gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Nótt Elie Wiesels væntanleg á íslensku · Heim · Aðskilnaður ríkis og kirkju voru mistök, segir Persson »

Þétt setið í afmælismessu á Nesinu í morgun

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.11 22/2/09

Það var þétt setinn bekkurinn í Seltjarnarneskirkju í morgun, í hátíðarmessu í tilefni af 20 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Sjálfur var ég mættur í seinna lagi og tók mig nokkurn tíma að finna sæti. Mér varð hugsað til greinar sem ég las á vefnum nú fyrir helgina eftir kunnan íslenskan stjórnmálamann þar sem hann var að greina trúarlíf Íslendinga fyrir útlendingum og sagði að kirkjur landsins stæðu tómar nema um jól, áramót og páska.

Kynni mín af kirkjusókn eru allt önnur. Kirkjusókn er almennt með miklum ágætum í minni sóknarkirkju, þ.e. Seltjarnarneskirkju, þó að verulega dragi úr sókninni yfir sumartímann og held ég að kirkjusókn á Seltjarnarnesi sé í allgóðu samræmi við það sem almennt gerist í kirkjunum á höfuðborgarsvæðinu. Svo má ekki gleyma því að mikið starf á sér stað í kirkjum landsins á hinum virku dögum vikunnar.

Annars var ekki ætlun mín að ræða um kirkjusókn hér heldur láta í ljósi ánægju mína með sérlega vel heppnaða afmælishátíð í Seltjarnarneskirkju. Fín dagskrá á fimmtudaginn var þar sem þeim dr. Pétri Péturssyni og Heimi Þorleifssyni sagnfræðingi mæltist mjög vel í bland við fína tónlistardagskrá.

Og í morgun kom sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sem lengst af var sóknarprestur við kirkjuna, norðan úr landi til að prédika við þessa hátíðarguðsþjónustu. Flutti hún ágæta prédikun. Þá ávarpaði sr. Frank M. Halldórsson og söfnuðinn en hann þjónaði hér áður en kirkja var reist á Nesinu og var fróðlegt að heyra hann rifja upp þá tíma. Selkórinn lagði sitt af mörkum til þessarar hátíðardagskrár og gerði það vel svo og félagar úr Kammerkór kirkjunnar. Að messu lokinni buðu konur í Kvenfélagi Seltjarnarness kirkjugestum upp á rausnarlegar kaffiveitingar í kirkjunni. Einnig færðu þær kirkjunni gjöf á þessum tímamótum í starfi hennar. Það gerðu og félagar í Rótarýklúbbi Seltjarnarness sem margir voru mættir við messuna í morgun sem og við afmælisdagskrána á fimmtudag.

Ekki verður annað séð en gróska í starfi Seltjarnarneskirkju og skal þá haft í huga að mikið af störfum presta og annars starfsfólks fer fram í kyrrþey, þar sem fólki er mætt á sorgarstundum, í margvíslegum erfiðleikum þess sem og á gleðistundum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-02-22/thett-setid-i-afmaelismessu-a-nesinu-i-morgun/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli