gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Við kennslulok í Saltara · Heim · Traustur vinur í Síraksbók »

Pólitíkusarnir og “óorðnu hlutirnir”!

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.57 27/4/09

Athyglisvert var að heyra Steingrím Sigfússon, formann VG, segja kvöldið fyrir kosningar, í kappræðum formanna flokkanna, að hann gæti ekki talað um “óorðna hluti.” Hann sagði raunar býsna mikið með þessari yfirlýsingu og afstaða hans var dálítið einkennandi fyrir pólitíkina almennt og ekki síst kosningabaráttuna að þessu sinni. Menn tala um fortíðina, í þessu tilfelli fór nánast öll umræðan í tíu daga í að ræða styrkjamál einstakra frambjóðenda fyrir síðustu kosningar. Full ástæða var til að ræða þau mál en svo brýn úrlausnarefni bíða þjóðarinnar að það var ekki gott hve litla umræðu þau úrlausnarefni fengu.

Kjósendur fá sáralítið að vita hvað flokkarnir ætla að gera eftir kosningar. Það blasti við að VG og Samfylking myndu vinna sigur og ná meirihluta. Samt fengust Jóhanna og Steingrímur ekki til að segja fyrir kosningar hvernig þau ætluðu að leysa úr stóra ágreiningsefni sínu: Afstöðunni til Evrópusambandsins.

Það blasti við kjósendum að flokkarnir höfðu þar gjörólíka stefnu. Annar þáttastjórnandinn reyndi raunar mikið til að fá formenn þessara flokka til að segja kjósendum meira, tala skýrar! Það verður leyst eftir kosningar, var sagt, ekki væri hægt að ræða um “órðna hluti” en svo sýnist manni eftir gærdaginn að það sé stál í stál og stjórnarkreppa kunni að blasa við.

Vissulega á Samfylkingin aðra möguleika í stöðunni  en seint myndi Sjálfstæðisflokkurinn fallast á að vinna með henni eftir að hafa fyrirvaralítið verið sparað út úr stjórnarsamstarfi flokkanna í vetur. Hins vegar eru margir snertifletir milli Samfylkingar, Framsóknar og Borgarahreyfingarinnar.

Þetta var skýtin kosningabarátta að þessu sinni, óvenjulega stutt, og fréttamenn virtust bara hafa áhuga á fortíðinni. Íslensk þjóð á heljarþröm sem samt var nánast ekkert rætt um hvernig ætti að leysa vanda þjóðarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Ekki er hægt að ræða “óorðna hluti”.

Söguleg kosningaúrslit vissulega, en strax virðist komin upp pattstaða. Mjög brýn úrlausnarefni bíða, vandi heimila og fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild. Sannarlega erfið verkefni sem blasa við nýrri stjórn, hver sem hún verður. Góðar óskir fylgja þeim er taka við stjórnartaumum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-04-27/polikusarnir-og-oordnu-hlutirnir/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli