gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Mikilvægasta biblíuþýðingin · Heim · Nótt Elie Wiesels væntanleg á íslensku »

Háskólanemar illa að sér í Biblíunni

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.15 22/2/09

Það var forvitnilegt að lesa í Mogganum í dag (s. 12-13) frétt um að háskólanemar í Englandi væru illa að sér í Biblíunni, svo illa að þeir skilji ekki býsna augljósar tilvísanir í Biblíuna í ýmsum heimsþekktum bókmenntaverkum, svo sem Paradísarmissi.

Þetta er haft eftir Andre Motion sem titlaður er “lárviðarskáld Breta.” Gottskálk Þór Jensson, dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands segir að orð Motions eigi um margt við hér á landi einnig. Skýringar Gottskálks á þessu eru athyglisverðar. Hann telur að ákveðin hugmyndafræði valdi því að Biblíunni hafi verið ýtt til hliðar.  Mbl hefur eftir honum: “Henni hefur verið ýtt út úr bókmenntafræði af flóknum hugmyndafræðilegum ástæðum. Þessa þróun má rekja aftur til fyrri hluta tuttugustu aldar. Ástæðan er sú að mönnum þótti hin kristna hugmyndafræði of ráðandi og vildu losa sig undan þessu viðmiði sem ríkt hafði í mörg hundruð ár.”

Og nú blasa afleiðingarnar við. Vel gefnir, ungir háskólanemar eru nánast ólæsir á ýmsar klassískar heimsbókmenntir vegna þess að þeir eru svo illa að sér í Biblíunni og þeim sjást oft og iðulega yfir óendanlegar biblíulegar vísanir, beinar og óbeinar, í bókmenntum og raunar í fjölmörgum öðrum listgreinum, svo sem myndlist og kvikmyndum.

Um þetta efni hef ég raunar fjallað um langt árabil í kennslu minni í guðfræðideild og lagt ríka áherslu á það sem ég kalla áhrifasögu Gamla testamentisins í menningunni. Ég veit að bókmenntafræðingarnir tala fremur um viðtökurannsóknir og sjálfur nota ég það hugtak stundum, einnig tala ég og ýmsir aðrir um framhaldslíf textanna og enn aðrir um endurritaða Biblíu (”rewritten Bible”). Einnig má minna á hið gyðinglega hugtak “midrash” sem ég hef skrifað sitthvað um.

Hvað um það hér er um mjög áhugavert fræðasvið að ræða og fjölmargir nemendur mínir hafa á liðnum árum skrifað BA-ritgerðir, kjörsviðsritgerðir og MA-ritgerðir um áhrif Gamla testamentisins í menningunni.

Ég mun klippa út frétt Morgunblaðsins um þetta efni og halda til haga í safni mínu.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-22/haskolanemar-illa-ad-ser-i-bibliunni/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli