gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Þjóðarstoltið lifir í handboltanum · Heim · Obama bauð til páskamáltíðar Gyðinga í Hvíta húsinu »

“Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan…” Á brott úr borginni

Gunnlaugur A. Jónsson @ 11.09 5/4/09

Einn þeirra sálma sem hafa verið á dagskrá hjá mér í námskeiði mínu um Davíðssálma nú í vor er 55. sálmurinn; afar athyglisverður harmsálmur sem ég hef raunar skrifað eitthvað um og meira að segja fjallað um í erindi á erlendum vettvangi. Orðin “Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan…” eru vafalaust þekktustu orð þessa sálms.

Þau töluðu til mín á föstudag er ég var kominn heim eftir kennslu morgunsins og Rótarýfund í hádeginu. Fann ég skyndilega til mikillar löngunar að komast út úr borginni enda veðrið afar fallegt og vor í lofti. Þessa tilfinningu kallaði próf. Björn Björnsson heitinn “get-away-feeling” og kemur trúlega annað slagið yfir flesta borgarbúa.

Svo fór að eiginkonu minni tókst að losna úr vinnu sinni í fyrra fallinu og héldum við sem leið lá austur í sumarbústað tengdaföður míns, bústað sem staðsettur er í Vaðneslandi á fögrum stað við Hvíta, þar sem Ingólfsfjall, fjall bernskuára minna blasir við í allri sinni dýrð.

Það var notalegt að koma í þetta fallega umhverfi, fjarri ys borgarinnar, og virkilega afslappandi að dveljast þarna, þó ekki væri dvölin nema um sólarhringur að þessu sinni.

Raunar hefur Sálmur 55 sitthvað að segja um neikvæðar hliðar borgarlífsins og lýsir því á afar myndrænan hátt: “ég sé kúgun og deilur í borginni; dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir…” o.s.frv. Skemmtileg notkun persónugervinga.

Þess má geta að áhugaverð kvikmynd sækir nafn sitt í þennan sálm, kvikmyndin The Wings of the Dove (Ian Softley, 1997) þar sem ein af mínum uppáhaldsleikkonum, Helena Bonham Carter, fer með eitt af aðalhlutverkunum.

Mæli með Sl 55 til aflestarar. Óvenjulegur harmsálmur. Óvinir koma þar við sögu eins og í flestum harmsálmanna en það er sérstakt við þennan sálm að þarna er aðal óvinurinn sá sem áður hefði verið vinur þess er talar í sálminum, ástúðarvinur. Og kvikmyndin sem ég nefndi hér að ofan sækir mikið meira en nafnið til sálmsins; ástarsaga þar sem fyrrum ástúðarvinur reynist svikull. Myndin gerist að hluta til í Feneyjum; mæli einnig með henni eins og sálminum!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-04-05/o-ad-eg-hefdi-vaengi-eins-og-dufan-a-brott-ur-borginni/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli