gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Obama bauð til páskamáltíðar Gyðinga í Hvíta húsinu · Heim · Við kennslulok í Saltara »

Áhrifaríkur flutningur Passíusálma í Seltjarnarneskirkju

Gunnlaugur A. Jónsson @ 13.56 11/4/09

Það færist stöðugt í vöxt að Passíusálmarnir séu fluttir í heild sinni í kirkjum landsins og í gær, föstudaginn langa 2009, voru þeir fluttir í fyrsta sinn í Seltjarnarneskirkju. Er óhætt að segja að það hafi verið áhrifaríkur flutningur og vel þeginn. Það var Ragnheiður Steindórsdóttir, leikona, sem flutti sálmana í heild sinni, hóf lesturinn kl. 13 og hafði lokið öllum 50 sálmunum um kl. 18:30. Lestur hennar þótti afar áheyrilegur og vandaður í alla staði.

Ekki leyndi sér að þarna fór leikkona sem kunni sitt fag og hitt duldist ekki heldur að sálmarnir eru hennar hjartans mál enda sagði hún m.a. í skrá sem kirkjugestir fengu: “Þegar ég var barn, fannst mér lestur Passíusálma í útvarpinu vera eins konar ‘jóladagtal’ fyrir páskahátíðina. Áherslurnar, hrynjandin og öll skrítnu orðin: aví, forlíka, kallsmælgi, njarðarvöttur – þetta hljómaði leyndardómsfullt og spennandi. Ég hlustaði kannski ekki mjög gaumgæfilega, en inn í barnssálina læddist einhver hátíðleiki og undarlega sorgarblandin tilhlökkun.”

Ragnheiður er bæjarlistarmaður Seltjarnarness í ár og vildi af því tilefni leggja þetta af mörkum og ekki leyndi sér að það mæltist vel fyrir. Mér taldist til að það væru nálægt 70 manns er lesturinn hófst. Fólk sat mislengi, en allan daginn hélt fólk áfram að streyma að og er ljóst að hundruðir manna hafa hlýtt á þennan lestur í Seltjarnarneskirkju, flestir að hluta til en nokkrir stóðu við allan tímann.

Sjálfur hlustaði ég á fimm fyrstu sálmana en þurfti þá heim að sinna afastelpunum mínum en mætti svo aftur síðdegis og náði í sálma 35 til 50. Tók ég þá eftir að ýmsir þeirra sem verið höfðu í upphafi voru komnir aftur eða höfðu jafnvel setið allan tímann.

Fólk lauk upp einum munni um hve þetta hafi verið hátíðleg stund. Sumir klöppuðu í lokin en greinilegt var að mörgum fannst það ekki viðeigandi á föstudaginn langa, og sjálfur er ég í þeim hópi, en fólk notaði í staðinn tækifærið og þakkaði leikkonunni við kirkjudyr.

Sjálfur hef ég um tuttugu ára skeið sótt lestur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju, fyrst árið 1989 er Eyvindur Erlendsson mun hafa lesið öðru sinni sálmana í heild. Þau eru ekki mörg árin sem ég hef misst úr og finnst þetta raunar ómissandi hefði á föstudaginn langa og hin mikla kirkjusókn ber því vitni hve fólki finnst þetta viðeigandi enda sálmarnir einstakt listaverk og boðskapur þeirra sígildur.

Sjálfur á ég mér uppáhaldssálm meðal allra þessara stórkostlegu sálma, það er 48. sálmurinn, ekki síst vegna þess hve atburðir úr Gamla testamentinu er þar notaðir á listilegan hátt sem bakgrunnur atburða píslarsögunnar og hliðstæður dregnar þar á milli. En 44. sálmurinn er líka hreint stórkostlegur og sálmasafnið í heild auðvitað.

Ragnheiður Steindórsdóttir hefur ennfremur þetta að segja um sálmana: “Andríki skáldsins, hvort sem hann áminnir veraldleg eða geistleg yfirvöld eða þakkar frelsara sínum í auðmýkt og trúnaðartrausti, snerti mig djúpt og þessi upplifun dýpkar með hverjum lestri.”

Ragnheiður kemst og vel að orði er hún nefnir Passíusálmana meðal hinna raunverulegu fjársjóða þjóðarinnar. Undir það er full ástæða til að taka. Hún kemst svo að orði: “Framtíð þjóðar okkar byggist á því að hinir raunverulegu fjársjóðir berist frá kynslóð til kynslóðar.”

Á eftir fimmta hverjum sálmi léku þau Elísabet Waage og Matthías Nardeau á hörpu og óbó og jók það á hátíðleik þessarar stundar enda lagavalið mjög viðeigandi og flutningurinn afbragð.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-04-11/ahrifarikur-flutningur-passiusalma-i-seltjarnarneskirkju/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli