gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« “Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan…” Á brott úr borginni · Heim · Áhrifaríkur flutningur Passíusálma í Seltjarnarneskirkju »

Obama bauð til páskamáltíðar Gyðinga í Hvíta húsinu

Gunnlaugur A. Jónsson @ 11.58 10/4/09

Ég las í Jerusalem Post í morgun að Barak Obama, Bandaríkjaforseti, hefði boðið til páskamáltíðar (”seder”) Gyðinga í Hvíta húsinu í gærkvöldi og mun það vera í fyrsta sinn í sögunni sem forseti Bandaríkjanna er gestgjafi við slíka máltíð. Sem áhugamanni um góð samskipti Gyðinga og kristinna manna finnst mér þetta í senn fréttnæmt og gleðilegt.

Sjálfur hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í páskamáltíð Gyðinga, einu sinni í Ísrael (1997) en nokkrum sinnum hjá hinu litla gyðingasamfélagi hér á landi, þar af einu sinni á Keflavíkurflugvelli. Seder-máltíðin er afar trúarleg máltíð, hver réttur hefur táknræna merkingu og vísar með einum eða öðrum hætti til þess atburðar sem minnst er, þ.e. frelsun hinna hebresku þræla, forferða Ísraels, úr ánauðinni í Egyptalandi undir forystu Móse.

Fréttir af páskamáltíð Obama forseta í gærkvöldi greina að máltíðin hafi verið með hefðbundum hætti og lesið hafi verið úr Haggadah (páskafrásögunni) í lok máltíðarinnar. Haggadah hefur að geyma margvíslegar frásagnir og ljóð sem greina frá björguninni úr Egyptalandi.

Áherslan í hinni gyðinglegu hátíð (pesah), sem páskahátíð okkar dregur nafn sitt af, hvílir sterkt á minningunni, en ekki aðeins minningu um liðinn, fjarlægan atburð, heldur minningu sem verður samtímaviðburður  þar sem frelsunin úr þrælahaldinu forðum verður eitthvað sem snertir viðstadda svo sterkt að það er sem þeir upplifi atburðinni að nýju. Allt orðalaga textanna sem hafðir eru um hönd á hátíðinni undirstrika þennan heimfærsluþátt hátíðarinnar.

Páskahátíð Gyðinga í ár hófst við sólsetur á miðvikudagskvöld og er talið að Obama hafi ákveðið að hafa máltíðina ekki fyrsta kvöldið heldur annað kvöld hátíðarinnar svo Gyðingar þeir sem boðnir voru gætu verið með fjölskyldum sínum fyrsta kvöldið.

Skv. Jerusalem Post mun Obama hafa sagt í boðsbréfinu að páskahátíð Gyðinga væri helgi sem hefði boðskap að flytja öllu mannkyni: “Þar sem við tilheyrum hinu stærra alheims samfélagi verðum við öll að vinna að ví að tryggja að bræður okkar og systur, hver sem kynþáttur þeirra er, trúarbrögð, menning eða þjóðerni, séu lausir undan ánauð og kúgun og geti lifað í friði.”

Þess má geta að starfsmannastjóri Hvíta hússins er Gyðingur og margir Gyðingar eru í starfsliði Bandaríkjaforseta. Fréttin af hinni gyðinglegu páskamáltíð í Hvíta húsinu hefur yfirleitt fallið í góðan jarðveg meðal Gyðinga þó vissulega mætti lesa ýmis lesendabréf í Jerusalem Post þar sem því var haldið fram að þetta væri sýndarmennska ein.

Fullyrt hefur verið að mikill meirihluti bandarískra Gyðinga, jafnvel 3/4 hlutar þeirra, hafi kosið Obama í forsetakosningunum.

Páskahátíð Gyðinga stendur sjö daga í Ísrael en átta daga meðal þeirra Gyðinga sem búa utan Ísraels og stærsta Gyðingasamfélagið utan Ísraels er í Bandaríkjunum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-04-10/obama-baud-til-paskamaltidar-gydinga-i-hvita-husinu/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli