gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Aðskilnaður ríkis og kirkju voru mistök, segir Persson · Heim · “Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan…” Á brott úr borginni »

Þjóðarstoltið lifir í handboltanum

Gunnlaugur A. Jónsson @ 17.36 19/3/09

Enn einu sinni heldur handboltalandsliðið okkar áfram að gleðja mann. Árangur þess í gærkvöldi, glæsilegur útisigur gegn Makedóníu 29-26 kom á óvart því íslenska liðið var fyrirfram talið vængbrotið. Margir af lykilmönnum fjarverandi vegna meiðsla eða af öðrum ástæðum. Þar við bætist að heimavöllur Makedóníu þykir einhver sá erfiðasti í Evrópu.

Ekki hefur borið mikið á umræðu um þjóðarstolt meðal okkar Íslendinga upp á síðkastið. Öðru nær, mönnum verður tíðrætt um að orðspor Íslendinga erlendis hafi beðið hnekki og það að vonum. Þeim mun ánægjulegra er að verða vitni að því að  handboltalandsliðið skuli enn einu sinni sýna að það er í allra fremstu röð. Þar börðust menn af krafti og létu afar skynsamlega. Börðust fyrir þjóð sína.

Þar kemur maður í manns stað og á pappírnum leit út fyrir að nú væri nánast teflt fram varaliði okkar. En þjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson kann sannarlega sitt fag og ungu drengirnir í liðinu, einkum Aron Pálmarsson, sýndu að ekki er ástæða til neins annars en ímynda sér að Ísland verði áfram í fremstu röð í handboltaheiminum. Ekki að undra að tala hafi verið um Aron sem eitthvert mesta efni sem fram hafi komið í íslenskum handbolta. Drengurinn beinlínis gerði út um leikinn á lokamínútunum þó að auðvitað hafi það verið liðsheildin sem skóp sigurinn, frábær markvarsla t.d. og stórkostlegur varnarleikur einnig.

Úrslitin í gær lofa mjög góðu um að Ísland verði með í úrslitakeppni Evrópu 2010 því áður höfðu okkar menn gert jafntefli á útivelli við Norðmenn, en þessar tvær þjóðir eru okkar hættulegustu keppinautar í riðlinum. Raunar yrði það slys úr þessu ef Ísland kæmist ekki áfram.

Flottur leikur í gær sem sannarlega gladdi hjartað hjá gömlum áhugamönnum um handbolta og gott að vita til þess að þjóðarstoltið lifir enn hjá einhverjum Íslendingum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-03-19/thjodarstoltid-lifir-i-handboltanum/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli