gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Roma Fellinis sýnd með miklum rjóma · Heim · Enn verri fréttir í vændum? »

Úrhellisrigning í tapleik Selfyssinga á heimavelli

Gunnlaugur A. Jónsson @ 22.59 6/8/09

Það rigndi jafnt yfir réttláta og rangláta í leik Selfyssinga og HK á Selfossvelli í kvöld. Aðstæður vægast sagt sagt slæmar fyrir knattspyrnuleik og ekki bætti talsvert rok úr skák. Það fór svo að Selfyssingar töpuðu þessum þýðingarmikla leik gegn sterku liði HK, 1-2. Engu að síður heldur Selfoss sex stiga forystu í deildinni, hefur  32 stig en HK er komið í 2. sæti með 26 stig. Þessi lið hafa þó leikið einum leik fleiri en önnur lið deildarinnar.

Ég lét veðrið ekki á mig fá og dreif mig í fjórða sinn á leik á heimaleik Selfyssinga í æskubæ mínum þar sem ég er nú orðinn fullgildur félagi í stuðningsmannaklúbbnum. Það var dimm þoka á heiðinni og ég seinn fyrir og leikurinn nýhafinn er ég mætti. Ekkert mark hafði þó verið skorað.

Ég hitti óvænt gamlan nemanda minn og vin sr. Óskar H. Óskarsson, sem hefur þjónað í Selfosskirkju undanfarna mánuði og farist það vel úr hendi eins og flest sem hann gerir. Með honum voru faðir hans og sonur, og allir heita þeir Óskar. í þeirri familíu er greinilega ekkert verið að breyta því sem vel hefur gefist. Óskararnir þrír héldu mér selskap megnið af leiknum og leitaðist ég við að uppfræða sr. Óskar um eitt og annað sem fram fór í leiknum því ljóst virtist mér að hann er betur að sér í guðfræði en knattspyrnu. En eitt hafði hann á hreinu og það var að markvörður Selfyssinga, Jóhann Ólafur Sigurðsson,  væri bestur maður vallarins. Kann að spila inn í það mat að þeir eru náfrændur! En vissulega varði Jóhann Ólafur oft mjög vel.

Græn regnhlíf mín, keypt í Róm fyrir u.þ.b. mánuði, skýldi mér að allvel en fékk ekki breytt því að ég var gegnblautur í lok leiks og dreif mig hið snarasti í bæinn á ný enda heldur svekktur eftir tap minna manna. Leikurinn var jafn, fannst mér, og  liðin spiluðu á köflum furðulega vel miðað við hinar slæmu aðstæður.

Selfyssingar fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik en markaskoraranum mikla Sævari Þór Gíslasyni mistókst að skora úr spyrnunni. Landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson varði spyrnu hans nokkuð auðveldlega. HK náði síðan forystunni en jöfnunarmark Selfyssinga rétt áður en flautað var til hálfleiks var dæmt af. E.t.v. vegna brots á markverði en ekki sá ég hvað var að eða þeir sem næstir mér stóðu.

Í síðari hálfleik jafnaði svo markaskorarinn mikli Sævar Þór Gíslason með sínu 13. marki í deildinni í sumar og er hann markhæsti maður deildarinnar með 13 mörk í 14 leikjum (hann missti af fyrsta leiknum). Frábært hlutfall það.

En HK svaraði fyrir sig. Jóhann Ólafur, markvörður Selfyssinga, varði fast langskot frá HK en missti blautan boltann frá sér út í vítateiginn og sóknarmaður HK fylgdi vel á eftir og skoraði örugglega. Dálítið klaufalegt hjá Jóhanni Ólafi sem annars átti góðan leik í markinu.

Selfyssingar sóttu í sig veðrið í lokin og fengu nokkur færi, einkum þó Sævar Þór sannkallað dauðafæri alveg í blálokin en í stað þess að leggja boltann í annað markhornið skaut hann bylmingsskoti beint á Gunnleif Gunnleifsson  landsliðsmarkvörð. Dálítið svekkjandi tap Selfyssinga á sterkum heimavelli sínum en vissulega er HK með sterkt lið og ekki kæmi mér á óvart að það yrðu þessi tvö lið sem kæmust upp úr deildinni í ár.

En Selfyssingar verða að passa sig, þeir voru með mjög góða stöðu í fyrra en klúðruðu henni niður í lokaumferðunum og misstu Stjörnuna úr Garðabæ framúr.

Ég hitti sem fyrr nokkra af æskuvinum mínum frá Selfossárunum á vellinum, gamla knattpspyrnukappa (Bárð Guðmundsson, Sumarliða Guðbjartsson og Þorvarð Hjaltason) og var furðu vel mætt á leikinn miðað við hve mikið rigndi.

Selfossliðið er léttleikandi lið og vont veður eins og var í kvöld hentar leik þess illa. Í leikjunum í sumar hefur hinn bráðefnilegi unglingalandsliðsmaður, Guðmundur Þórarinnsson 18 ára, vakið einna mesta athygli mína. Söngvarinn Ingólfur Þórarinsson er bróðir hans, einnig mjög leikinn fótboltaspilari. En liðið er jafnt og hefur líka góðum varamönnum á að skipa.

Að þessu sinni lék þjálfari liðsins, og nafni minn, Gunnlaugur Jónsson allan leikinn og var yfirleitt traustur í vörninni. Hann hefur annars spilað frekar lítið með liðinu en sem þjálfari fengið mjög mikið út úr liðinu og það náð betri árangri en almennt var spáð fyrir keppnistímabilið. En mótinu er ekki lokið og sæti í útvalsdeildinni engan veginn öruggt hjá Selfyssingum og tapið í kvöld er vissulega áminning um það.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-06/urhellisrigning-i-tapleik-selfyssinga-a-heimavelli/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli