gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Af köttum og niðjum · Heim · Búrfellsgjá: Fallegasta gönguleiðin í nágrenni Reykjavíkur? »

Hrollkalt á sigurleik Selfyssinga

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.59 24/7/09

Í þriðja sinna í sumar mætti ég á leik hjá 1. deildarliði Selfyssinga í gærkvöldi. Allir leikirnir hafa unnist og í gærkvöldi voru það ÍR-ingar sem máttu þola 0-2 tap gegn spræku liði Selfyssinga.

Það leynir sér ekki að Selfyssingar eru sterkir á sínum heimavelli, tapa þar sjaldan leik. Raunar eru vallaraðstæður á Selfossi með því besta sem gerist á landinu. Fjórir góðir vellir í þyrpingu, þar af einn með gervigrasi og annar fyrir frjálsar íþróttir.

Það var hins vegar afar kalt á Selfossi í gærkvöldi. Ég hafði ekki áttað mig á því er ég lagði af stað úr sumarbústaðnum í Vaðneslandi þar sem ég hef haldið til af og til í sumar. Hitamælirinn sýndi 13 stig og ég klæddi mig í samræmi við það. Mér var orðið skítkalt í hálfleik og þá var gott að komast inn í Tíbrá, húsnæði stuðningsmanna Selfossliðsins í hópi gamalla kunningja frá Selfossi. Staðan þá enn 0-0 en menn bjartsýnir þar sem Selfossliðið hafði leikið vel með talsverðan vind í fangið. Mörkin létu þó á sér standa í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en á 78. mínútu sem Ingólfur Þórarinsson skoraði glæsilegt mark fyrir Selfyssinga. Aðeins 3 mínútum síðar bætti Hjörtur Hjartarson, nýjasti leikmaður liðsins, við öðru marki. Skoraði með skalla nánast af marklínunni; réttur maður á réttum staðþ Þessi mikli markahrókur getur orðið Selfyssingum drjúgur í síðari hluta mótsins.

Eftir leikina í kvöld þar sem Víkingur, Rvk, vann m.a. HK 2-1 hefur Selfoss sex stiga forystu á næsta lið, með 29 stig eftir 13 umferðir. Næsti leikur á útivelli er einmitt gegn Víkingum og sá leikur gæti orðið erfiður Selfyssingum enda Víkingar verið í miklum ham upp á síðkastið og eru skyndilega komnir í toppbaráttuna. Er að hugsa um að mæta á þann leik. Mun klæða mig betur ef á þarf að halda því hitinn var aðeins 5 stig í leikslok í gærkvöldi og mikill hrollur í mér. Svo vaknaði maður upp við að mælst hefði frost á Hvolsvelli í nótt, í fyrsta sinn sem frost mælist í júlímánuði á láglendi suðurlands.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-07-24/godur-heimavollur-selfyssinga/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli