gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Hrollkalt á sigurleik Selfyssinga · Heim · Eva Joly nánast þjóðhetja á Íslandi eftir blaðagrein í fjórum löndum »

Búrfellsgjá: Fallegasta gönguleiðin í nágrenni Reykjavíkur?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 14.05 30/7/09

Í tilefni af því að ég var að senda út tilkynningu um 20. árlegu Strandarkirkjugönguna til göngufélaga minna í gær ákvað ég að drífa mig í hressandi göngu núna í morgun. Og fyrir valinu varð upphafshluti Strandarkirkjugöngunnar, þ.e. Hlíðarvegurinn inn með Vífilsstaðahlíð og svo Búrfellsgjáin og upp á Búrfell.

Sól skein í heiði er ég lagði af stað kl. 9:45 og það var virkilega hressandi að ganga þessa leið sem ég þekki orðið svo vel. Er ég raunar þeirrar skoðunar að Búfellsgjáin sé einhver fallegasta gönguleiðin í nágrenni Reykjavíkur og kannski sú fallegasta. A.m.k. er hún í mestu uppáhaldi hjá mér.

Útsýnið frá Búrfelli, þaðan sem allmikið hrun mun hafa runnið fyrir sjö þúsund árum, er hreint stórkostlegt. Mér varð einkum starsýnt á Grindaskörðin sem eru miðpunktur Strandarkirkjugöngunnar sem verður farin 15. ágúst, en hana gengum við yfirleitt laugardaginn eftir verslunarmannahelgi en síðustu árin hefur það breyst í annan laugardag eftir verslunarmannahelgi.

Ekki seinna vænna að reyna að koma sér í lágmarks gönguform. Ekki mætti ég neinum í Búfellsgjánni en á leiðinni til baka var eitthvað af fólki að skokka eða njóta útivisar á annan hátt á Hlíðarveginum eða annars staðar meðfram Vífilsstaðahlíðinni.

Ég mæli eindregið með Búrfellsgjá sem skemmtilegri gönguleið. Það er ljóst að mikill fjöldi íbúa á stór-Reykjavíkursvæðinu hefur ekki uppgötvað þessi fallegu leið. Búið er að leggja göngustíga nokkuð inn í gjána eða allt að Gjáarrétt.

Ég var kominn tilbaka að bílastæðinu við Heiðmerkuhliðið um það leyti sem hádegisfréttirnar voru að byrja í útvarpinu. En áhuginn á fréttum reyndist með minnsta móti. Náttúrufegurðin og góða veðrið átti athygli mína nær óskipta.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-07-30/burfellsgja-fallegasta-gonguleidin-i-nagrenni-reykjavikur/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli