gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« James Bond sem Móse · Heim · Úrhellisrigning í tapleik Selfyssinga á heimavelli »

Roma Fellinis sýnd með miklum rjóma

Gunnlaugur A. Jónsson @ 00.01 5/8/09

Hefðbundin þriðjudagssýning Deus ex cinema var í kvöld á vegum glerlistamannsins góðkunna Leifs Breiðfjörð á heimili hans og Sigríðar konu hans á Laufásvegi 52. Leifur tók að þessu sinni til sýningar mynd Federico Fellinis (1920-1993)  ”Roma” frá árinu 1972 enda Leifur mikill unnandi Fellinis og hefur áður sýnt nokkrar mynda hans í klúbbnum.

Myndir Fellinis eru býsna fjörlegar, með ýkjustíl má segja og persónusköpun óneitanlega sérstæð. En þetta eru glaðværar myndir með fjörlegri litanotkun og ekki var kvikmyndagerðarmaðurinn kunni heldur hræddur við að hneyksla. Berbrjósta og heldur ókræsilegar portkonur eru meðal þeirra persóna sem koma við sögu í myndinni. Hámarki nær myndin í mikilli tískusýningu ýmissa geistlegra stétta í Róm og hlógum við dátt undir því atriði. Þá var gaman að sjá fjölbreytilegar manngerðir matast heldur græðgislega á götum úti undir tónlistarleik og ýmis konar uppákomum.

Myndir Fellinis einkennast gjarnan af því að draumar, ímyndanir og minningar blandast saman, oft á æslafullan hátt en þar má þó yfirleitt greina alvarlegan undirtón einnig. Sú lýsing finnst mér og eiga við þessa mynd.

Það er tæpast unnt að tala um söguþráð í myndinni, en hún hefur þó verið kölluð hálf-sjálfsævisöguleg og hinn ungi Fellini kemur við sögu í myndinni og Róm sjáum við ýmsum á tímum Mussolonis og fasismans eða á þeim tíma er myndin varð gerð, 1972.

Ég var ekki síst áhugasamur um þessa mynd vegna þess að ég var fyrir u.þ.b. einum mánuði á ráðstefnu í Róm og heillaðist mjög af borginni. En í mynd Fellinis kynntist maður vissulega annarri hlið á Róm.

Áhugaverð sýning og gott samfélag þó það hafi verið með fámennara móti. Auk Leifs og Sigríður voru mættir Egill B. Hreinsson verkfræðiprófessor og Bjarni Randver Sigurvinsson doktorsnemi í trúarbragðafræðum auk mín.

Hafi þau sómahjón Leifur og Sigríður þakkir fyrir sýninguna og góðar móttökur að venju. Eplakaka Sigríðar er löngu annáluð innan Dec-klúbbsins og jafnan er boðið upp á mikinn þeyttan rjóma með henni. Þannig að í kvöld var það Róma með rjóma!

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-05/roma-fellinis-synd-med-miklum-rjoma/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 5/8/2009 10.48

Róm með rjóma hljómar vel! Það var leiðinlegt að missa af sýningunni sem ég heyri að var góð!


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli