mikilvægasta biblíuþýðingin er jafnan sú hvernig við tileinkum okkar boðskap hinnar helgu bókar, raungerum hann í daglegu lífi okkar og aðstæðum.” Þannig komst ég m.a. að orði í prédikun sem ég flutti í Guðríðarkirkju í Grafarholti, s.l. sunnudag sem var biblíudagurinn.

Það var ánægjulegt að fá þetta tækifæri og gaman að koma í þessa fallegu kirkju, þá nýjustu í Reykjavík, sem ég hef raunar ekki komið í áður. Það skyggði að vísu nokkuð á gleði mína að flensa hafði verið að gera vart við sig í lok vikunnar hjá mér og var ég orðinn sárlasinn nóttina fyrir prédikun með magakveisu og hálsbólga. Ágerðist þessi ófögnuður hratt þannig að síðari hluta nætur – sem var að mestu andvökunótt – var ég nánast raddlaus orðinn.

En eins og ég segi oft með vísun í Gamla testamentið, þá kemur Guðs hjálp þegar birtir af degi (sbr. t.d. Sálmur 46) og eiginkonan lagði sitt af mörkum til að ég endurheimti röddina nokkurn veginn. Komst ég klakklaust í gegnum prédikuna sem skipti ekki minna máli fyrir þá sök að messunni var útvarpað. Meðhjálpari kirkjunnar var mér hjálplegur, sagði mikrófóninn það góðan að ég þyrfti ekki að tala hátt og hafði vatn fyrir mig í karöflu til að dreipa á.

Þannig að allt hafðist þetta með hjálp Guðs og góðra manna. Flensan hrjáði mig raunar áfram langt fram eftir þeirri viku sem nú er að líða en það er varla í frásögur færandi enda margir með flensu þessa dagana og vikurnar. Greinilegt að fólk þarf að passa sig á þessari lúmsku flensu.

Athöfnin í Grafravogskirkju var látlaus en smekkleg, sálmarnir vel valdir og ágætlega leiddir af kirkjukórnum. Sr. Sigríður Guðmarsdóttir var örugg í sinni framgöngu og skírnin sem fór fram í messunni var einkar falleg athöfn. Sjö eða átta ára systir skírnarbarnsins las fallega upp lítið ljóð og stóð upp á skammeli við altarið við þann lestur. Mátti sjá tár á hvarmi einhverra viðstaddra undir þeim lestri, svo vitnað sé í orðalag sjónvarpsmannsins góðkunna, Jóns Ársæls.

Ég hitti þarna fyrir nokkra einstaklinga sem ég hef jafnvel ekki hitt í nokkra áratugi og hugsaði með mér að maður ætti að gera meira af því að sækja messur í öðrum sóknum. En víst er gefandi að mæta reglulega í sína eigin sóknarkirkju, þar er alltaf ákveðinn kjarni sem mætir og hefur myndað gott og náið samfélag. Það hefur líka verið venja mín, þegar ég fer til messu, sem ég geri flesta sunnudaga, að fara helst í sóknarkirkju mína, á Seltjarnarnesi. Prédikun mín hefur birst í svokallaðri postillu á kirkjuvefnum. Sjá:http://www.tru.is/postilla/2009/2/ord-guds-varir-ad-eilifu

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-21/mikilvaegasta-bibliuthydingin/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli