gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Áhrifaríkur flutningur Passíusálma í Seltjarnarneskirkju · Heim · Pólitíkusarnir og “óorðnu hlutirnir”! »

Við kennslulok í Saltara

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.31 22/4/09

Þá er kennslu vormisseris lokið. Saltarinn, “mín bók” eins og ég hef talað um hana, var á dagskrá í ritskýringu Gamla testamentisins þetta misserið. Ég held að áherslur mínar hafi verið dálítið aðrar en stundum áður, meiri hugað að uppbyggingu sálmasafnsins og umfram allt gaf ég meiri gaum að harmsálmunum en áður.

Bandaríski biblíufræðingurinn kunni Walter Brueggemann (f. 1932) hefur talað um það sem skaða í trúarlífi einstaklinga og kristinna samfélaga að harmsálmarnir hafi verið vannýttir. Ég held að það sé mikið til í því. Harmsálmarnir eru yfirleitt flokkaðir í harmsálma einstaklings og harmsálma þjóðar en oft geta skilin þar á milli verið dálítið óljós. En þeir eiga erindi bæði í guðrækni einstaklinga og safnaða.

Harmsálmarnir hefjast undantekningalítið á því að ljóðmælandinn tjáir harm sinn eða angist með sterku og oft myndrænu orðalagi, oft virðist angist ekki síst fólgin í því að Guð svarar ekki. Óvinir og fjandmenn koma yfirleitt við sögu, hæða sálmaskáldið og gera grín að trú þess. Líklega er 22. sálmurinn “Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?” þekktastur harmsálmanna enda fór Jesús með upphafsorð hans á krossinum.

Dr. Martin Luther King (1929-1968) er sagður hafa notað fáa biblíutexta meira en 13. sálminn “Hve lengi, Drottinn…” í prédikunum sínum og réttindabaráttu blökkumanna. Sá sálmur hefur oft verið notaður sem dæmi um einkenni harmsálma einstaklings.

Ýmsir andans menn hafa upplifað harmsálmana sterkt er þeir hafa setið í fangelsi. Það átti t.d. við um rússneska andófsmanninn Anatolí Sharansky (síðar ísraelskur stjórnmálamaður með nýju nafni Natan Sharansky) er hann sat um árabil einagraður í fangelsi í Síberíu. Claus Westermann (1909-2000) einn áhrifamesti G.t.-fræðingur 20. aldar samdi mikið og merkilegt rit um sálmana er hann sat í rússnesku fangelsi í lok síðari heimsstyrjaldarinnar og þar gengdu harmsálmarnir stóru hlutverki.

55. sálmurinn er meðal þeirra harmsálma sem mér hafa verið hugleiknir upp á síðkastið, þekktastur fyrir orðin: “Ó að ég hefði vængi eins og dúfan…” Hann kemur við sögu í kvikmyndinni The Wings of the Dove, eins og ég hef víst upplýst áður hér á síðunni.

Ég held að harmsálmarnir eigi brýnt erindi inn í trúar- og bænalíf fólks einmitt nú í kreppunni. Þeir hjálpa fólki að tjá áhyggjur sínar og angist en veita líka mikilvæga von, því harmsálmarnir enda ekki í örvæntingu. Þvert á móti er eitt megineinkenni þeirra að stemmningin breytist í þeim, örvæntingin breytist í fullvissu um bænheyrslu og oftar en ekki enda þeir í hymnastíl.

Sálmarnir eru í heild sinni afar heillandi bók. Þar má segja að sé að finna flest þau stef mannlegs lífs sem máli skipta. Ég hef lengi notið þeirra ríkulega og hef ekki skrifað meira um nokkurt annað rit en þá og á vonandi eftir að koma frá mér stóru riti um þá. Það hefur verið á dagskrá um árabil. 

Á dögunum flutti ég stutt erindi í Rótarýkúbbi Reykjavíkur um menningaráhrif Gamla testamentisins í samtíðinni. Mörg dæmanna sem ég tók voru einmitt sótt í Saltarann. Margir nemendur mínir hafa á liðnum árum skrifað mjög áhugaverðar lokaritgerðir (BA-, kjörsviðs- og MA-ritgerðir) um Saltarann og útlit er fyrir að þeim mun fjölga enn á næstunni.

Nú bíður bunki af nemendaritgerðum úr námskeiðinu nýlokna (flestar 15-18 bls. að lengd) yfirlestrarlestrar  og er ég þegar tekinn til við lesturinn. Það er ánægjulegt verkefni og gefandi.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-04-22/vid-kennslulok-i-saltara/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli