gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Tími Selfyssinga loks runninn upp? · Heim · Hrollkalt á sigurleik Selfyssinga »

Af köttum og niðjum

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.50 15/7/09

Mínar fréttir eru ekki á sviði efnahagsmála þjóðarinnar. Fjarri sé mér að gera lítið úr þeim málaflokki en ég læt mér þó að mestu nægja að fylgjast með deilum og átökum um þau efni úr fjarlægð, en hugsa þeim mun meira um barnabörnin og þeirra hagi og svo kettina þeirra. Stóru fréttirnar eru á því sviði. Þar er sitthvað að gerast.

Sonarsonurinn ungi, Friðrik litli Atli, sem ekki hefur verið heiðraður með færslu hér áður - og því sannarlega kominn tími á að segja af afastrák - er farinn að ganga. Efnilegur, ljóshærður  og fallegur piltur, eins og hann á kyn til, virðist gætinn og varfærinn og hefur fram til þess talið praktískara að nota fjóra fætur en tvo en nú er þar orðin breyting á. Símtal með þeim tíðindum barst á dögunum,

Frænkur hans, dótturdætur mínar, Elísabet Una, sjö ára, og Kristrún fjögurra ára, ráku upp hróp er þær heyrðu tíðindin. Þær skynja hvað eru fréttir og hvað ekki enda bæði móðir þeirra og afi fengist við fjölmiðlun. Fréttir af fólki sem manni kemur við og lætur sér annt um. Litli frændi farinn að ganga!

Þær systur eru raunar að flytjast til New York í haust en þar eru foreldrar þeirra að setjast á skólabekk. Hreint ekki litlar fréttir það eða lítil viðbrigði fyrir ungar stelpur  og þó einkum fyrir þá eldri sem þarf að setjast á skólabekk í haust með bandarískum krökkum. Þær systur eru raunar byrjaðar í smá enskunámi og keyrði ég þær uppi í Seljahverfi í gær þar sem elskuleg ensk kona er að segja þeim til og allt gengur eins og í sögu.

En kettirnir þeirra tveir, sem báðir bera nafn úr sögum uppáhaldshöfundarins Astrid Lindgren, þ.e. Lína og Ronja, verða eftir á Íslandi. Og hver skyldi gerast fóstri þeirra? Jú, rétt til getið. Sá er þetta ritar. Þannig að þeirra bíður að flytjast úr Rauðagerðinu og út á Seltjarnarnes í haust.

Að undanförnu hef ég verið í nánu sambandi við kisurnar tvær þar sem ég hef gætt bús og barna á heimili dóttur minnar og tengdasonar sem eru úti í New York að finna íbúð. Kisurnar hafa látið vel að mér og er eins gott að kynnast þeim vel því þær eru þekktar fyrir að strjúka úr vist og ekki vil ég láta það spyrjast  út að mér hafi ekki tekist að passa ketti. Og ekki yrðu afastelpur ánægðar með þær fréttir frá Íslandi að kisurnar væru stroknar. Þannig að hér verður að vanda vel til verka. Þær verða mín uppbót um tveggja ára skeið fyrir að hafa ekki afastelpurnar nærri.

Og svo haldið sé áfram á vettvangi familíunnar þá er brúðkaup í lok sumars. Jón Andreas sonur minn gengur að eiga unnustu sína Hjördísi Evu Þórðardóttur, BA í sálfræði og bæjarfulltrúa í Garðabæ. Frænkurnar litlu áðurnefndu verða brúðarmeyjar og Friðrik litli Atli, sonur brúðhjónanna,  hefur þegar mátað sín veisluföt og tekur sig vel út í þeim, og stendur nú á tveimur fótum í stað fjögurra áður.

Athöfnin verður í Dómkirkjunni, prestur sr. Vigfús Þór Árnason, sá ágæti vinur minn sem ófáar athafnir hefur framkvæmt innan fjölskyldunnar, og sönginn mun Ellen Kristjánsdóttir sjá um og að sjálfsögðu verður Kaldalóns-lag meðal þess sem hún syngur og ekki verður hún í vandræðum með sálmana heldur enda gefið út sálma á diski eins og flestir vita. Allnokkrir gestir komu frá útlöndum enda ekki svo lítill hluti familíunnar búsettur þar.

Þannig að víst er hægt er skrifa og hugsa um sitthvað annað en kreppu. Tilhlökkunar- og ánægjuefnin eru einnig til staðar þó svo að kreppan hverfi víst ekki í bráð.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-07-15/af-kottum-nidjum-new-york-og-brudkaupi/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli