gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Háskólanemar illa að sér í Biblíunni · Heim · Þétt setið í afmælismessu á Nesinu í morgun »

Nótt Elie Wiesels væntanleg á íslensku

Gunnlaugur A. Jónsson @ 10.55 22/2/09

Það er mikið fagnaðarefni að loks skuli von á bók eftir Nóbelsverðlaunahafann Elie Wiesel á íslensku. Það er þekktasta bók hans, bókin Nótt sem kemur út síðari hlutann í mars. Í bókinni segir Wiesel af reynslu sinni af dvölinni í Auschwitz, útrýmingarbúðunum illræmdu.

Sjálfur hef ég lengi verið mikill áhugamaður um bækur Wiesels, á margar þeirra, ýmist á ensku eða sænsku, og hef lengi heillast af þeim skrifum hans þó að ég hafi trúlega lesið enn meira eftir annan höfund sem lifði af vistina í Auschwitz, þ.e. Ítalann Primo Levi.

Elie Wiesel  stendur föstum fótum í hasidim-gyðingdómi, hefur skrifað mikið um það efni eða út frá frásagnarhefði þeirrar greinar gyðingdómsins.  Fyrir áhugafólk um trúarbragðafræði og einkum gyðingdóm eru bækur hans afar áhugaverðar. Mjög vel skrifaðar, listilega oft á tíðum og þekking hans á hinum gyðinglega heimi mikil og traust, og svo fléttar hans frásagnirnar oft og iðulaga svo skemmtilega saman við eigin reynslu.

Ákveðið hefur verið að halda málstofu (málþing) í guðfræði um Elie Wiesel í tilefni af útkomu bókarinnar 23. mars næstkomandi. Þar munu flytja erindi Stefán Einar Stefánsson cand. theol. sem þýddi bókina, dr. Arnfríður Guðmundsson prófessor sem mun fjalla um framlag Wiesels til umræðunnar um þjáninguna og sjálfur mun ég fjalla meira almennt um Wiesel, ævi hans og ritstörf. Endanlegir titlar á fyrirlestrum liggja ekki fyrir.

Málstofustjóri verður dr. Pétur Pétursson prófessor.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-22/nott-elie-wiesels-vaentanleg-a-islensku/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli