gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Pólitíkusarnir og “óorðnu hlutirnir”! · Heim · Tími Selfyssinga loks runninn upp? »

Traustur vinur í Síraksbók

Gunnlaugur A. Jónsson @ 23.37 12/5/09

Góð og gegn Framsóknarkona hringdi í mig í kvöld til að spyrja hvar í Biblíunni væri fjallað um “trausta vininn”. Ég sagði að til að finna hann yrði hún að eiga nýju Biblíuna. Um trausta vininn er nefnilega fjallað í einni af hinum apókrýfu bókum Gamla testamentisins, sem komu að nýju inn í íslensku Biblíuna með útgáfunni 2007. Ég er að tala um Síraksbók 6. kafla.

Þekkt er lagið Traustur vinur eftir Jóhann G. Jóhannsson sem einnig samdi textann. Ekki skal ég fullyrða um að textinn sé undir áhrifum Síraksbókar en vel má það vera. Síraksbók hefur haft mikil áhrif á íslenskt mál og menningu um aldir og er mikið fagnaðarefni að hún sé nú á ný í Biblíu okkar, í frábærri þýðingu sr. Árna Bergs Sigurbjörnssonar heitins.

Árið 1980 lét hljómsveitin Upplyfting lag Jóhanns G. inn á plötu og var það Magnús Stefánsson, síðar þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, sem söng lagið og hefur það gjarnan verið tengt honum síðar og hann oft nefndur “traustur vinur”, ekki síst meðal flokkssystkina sinna.

Í Síraksbók segir svo í k. 6: 14-16:

Traustur vinur er örugg vörn,

finnur þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.

Traustur vinur er verðmætari öllu,

á engan kvarða fæst gildi hans metið.

Traustur vinur er sem ódáinsdrykkur,

sá sem Drottin óttast mun slíkan finna.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-05-12/traustur-vinur-i-siraksbok/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli