gunnlaugur.annáll.is

AnnállAf fréttum og fjölmiðlumÁhrif G.t. í samtíðinniBókakynningarDagbókG.t.-fræðingurinn Guðfr.-alm. Guðfræðideild Gyðingd./ Ísrael Íþróttir KennslaKirkjan KvikmyndirMenningMinnisstæðar persónur og viðburðirRannsóknir og fyrirlestrar

« Úrhellisrigning í tapleik Selfyssinga á heimavelli · Heim · Þögnin mikla á sýningu 677 hjá Deus ex cinema »

Enn verri fréttir í vændum?

Gunnlaugur A. Jónsson @ 09.36 9/8/09

Norskur starfsbróðir minn, sem ég hitti á ráðstefnu fyrir einum mánuði, spurði mig hvort það versta væri ekki gengið yfir á Íslandi. Ég svaraði því til að því miður væri fátt sem benti til þess, þvert á móti virtist sem ástandið ætti eftir að versna umtalsvert áður en það færi að batna á ný. 

Og vissulega halda vondar fréttir áfram að dynja á íslenskri þjóð. Í gærmorgun hlustaði ég sem oftar á umræðuþáttinn “í vikulokin” og eins og svo margir aðrir  tók ég sannarlega eftir orðum Páls Hreinssonar, formanns rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, er hann sagði að líklega myndi nefnd hans færa þjóðinni verri fréttir en nokkur nefnd hafi áður þurft að gera.

Ofan á allar vondu fréttirnar fær nú íslensk þjóð að heyra að enn verri tíðindi séu í vændum en nefndin mun birta skýrslu sína 1. nóvember. Bloggheimar loga yfir þessum tíðindum og menn keppast við að spá í hvað geti verið verra en það sem þegar er fram komið. Ekki ætla ég að reyna að gerast spámaður í þeim efnum en alltaf mátti ljóst vera að það væri ekki neitt fagnaðarerindi sem frá þessari mikilvægu nefnd kæmi. En vissulega brá mér dálítið að heyra þessi orð af vörum hins grandvara hæstaréttardómara sem ekki er kunnur af öfgafullum ummælum.

Nú ætla ég í messu á eftir þar sem vikulega er flutt það fagnaðarerindi sem kristin kirkja hefur flutt um aldir og svo sit ég þessa dagana við að undirbúa kennslu haustsmisserisins þar sem kaflar  40-55 í Jesajaritinu verða einkum á dagskrá hjá mér. Þeir kaflar hafa verið eignaðir nafnlausum spámanni sem starfað hefur meðal Júdamanna sem herleiddir höfðu verið til Babýlon 586 f. kr. Þar höfðu þeir dvalist í nærri hálfa öld er spámaður kom fram meðal þeirra og boðaði þeim von um betri tíð.

Þessi nafnlausi spámaður hefur verið nefndur fagnaðarboðberi Gamla testamentisins eins og upphafsorð 40. kaflans bera með sér: “Huggið, huggið lýð minn.” Kristin kirkja hefur mikilvægu hlutverki að gegna nú í kreppunni þegar vondar fréttir dyngja látlaust á íslenskri þjóð og boðað er að enn verri fréttir séu í vændum.

url: http://gunnlaugur.annall.is/2009-08-09/enn-verri-frettir-i-vaendum/


© gunnlaugur.annáll.is · Færslur · Ummæli