gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Traustur vinur í Síraksbók · Heim · Af köttum og niðjum »

Tími Selfyssinga loks runninn upp?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 08.45 15/7/09

Selfyssingar stigu mikilvæg skref í þá átt að tryggja sér sæti í efstu deild íslenska fótboltans í gærkvöldi er þeir lögðu fyrrum stórveldi Skagamanna 2-1 uppi á Skaga í gærkvöldi og það undir stjórn gamla Skagamannsins og nafna míns Gunnlaugs Jónssonar. Já, kannski að tími Selfyssinga sé loks kominn!

Allt frá því að ég lék ungur drengur með býsna sigursælum og glaðbeittum 5. flokki Selfyssinga undir stjórn hins snjalla þjálfara og æskulýðsleiðtoga Marteins Sigurgeirssonar  fyrir langa löngu hafa taugar mínar verið tengdar mínum gamla heimabæ, einkum á sviði fótboltans. Í fyrra leit lengi út fyrir að Selfyssingum tækist loks að komast í efstu deild. Varð það til þess að ég dreif mig austur fyrir fjall a.m.k. í tvígang til að horfa á mína menn,  en þeir misstigu sig svo í tveimur síðustu umferðunum og misstu Stjörnuna úr Garðabæ upp fyrir sig. Stjarnan hefur svo, þvert á spár, reynst spútniklið úrvalsdeildarinnar í ár. En Selfyssingar hafa líka komið á óvart á 1. deildinni þar sem þeir misstu fjóra af lykilmönnum sínum fyrir leiktíðina en fengu aðeins einn í staðinn, þjálfarann Gunnlaug Jónsson sem raunar hefur lítið leikið með liðinu. Eru þrátt fyrir það í efsta sætinu.

Og eftir sigurinn á Akurnesingum í gærkvöldi hafa Selfyssingar náð sex stiga forystu í deildinni, sem er góð forysta, en erfiðir leikir eru framundan, m.a. útileikur gegn KA á Akureyri. Þannig að ekkert er enn öruggt þó að staðan í svipinn sé harla góð.

Ég hef gert mér ferð á Selfoss í sumar og séð tvo leiki, sem báðir unnust. Hetja Selfyssinga hefur verið Sævar Þór Gíslason, sá mikli markaskorari, sem skorað hefur meira en helminginn af mörkum liðsins. Hann er af mikilli íþróttaætt á Selfossi, og eru hann og tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon systkinasynir. En á stundum hefur mér þótt sem Sævar Þór hafi verið full einmana í framlínu Selfyssinga og engir aðrir líklegir til að skora.

Það var því gott að frétta af því að breyting hafði orðið á því í gærkvöldi er Ingólfur Þórarinsson gerði fyrra mark Selfyssinga. Sævar Þór bætti svo um betur og skoraði það mark sem dugði til sigurs. Gott var líka að fregna að Selfyssingar hefðu tryggt sér nýjan liðsmann, hinn gamalreynda Skagamann og Þróttara hjört Hjartarson fyrir lokaslaginn. Ekki mun af veita og sá piltur kann þá list eins og Sævar Þór að skora mörk.

Ég reikna fastlega með að mæta á fleiri leiki Selfyssinga í sumar og þá væntanlega í fylgd æskufélaga minna Bárðar Guðmundssonar og Sumarliða Guðbjartssonar sem báðir hafa komið mikið við sögu fótboltans á Selfossi og Sumarliði (Dengsi) að margra áliti verið besti leikmaðurinn sem Selfoss hefur alið.

Ég hef af og til í sumar dvalið í sumarbústað tengdaföður míns í Vaðneslandi, fjarri tölvu, og er það ein skýring þess að ég hef ekkert fært hér inn á síðuna svo vikum skiptir. Kreppufréttir hefur mig heldur ekki langað að skrifa um.

En sigur Selfyssinga á stórveldi Skagamanna í gærkvöldi verður mér nú loks tilefni til að slá inn fáein orð á tölvuna. Og vissulega er frá ýmsu öðru ánægjulegu að segja þannig að kannski bæti ég einhverju fleiru við fyrr en varir.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-07-15/timi-selfyssinga-loks-runninn-upp/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli