gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Eva Joly nánast þjóðhetja á Íslandi eftir blaðagrein í fjórum löndum · Heim · Roma Fellinis sýnd með miklum rjóma »

James Bond sem Móse

Gunnlaugur A. Jónsson @ 17.43 2/8/09

Ég horfði á kvikmyndina Defiance (2008) í gærkvöldi, vonum seinna því að þessa mynd hafði ég ætlað mér að sjá er hún var sýnd hér í kvikmyndahúsum, en sýningum, sem voru furðulega fáar, var hætt áður en ég kæmi því í verk. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Myndin, sem ég set í flokk helfararmynda, er óvenjulega hlaðin af biblíulegum stefjum, einkum úr 2. Mósebók (Exodus) og svo er Mósegervingur myndarinnar leikinn af James Bond sjálfum, þ.e. nýjasta James Bond leikaranum Daniel Craig.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum úr síðari heimsstyrjöldinni. Það er árið 1941 sem Bielski-bræðurnir, sem eru Gyðingar, forða sér undan ofsóknum nasista út í þétta skógana þar sem þeir þekkja vel til. Þar kunna þeir að dyljast og bjarga sér.

Oft er talað um að Gyðingar hafi veitt litla mótspyrnu er þeir voru í milljónatali leiddir eins og saklaus lömb til slátrunar í helför nasista á hendur þeim. Þessi mynd hefur aðra sögu að segja. Bielski bræðurnir stofnuðu samfélag Gyðinga úti í skógum Hvíta-Rússlands, og þar tókst þeim að lifa af, við þröngan kost og stöðuga ógn og ofsóknir. Þeir sýndu mikla útsjónarsemi og þeir kunnu að berjast, a.m.k. átti það við Bielski-bræðurnar sem veittu þeim forystu og leiðsögn.

Ekkert fer á milli mála að einn bræðranna, Tuvia, er Mósegervingur. Honum er líkt við Móse á einum stað í myndinni en meiru skiptir að sífellt er beint eða óbeint verið að vísa aftur til Exodus-atburða Gamla testamentisins. Bræðurnir frelsa stóran hóp Gyðinga úr einu af ótal gettóum Austur-Evrópu og kallast sá atburður á við frelsun hinna hebresku þræla úr áþján Egypta í Gamla testamentinu.

Fólkið er hikandi og óánægt og kvartar við Tuvia og spyr sig hvort ekki hefði verið betra að vera áfram í gettóinu. Þar er augljós hliðstæða við stefið kunna um “möglun lýðsins” í 2. Mósebók. Útvalningarstefið kemur og við sögu og raunar á sama hátt og í sumum öðrum helfararmyndum, þ.e. í því samhengi að sú ósk er borin fram að Guð hefði fremur útvalið aðra þjóð.

Einna skýrust er þó hliðstæðan þegar Tuvia leiðir fólkið á flótta yfir sefhaf. Þar getur engum dulist hliðstæðan við atburðina í 2. mósebók 13-14 þar sem Rauðahafið klofnar og hinir hebresku þrælar komast undan. Og raunar er Rauða hafið ekki rétt þýðing á hebresku orðunum “jam súf” sem standa í frumtexta Gamla testamentisins heldur einmitt sefhaf. Og atburðurinn í myndin gerist um páskana en páskar Gyðinga eru jú haldnir til að minnast frelsunarinnar úr ánauðinni í Egyptalandi forðum.

Myndin hefur ekki að geyma margar senur af beinum átökum við hermenn nasista og hefur sumum þótt það veikleiki við myndina. Það finnst mér alls ekki. Athyglinni er íþess stað beint að erfiðleikunum innan samfélags Gyðinganna sjálfra í hinum hörmulegu atstæðum þeirra. “Við verðum að vera sterkir,” segir einn þeirra en bætir svo við “en við verðum líka að vera samfélag” og ljóst er að áherslan hvílir á réttlátu samfélagi.

Þegar stríðinu lauk reyndust 1200 Gyðingar hafa lifað af þarna í skógum Hvíta-Rússlands. Saga þeirra gleymdist síðan að mestu og Bielski-bræðurnir fengu aldrei neina frægð fyrir ótrúlega þrautseigju sína og árangursríka frelsisbaráttu, en sem betur fer var sagan skráð um síðir og þessi áhugaverða kvikmynd loks gerð eftir henni. Þetta er sannarlega saga sem átti það skilið að vera sögð, bæði á bók og í kvikmynd.

Myndina hyggst ég sýna í Deus ex cinema fljótlega og hef jafnvel í hyggju að skrifa betur um síðar því trúarstefin í myndinni eru mun fleiri en hér hefur verið rakin. Áhugaverð mynd sem ég tel eiga skilið meiri athygli en hún hefur hlotið.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-02/james-bond-sem-mose/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli